Bráðadeild G2

Inngangur

Árlega leita um 30.000 sjúklingar á bráðadeild G2 eða um 80 sjúklingar á dag. Á bráðadeild er þeim sinnt sem eru slasaðir og veikir og þar fer fram móttaka, greining, meðferð og útskrift á slösuðum og veikum sjúklingum. Þessir sjúklingar þarfnast oft flóknari meðferðar og innlagnar á sjúkrahúsið.

Á bráðadeild eru 30 rúmstæði fyrir sjúklinga. Deildinni er skipt í svæði A, B og skammverueiningu. Vaktstöðvar eru á hverju svæði fyrir sig. Auk þess eru gipsherbergi og skoðunarherbergi fyrir sjúklinga með háls-, nef- og eyrnavandamál. Við móttöku sjúklinga er unnið eftir fimm flokka forgangsflokkunarkerfi. Staðsetning sjúklinga á deildinni er meðal annars ákvörðuð eftir forgangsflokkun.

Deildin gegnir veigamiklu hlutverki í skipulagi Almannavarna og er aðsetur hópslysastjórnar LSH á deildinni. Greiningasveit sem samanstendur af tveimur hjúkrunarfræðingum og tveimur læknum er mönnuð af starfsfólki deildarinnar og er send á vettvang sé þess óskað af Almannavörnum. Allur hópslysabúnaður er geymdur í húsnæði deildarinnar.

Rafræn skráning sjúkraskrár, þar með talin meðferðarseðill hjúkrunar, NOMESCO (samnorræn slysaskráning) og skráning í Slysaskrá Íslands fer fram á deildinni.

Sálræn skyndihjálp er veitt af starfsfólki bráðadeildar. Því til viðbótar starfa tveir hjúkrunarfræðingar og einn sálfræðingur við Miðstöð Áfallahjálpar, en þeir sinna sérhæfðari íhlutun og ráðgjöf.

Á deildinni er Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisafbrota. Við hana vinna sérþjálfaðir hjúkrunarfræðingar og læknar, lögmenn, sálfræðingur, sérfræðingar sýkladeildar og Rannsóknastofu Háskólans í réttarlæknisfræði. Unnið er í samvinnu við lögreglu og embætti Ríkislögreglustjóra.

Á deildinni er upplýsingamiðstöð um eitranir. Læknar svara símafyrirspurnum og veita ráðgjöf um viðbrögð og meðferð við eitrunum í samráði við bakvakt eitrunarmiðstöðvarinnar. Eitrunarsíminn er: 543 2222.

Á deildinni fer fram mikil kennsla og verkleg þjálfun nema. Flestir eru nemarnir frá Háskóla Íslands, læknadeild og hjúkrunarfræðideild, en einnig er veitt kennsla og verkleg þjálfun til nema í heilbrigðisfræðum við Háskólann á Akureyri, nema við Háskólann í Reykjavík, sjúkraflutningamanna (EMT-b, EMT-I, neyðarflutningsnám), stýrimanna- og vélskólanema og annarra. Einnig er alltaf eitthvað um erlenda nema. Fjöldi nema er talsverður og eru kennsluplássin umsetin, enda er deildin ein sinnar tegundar á landinu. Má áætla að um 300-400 nemar komi á deildina og staldri við frá einum degi og upp í 6 vikur.

Hjúkrunarfræðingar deildarinnar veita símaráðgjöf fyrir þá skjólstæðinga sem hafa leitað á deildina. Einnig sinna hjúkrunarfræðingar deildarinnar símsvörun fyrir Medic Alert og áfallahjálp. Gagnagrunnur Medic Alert er vistaður deildinni.

Stjórnendur bráðadeildar G2

Framkvæmdastjóri flæðissviðs er Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir gudrakel@landspitali.is
Yfirlæknir er Jón Magnús Kristjánsson jonmkr@landspitali.is
Deildarstjóri er Ragna Gústafsdóttir ragnagu@landspitali.is
Aðstoðardeildarstjórar eru Ragna María Ragnarsdóttir ragnamr@landspitali.is, Helga Rósa Másdóttir helgamas@landspitali.is og Lovísa Agnes Jónsdóttir lovisaj@lanspitali.is

Hjúkrunarritari er Ingibjörg Ragnarsdóttir ingibjr@landspitali.is
Rekstrarstjóri er Albert G. Arnarson albertg@landspitali.is
Umsjónarmaður móttökuritara er Dagný Halla Tómasdóttir dagnyht@landspitali.is