Landspítali Hringbraut - Móttaka 10E

Lyflækningasvið er stærsta svið Landspítala og veitir almenna og sérhæfða læknis- og hjúkrunarþjónustu. Stærstur hluti sjúklinganna leggst inn brátt. Starfsemin er mjög fjölbreytt og nær til gigtsjúkdóma, hjartasjúkdóma, húð- og kynsjúkdóma, innkirtla- og efnaskiptasjúkdóma, lungna- og ofnæmissjúkdóma, krabbameins- og blóðsjúkdóma, meltingarsjúkdóma, nýrnasjúkdóma, smitsjúkdóma, taugasjúkdóma, öldrunarsjúkdóma og endurhæfingar. Viðfangsefni starfsmanna sviðsins snýr því að mörgum algengustu og alvarlegustu heilsufarsvandamálum landsmanna og oft er um að ræða þjónustu sem hvergi er veitt annars staðar á landinu. Á sviðinu eru tvær líknardeildir. Heimahlynning er sérhæfð þjónusta sem miðar að því að gera sem flestum sjúklingum sem njóta líknandi meðferðar mögulegt að vera sem lengst heima. Heimahlynningin starfar í nánum tengslum við líknardeildir sviðsins og líknaráðgjafarteymi. Á sviðinu er mjög öflug og sérhæfð endurhæfingar- og öldrunarþjónusta sem veitt er á dag-, legu- og göngudeildum. Á sviðinu er rekin sjúkra-, iðju- og talþjálfun sem sinnir öllum sjúklingum spítalans sem á þurfa að halda. Starfsemi lyflækningasviðs fer fram á mörgum stöðum þ.e. í Fossvogi, við Hringbraut, á Landakoti, á Grensás og í Kópavogi.

 

Aðalsérgreinar lækninga á lyflækningasviði: Almennar lyflækningar, blóðlækningar, endurhæfingarlækningar, gigtlækningar, hjartalækningar, húð- og kynsjúkdómalækningar, innkirtla- og efnaskiptalækningar, lungnalækningar, lyflækningar krabbameina, meltingarlækningar, nýrnalækningar, smitsjúkdómalækningar, taugalækningar, öldrunarlækningar.

Skurðlækningasvið. Almenn og sérhæfð læknis- og hjúkrunarþjónusta sem nær til svæfingar- og gjörgæslustarfsemi og blóðbanka, auk skurðlækninga. Skurðaðgerðir eru að jafnaði 13 til 14 þúsund árlega og biðlistar yfirleitt stuttir. Auk starfsemi legudeilda er veitt umfangsmikil göngudeildarþjónusta þar sem komur eru rúmlega 36 þúsund á ári, og dagdeildarstarfsemi fer vaxandi. Á sviðinu eru 20 skurðstofur í fjórum byggingum. Á dauðhreinsun að Tunguhálsi fer fram sérhæfð þjónusta sem lítur að dauðhreinsun varnings og búnaðar. Svæfingadeildir eru við skurðstofueiningarnar í Fossvogi og við Hringbraut. Gjörgæsludeildir eru í Fossvogi og við Hringbraut. Vöknun eftir skurðaðgerðir fellur undir starfsemi þeirra. Blóðbankinn við Snorrabraut tilheyrir skurðlækningasviði en þar fer fram blóðsöfnun og blóðvinnsla, auk sérhæfðrar ráðgjafar og verkefna, svo sem við stofnfrumusöfnun og stofnfrumuvinnslu. Auk þess annast Blóðbankinn rekstur blóðbankaþjónustu á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

 

Aðalsérgreinar lækninga á skurðlækningasviði: Almennar skurðlækningar, augnlækningar, blóðbankafræði, bæklunarskurðlækningar, háls-, nef- og eyrnalækningar, heila- og taugaskurðlækningar, hjarta- og lungnaskurðlækningar (brjóstholsskurðlækningar), lýtalækningar, svæfinga- og gjörgæslulækningar, þvagfæraskurðlækningar, æðaskurðlækningar.

Geðsvið sinnir meginstarfsemi sérhæfðrar geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi. Lögð er áhersla á þátttöku í geðheilbrigðisþjónustu þar sem sviðið veitir stuðning og er í samvinnu við heilsugæslu og aðra velferðarþjónustu utan sjúkrahúsa. Á geðsviði fer fram klínísk sérfræðiþjónusta í almennum geðlækningum, fíknilækningum, geðrænni endurhæfingu, samfélagsgeðlækningum, réttargeðlækningum, geðhjúkrun, sálfræði og félagsráðgjöf. Iðjuþjálfun er virkur þáttur í starfsemi geðsviðs en samvinna er við önnur svið um iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, ýmsa aðra sérfræðiþjónustu, þjónustu presta, næringarráðgjafa o.fl. Læknar geðsviðs skipta með sér verkum í samráðskvaðningum við aðrar deildir sjúkrahússins. Sálfræðingar og félagsráðgjafar á geðsviði veita þjónustu öllum klínískum deildum sjúkrahússins. Á geðsviði starfa fjölfagleg teymi sem veita sérhæfða þjónustu. s.s. átröskunarteymi, FMB teymi (foreldrar, meðganga, barn), móttökuteymi, samfélagsgeðteymi, samráðsteymi, fjölskylduteymi og vettvangsgeðteymi. Innan stjórnskipulags geðsviðs starfa við klíníska þjónustu læknar, hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafar, sálfræðingar, sjúkraliðar, íþróttafræðingar, listmeðferðarfræðingar, áfengis- og vímuefnaráðgjafar, ráðgjafar, stuðningsfulltrúar, hjúkrunarritarar og læknaritarar. Rannsóknar- og vísindastörf ásamt kennslu í geðheilbrigðisfræðum er sinnt á geðsviði.

