Teigur - dagdeild

Teigur er eftirmeðferðardeild fíknigeðdeildar sem sinnir sérstaklega fólki með vímuefnavanda auk annars geðræns vanda. Þar er gerð sú krafa að fólk hafi stöðvað neyslu og sé búið að ná lágmarksstöðugleika.

Hvernig meðferð er í boði á Teigi?

Á Teigi er boðið upp á 5 vikna dagdeildarmeðferð sem stendur frá klukkan 9 að morgni til 13:30 þrjá daga vikunnar og til hádegis tvo daga. Sálfræðingar, áfengisráðgjafar og hjúkrunarfræðingar sjá um að keyra daglega dagskrá deildarinnar. Auk þess koma læknar og félagsráðgjafar að málum þegar það á við. Áhersla er á að þeir sem koma á Teig fái sem heildstæðasta úrlausn sinna vandamála með samvinnu allra fagaðila.

Á hverju byggir meðferðin?

Meðferðarprógrammið á Teigi byggir á hugmyndafræði hugrænnar atferlismeðferðar (HAM). Grunnhugmynd HAM er að tilfinningar okkar og líðan ráðist af því hvernig við hugsum um og túlkum veruleikann og það sem gerist í lífi okkar. Með öðrum orðum er það skilningurinn sem við leggjum í atvik og aðstæður sem ræður því hvernig okkur líður yfir þeim. Með því að vinna með hugsun okkar getum við haft áhrif á líðan og hegðun til hins betra. Meðferðin er hönnuð sérstaklega fyrir markhóp deildarinnar, það er fólk með vímuefnavanda auk geðræns vanda.

Hvað er gert í meðferðinni?

Í meðferðinni er lögð mikil áhersla á einstaklingsmiðaða nálgun að vanda hvers skjólstæðings þrátt fyrir að um hópmeðferð sé að ræða. Hver skjólstæðingur hefur sinn meðferðaraðila og fær við hann einstaklingsviðtöl.

Á fyrstu viku meðferðarinnar er unnið að því að kortleggja vanda hvers og eins til að auka skilning á hvar neyslan hefur haft áhrif, hvaða tilgangi hún þjónaði og í framhaldinu hverju þurfi að breyta til að geta verið án vímugjafa. Á þeim þremur vikum sem svo taka við eru kenndar leiðir til að takast á við fíkn og aðrar erfiðar tilfinningar með aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar. Einnig er kynnt fyrir skjólstæðingum aðferðir núvitundar eða árvekni (mindfulness). Auk þessa er mikil fræðsla hluti af dagskránni.

Hvernig er sótt um meðferð á deildinni?

Sótt er um meðferð á deildinni með því að senda beiðni til teymis fíknigeðdeildar. Beiðnirnar geta komið frá heilsugæslulæknum, félagsþjónustu, sjálfstætt starfandi sérfræðingum auk annarra fagaðila. Einnig koma beiðnir frá bráðamóttöku geðsviðs auk annarra deilda spítalans.

  • Sími deildarinnar er 543-4710
  • Sími skiptiborðs geðsviðs er 543-4050