Um Iðjuþjálfun

Hvað er iðjuþjálfun?

Skilgreining á iðjuþjálfun skv. alheimssamtökum iðjuþjálfa (World Federation of Occupational Therapists - WFOT).

Iðjuþjálfun er starfsgrein meðal heilbrigðisgreina. Iðjuþjálfar veita heilbrigðis- og félagsþjónustu víða í íslensku samfélagi. Þeir beina sjónum sínum að þeirri iðju sem fólk innir af hendi til að annast sig og sína, leggja sitt af mörkum til samfélagins og njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða. Með aðlögun iðju og umhverfis, þjálfun, fræðslu og ráðgjöf stuðla iðjuþjálfar að aukinni færni og virkri þátttöku fólks í iðju, fyrirbyggja vandamál og efla heilsu. Enn fremur taka þeir þátt í stefnumótun í heilbrigðis-, félags-, menntunar- og atvinnumálum til að tryggja að fólk eigi kost á að stunda fjölbreytta iðju sem stuðlar að lífsfyllingu og góðri heilsu.

Hvenær er þörf?

Þegar erfiðleikar eru við að sinna daglegri iðju á fullnægjandi hátt
Með daglegri iðju er átt við athafnir daglegs lífs (ADL): Eigin umsjá, störf/nám/atvinna og tómstundaiðja.

Eigin umsjá

Felur í sér allar þær athafnir sem einstaklingur leysir af hendi í þeim tilgangi að sinna og viðhalda sjálfum sér.
Sem dæmi má nefna, að klæðast, baða sig, fá sér að borða, tannhirða, lyfjataka, fara um á dvalarstað, nota síma, akstur bifreiðar og kynlíf.

Störf

Til starfa telst öll sú iðja einstaklings sem kemur öðru fólki að gagni og er samfélaginu til góðs.
Störfin geta verið bæði launuð/ ólaunuð og flokkast undir heimilishald, umönnun, nám og atvinna.
Sem dæmi má nefna, innkaup, matreiðsla, að ryksuga, umhirða fatnaðar, fésýsla, sækja um nám, atvinnuleit og sækja vinnu.

Tómstundaiðja/áhugamál

Til tómstundaiðju telst sú iðja einstaklings, sem sprottin er af innri löngun og hefur fyrst og fremst þann tilgang að veita gleði og vellíðan.
Tómstundaiðja er mismunandi eftir því á hvaða lífsskeiði einstaklingurinn er. Hér er meðal annars átt við leiki, íþróttir, útiveru, listsköpun, handíðir, félagsstarf, þáttöku í félagslífi og sjálfboðastarf.

Íðorð iðjuþjálfun, Iðjuþjálfafélag Íslands Rvk.1996.

Metin er færni skjólstæðings við daglega iðju.
Skjólstæðingur velur sér viðfangsefni (í samvinnu við iðjuþjálfa) í iðjuþjálfun varðandi þá færni sem hann vill bæta frammistöðu sína við og/eða auka ánægju sína við.

Þjálfunin fer fram með því að nota athafnir og verk sem hafa þýðingu og eru mikilvæg fyrir viðkomandi.
Athafnir og verk geta verið hluti af því að annast sig og sína, heimilisstörfum, vinnu eða námi og tómstundaiðju.