Aðalsérgreinar lækninga á geðsviði: Geðlækningar

Kvenna- og barnasvið 

Á kvennadeildum er veitt sérhæfð læknis- og hjúkrunarþjónusta fyrir konur í meðgöngu, fæðingu og sængurlegu og konur með almenna eða illkynja kvensjúkdóma. Þjónustan er fölbreytt og er veitt á göngu-, dag- og legudeildum eftir atvikum. Þar er sérhæfð þjónusta við konur með sérstaka áhættuþætti á meðgöngu og náið samstarf við starfsfólk barnadeilda, fyrst og fremst vökudeild. Ráðgjöf við aðrar heilbrigðisstofnanir er snar þáttur í starfseminni enda er þessi eining sú langstærsta á landinu. Á Landspítala fæðast nú um það bil þrír af hverjum fjórum nýjum Íslendingum.

Barnaspítali Hringsins

Á Barnaspítala Hringsins er þjónusta við börn og unglinga að 18 ára aldri á bráðamóttöku, dagdeild, göngudeild og legudeildum, þar á meðal nýburagjörgæslu eða vökudeild. Þverfagleg teymi heilbrigðisstarfsfólks veita margs konar sértæka þjónustu, m.a. við börn með sykursýki, krabbamein, hjartasjúkdóma, taugasjúkdóma, svefnvandamál, nýrnasjúkdóma, meltingarfærasjúkdóma, ofnæmissjúkdóma, ónæmissjúkdóma og geðræn vandamál. Barna- og unglingageðdeild (BUGL) við Dalbraut skiptist í göngudeild og legudeildir og sérhæfir sig í mati og meðferð á geðröskunum barna og unglinga ásamt kennslu, handleiðslu og rannsóknum á sviði geðheilbrigðisþjónustu barna. Auk þess veitir vettvangsteymi BUGL eftirfylgd eftir útskrift.

 

Aðalsérgreinar lækninga á kvenna- og barnasviði: Barna- og unglingageðlækningar, barnalækningar, barnaskurðlækningar, fæðingar- og kvensjúkdómalækningar.

Á rannsóknarsviði fara fram myndgreiningarrannsóknir og klínískar rannsóknir í blóðmeinafræði, erfða- og sameindalæknisfræði, klínískri lífefnafræði, líffærameinafræði, ónæmisfræði, sýklafræði og veirufræði. Fyrir utan mjög umfangsmiklar þjónusturannsóknir fyrir öll svið LSH sinnir sviðið einnig þjónusturannsóknum á sjúklingum frá öðrum stofnunum og stofum heilbrigðisstarfsmanna. Sérgreinar rannsóknarsviðs sinna auk þess mörgum sérhæfðum verkefnum, svo sem rekstri blæðaramiðstöðvar á vegum blóðmeinafræðideildar, ýmsum verkefni á sviði réttarlæknisfræði, ráðgjöf um erfðasjúkdóma á vegum erfða- og sameindalæknisfræðideildar og framleiðslu sýklaæta á sýkladeild. Allar einingarnar sinna viðamikilli ráðgjöf utan og innan LSH og fjölbreytilegri samvinnu við aðrar einingar spítalans. Læknar ónæmisfræðideildar sinna einnig klínískri þjónustu við sjúklinga. Myndgreiningardeildir þjóna mjög stórum hópi sjúklinga LSH á legudeildum, bráðamóttökum eða dag- og göngudeildum. Einnig sinna þær sjúklingum frá læknastofum og stofnunum utan LSH og veita stofnunum utan spítalans aðstoð og sérfræðiráðgjöf við úrlestur myndgreiningarrannsókna. Á sviðinu starfa læknar, lífeindafræðingar, geislafræðingar, náttúrufræðingar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, ritarar og fleiri. Geislafræðingar eru fjölmennasta fagstéttin á myndgreiningardeildum og lífeindafræðingar á klínísku rannsóknarstofunum. Starfstöðvar eru á mörgum stöðum en þær stærstu við Hringbraut og í Fossvogi.

Aðalsérgreinar lækninga á rannsóknarsviði: Blóðmeinafræði, erfða- og sameindalæknisfræði, klínísk lífefnafræði, meinafræði, myndgreining, ónæmisfræði, sýklafræði, veirufræði.

Landspítali Fossvogi - inngangur bráðamóttöku

Bráðasvið veitir umfangsmikla og sívaxandi starfsemi í Fossvogi og við Hringbraut. Bráðamóttaka þar skiptist í bráðadeild á G2 og bráða- og göngudeild á G3.  Þar er neyðarmóttaka fyrir fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis, eitrunarmiðstöð og innskriftarmiðstöð. Flestir sjúklingar sem leggjast brátt inn á spítalann koma í gegnum bráðamóttöku í Fossvogi og hjartamiðstöð við Hringbraut. 
Læknisfræðileg ábyrgð sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu er hjá bráðasviðinu fyrir LSH. Samstarf er náið við Neyðarlínuna, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Landhelgisgæslu Íslands um málaflokkinn en læknar sviðsins starfa ásamt áhöfnum sjúkraþyrlu og neyðarbíls við björgun og flutning veikra og slasaðra.

Aðalsérgreinar lækninga á slysa- og bráðasviði: Bráðalækningar

Framkvæmdastjóri lækninga

Framkvæmdastjóri hjúkrunar