Áfallamiðstöð

Áfallamiðstöð Landspítala veitir þeim sem leita til bráðamóttöku í Fossvogi sálrænan stuðning og aðstoð við tilfinningalega úrvinnslu nýlegra alvarlegra áfalla. Auk þess sinnir starfsfólk miðstöðvarinnar þeim beiðnum sem berast um ráðgjöf og áfallahjálp innan Landspítala. 

Markmið áfallahjálpar er að aðstoða þolendur að takast á við eðlileg streituviðbrögð í kjölfar alvarlegra áfalla og draga úr alvarlegum og langvinnum sálrænum eftirköstum áfalla. Áfallahjálp er skammtímainngrip með áherslu á forvarnir og mat á þörf fyrir tilvísun í frekari eftirfylgd. Einnig veitir Áfallamiðstöð ráðgjöf fyrir heilbrigðisþjónustu á landinu öllu um áföll og afleiðingar þeirra. 
Markmið Áfallamiðstöðvar Landspítala er að tryggja velferð þeirra sem leita eftir þjónustu vegna nýlegra áfalla þar sem:
 • lífi eða limum er ógnað
      - það er t.d. þolendum líkamsárása, heimilisofbeldis og alvarlegra slysa
 • einstaklingar verða vitni að sérlega alvarlegum áföllum
       - það er t.d. aðkoma að sjálfsvígum
Þjónusta Áfallamiðstöðvar Landspítala
 • Starfsfólk bráðadeildar veitir sálrænan stuðning við móttöku og aðhlynningu. Í framhaldi af því er metin þörf fyrir sérhæfðari stuðning og skrifuð beiðni til starfsfólks Áfallamiðstöðvar ef þörf er á. Sambærilegt mat getur einnig átt sér stað fyrir inniliggjandi sjúklinga á deildum Landspítala.
 • Starfsfólks Áfallamiðstöðvar metur andleg/líkamleg viðbrögð í kjölfar áfalls 
 • Aðstoð er veitt við úrvinnslu áfalls
 • Veitt er fræðsla um algeng og eðlileg streituviðbrögð í kjölfar áfalla
 • Unnið er að styrkingu bjargráða og stuðningskerfa
 • Áhættuþættir m.t.t. áfallastreituröskunar eru metnir og vísað í sérhæft úrræði ef þörf er á
 • Fylgt er lögum um tilkynningaskyldu til barnaverndaryfirvalda
 • Vert er að taka fram að starfsfólk Áfallamiðstöðvar vinnur á dagvinnutíma og áfallahjálp því einungis veitt á þeim tíma
Áfallamiðstöð Landspítala tekur við beiðnum og tilvísunum frá
 • deildum Landspítala
 • fagaðilum utan Landspítala eftir því sem tök eru á 
Áfallateymi 
Áfallateymi Landspítala er einungis virkjað á neyðartímum skv. útkalli almannavarnardeildar Ríkislögreglustjórans eða samkvæmt viðbragðsáætlun Landspítala (pdf). Í teyminu er starfsfólk Landspítala á bráðasviði, geðsviði og kvenna- og barnasviði.