Öldrunarþjónusta

Öldrunarlækningadeild LSH er skipt upp í þrjár einingar; bráðaöldrunarlækningar, heilabilunareiningu og almennar öldrunarlækningar. Auk þess sér öldrunarlækningadeildin um læknisþjónustu við nokkur hjúkrunarheimili og dagdeildir á höfuðborgarsvæðinu. Legurými eru 103 og dagdeildarrými um 40. Meðallegutími á fyrstu 4 mánuðum ársins 2009 er 25 dagar. Árlegar komur á göngudeild eru um 2.300 og komur á dagdeild um 4.700. Á deildinni vinna saman margar fagstéttir, s.s. læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, félagsráðgjafar og læknaritarar. Unnið er að fjölda gæðaverkefna.

Öldrunarlækningadeild B4

í Fossvogi er bráðaöldrunarlækningadeild með 21 sjúkrarúmi. Meginstarf er greining og meðferð bráðra sjúkdóma hjá öldruðum. Sjúklingarnir leggjast flestir inn beint frá bráðamóttöku, gæsludeild eða öðrum bráðadeildum LSH. Einnig er tekið við einstaklingum frá Landakoti sem þurfa á fjölþættum rannsóknum að halda. Þegar sjúklingar hafa fengið greiningu og meðferð útskrifast þeir heim eða fara á aðrar öldrunarlækningadeildir á Landakoti til frekari endurhæfingar og meðferðar. Á B4 eru einnig þeir sem þurfa á lokaða deild vegna vitrænnar skerðingar, einkum vegna óráðs með eða án heilabilunarsjúkdóms.

 

Öldrunarlækningadeild K1, Landakoti, er sjö daga deild sem er 20 rúma meðferðar- og endurhæfingardeild fyrir lungasjúklinga annars vegar og hjartasjúklinga hins vegar. Þar er meginstarfið meðferð og endurhæfing aldraðra og markmið að auka hæfni einstaklingsins til þess að takast á við athafnir daglegs lífs og auka líkamlega, andlega og félagslega færni.

Öldrunarlækningadeild K2, Landakoti, er sjö daga deild í með 20 rúm og 5 fimm daga rúm. Á deildinni fer fram greining, meðferð og endurhæfing með áherslu m.a. á taugasjúkdóma, stoðkerfissjúkdóma.

Vífilsstaðir eru með rými fyrir 42 sjúklinga sem hafa lokið hafa meðferð og endurhæfingu á Landspítala, eru með gilt vistunarmat og bíða varanlegrar vistunar á hjúkrunarheimili.

Öldrunarlækningadeild, L3-0, Landakoti. Deildin hóf starfsemi 1. maí 2009 þegar 20 rúm á öldrunarlækningadeild L3 voru samþætt við dagdeildarstarfsemi á L0 í 40 rýmum. Þangað koma aldraðir sem þurfa innlögn úr heimahúsi vegna fjölþætts heilsufarsvanda, færnitaps, félagslegs vanda eða frá bráðadeildum LSH og þurfa mat, greiningu, hjúkrunar- og læknismeðferð og endurhæfingu eftir að bráðaveikindum hefur verið bægt frá. Á dagdeildinni eru þeir sem geta nýtt sér meðferð á daginn en dvalið heima á kvöldin og um helgar oft í framhaldi af dvöl á fimm daga einingunni.

Almenn göngudeild er rekin í tengslum við almennar öldrunarlækningar. Læknar og hjúkrunarfræðingar auk annarra fagaðila greina þar sjúkdóma og meðhöndla auk þess að veita þeim og aðstandendum upplýsingar og leiðbeiningar. Byltu- og beinverndarmóttaka er einnig á göngudeildinni sem veitir sérhæfða meðferð og fræðslu um byltur. Vísað er til móttökunnar af slysa- og bráðadeild eftir byltu eða brot en frá heimilislækni og öðrum sérfræðingum vegna óstöðugleika og dettni. Á göngudeildinni er einnig móttaka fyrir aldraða með geðræn vandamál en þar starfa öldrunargeðlæknar, hjúkrunarfræðingur og sálfræðingur.

Á Landakoti er ein heilabilunardeild L4 með 14 rúm þar sem er sérhæfð meðferð og endurhæfing fyrir einstaklinga með sjúkdóma sem valda skerðingu á heilastarfsemi. Fram fer mat, greining og læknis- og hjúkrunarmeðferð. Deildin styður líka aldraða með heilabilun sem búa heima og fjölskyldur þeirra með því að bjóða upp á skammtímadvöl með áherslu á greiningu og meðferð við atferlistruflunum. Tengt starfseminni starfar minnismóttaka á göngudeild þar sem fram fer fyrsta greining og meðferð sjúkdóma sem valda skerðingu á heilastarfsemi auk eftirfylgdar. Þjónustan er veitt eftir tilvísun frá lækni.

Rannsóknarstofa Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum (RHLÖ) stendur fyrir rannsóknarstarfsemi innan öldrunarlækninga. Unnar hafa verið umfangsmiklar þverfaglegar vísindarannsóknir í samstarfi við innlenda og erlenda aðila.

Mikil kennslu- og fræðslustarfsemi fer fram í tengslum við öldrunarþjónustu. Vikulegar útsendingar eru jafnan á fræðsluefni frá Landakoti gegnum fjarfundabúnað til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

Útskriftarteymi er starfrækt á spítalanum. Náið samstarf er við starfsmenn útskriftarteymis og öldrunarlæknar starfa í teyminu. Helsta verkefni þess gagnvart öldrunarlækningadeildum er mat á þörf fyrir frekari þjónustu deildanna við sjúklinga á öðrum deildum sjúkrahússins, þar með talin forgangsröðun á biðlistum.

Frá því í maí 2008 hefur verið starfrækt 20 rúma biðdeild á Landakoti fyrir sjúklinga LSH sem bíða eftir varanlegri vistun. Þessi starfsemi er fjármögnuð frá heilbrigðisráðuneyti samkvæmt sérstökum samningi og er starfrækt af elli- og hjúkrunarheimilinu Grund.