Brjóstakrabbamein

brjóstakrabbamein_hausB.jpg (58741 bytes)

Mikilvægt er að einstaklingar sem greinast með brjóstakrabbamein og aðstandendur þeirra fái rétta vitneskju um sjúkdóminn. Fyrirfram ákveðnar hugmyndir um eðli sjúkdómsins og horfur eiga oft ekki við rök að styðjast. Þannig eru horfur nýgreindra kvenna miklu betri en margir gera sér grein fyrir og flestar konur læknast. Á Íslandi eru 85-90% kvenna á lífi 5 ár eftir greiningu og meðferð og 75%-80% á lífi eftir 10 ár.

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein kvenna og er rétt tæplega 30 af hundraði allra krabbameina hjá konum á Íslandi. Nýgengi þess hefur aukist jafnt og þétt á síðustu áratugum. Meðalaldur sjúklinga við greiningu hér á landi er um 61 ár. Þótt brjóstakrabbamein greinist aðallega hjá konum geta karlmenn einnig fengið slík æxli. Brjóstakrabbamein hjá körlum eru þó innan við 1% allra greindra tilfella.

Horfur vegna brjóstakrabbameins hafa batnað talvert á Íslandi, eins og í nágrannalöndum okkar, á síðustu tveimur áratugum.  Þannig hefur dánartíðnin á Íslandi lækkað um 23% þrátt fyrir um 14% hækkun á nýgengi. (Krabbameinsskrá, Krabbameinsfélag Íslands). Betri heildarmeðferð (skurð-, lyfja- og geislameðferð) og það að sjúkdómurinn greinist fyrr en áður eru helstu ástæðurnar fyrir þessum bættu horfum. Í lok árs 1987 hófst skipulögð hópleit að brjóstakrabbameini með brjóstaröntgenmyndatöku hjá íslenskum konum. Er öllum konum á Íslandi á aldrinum 40-69 ára boðið að taka þátt í leitinni á tveggja ára fresti. Tilgangur hópleitarinnar er að auka hlutfall þeirra sem greinast á læknanlegu stigi.

Krabbameinsskrá - nánar um nýgengi brjóstakrabbameina

Líffærafræði brjóstsins - teikning

.

Brjóstvefur er gerður úr fjölda mjólkurkirtla þar sem mjólkin myndast. Hver kirtill tengist mjólkurgangakerfi sem endar í geirvörtunni. Að auki er brjóstið gert úr fitu og bandvef. Vöxtur brjóstkirtlanna er háður næringu og vaxtarþáttum eins og hormónum í blóði og er þroska brjóstsins einkum stjórnað af kynhormóninu östrogeni. 
 

Brjóstakrabbamein byrjar í flestum tilfellum í frumum í mjólkurgöngunum. Undanfari krabbameins er oftast setkrabbamein (ductal carcinoma in situ) en slík mein eru staðbundin og hafa ekki öðlast getu til að dreifa sér út fyrir brjóstið. Þessi mein geta síðan þróast áfram í ífarandi brjóstakrabbamein sem getur dreift sér út fyrir brjóstið og myndað útsæði eða meinvörp í eitla í holhönd eða annars staðar. Um það bil 10% tilfella hér á landi greinast sem setkrabbamein en 90% sem ífarandi sjúkdómur sem er það sem við flest eigum við sem brjóstakrabbamein.

Brjóstakrabbamein er langalgengasta krabbameinið meðal kvenna og er algengast í Norður-Ameríku, Evrópu, Ástralíu og syðri hluta Suður-Ameríku en sjaldgæfara í Asíu og Afríku. Brjóstakrabbamein er ekki einungis að aukast í Vesturheimi heldur einnig t.d. í Japan.

Ekki er vitað hvað veldur brjóstakrabbameini en þekktir eru ýmsir áhættuþættir svo sem erfðaþættir, hormónar og neysluvenjur. Erfðaþættir eru taldir hafa þýðingu í u.þ.b. 10% brjóstakrabbameina. Fundist hafa stökkbreytingar í ákveðnum genum (BRCA-1 og BRCA-2 (BRCA er skammstöfun fyrir breast cancer)) sem auka verulega hættu á að einstaklingar með slíkar stökkbreytingar fái brjóstakrabbamein. Arfgengt brjóstakrabbamein hefur tilhneigingu til að koma fram hjá ungum konum.
Sjá nánar um erfðir/BRCA

Landfræðilegur munur á nýgengi og rannsóknir á hópum fólks sem flutt hafa milli svæða þar sem tíðni er há og svæða þar sem tíðni er lág benda til þess að umhverfisáhrif hafi mun meiri þýðingu en erfðaþættir fyrir hættu einstaklinga á að fá brjóstakrabbamein. Kvenhormón skipta miklu máli varðandi myndun brjóstakrabbameins og eru brjóstakrabbamein 100 sinnum algengari hjá konum en körlum. Hættan á að fá brjóstakrabbamein er lítillega aukin hjá konum sem byrja ungar á blæðingum og hjá konum sem fara mjög seint á breytingaskeið. Hins vegar er minni áhætta hjá konum sem eignast sitt fyrsta barn fyrir 18 ára aldur og konum sem eignast mörg börn.

Áhrif getnaðarvarnarpillu á brjóstakrabbameinsáhættu virðist vera fremur lítil. Notkun tíðahvarfahormóna í lengri tíma hefur heldur meiri áhættu í för með sér.

Offita, lítil líkamleg hreyfing (sem getur aukið östrogen í líkamanum) og óhófleg áfengisneysla eru einnig taldir vera áhættuþættir brjóstakrabbameins. Nýlegar rannsóknir benda til að reykingar geti aukið hættu á myndun brjóstakrabbameins. Á hinn bóginn virðist regluleg hreyfing eða líkamrækt minnka áhættuna.

Logo brjóstakrabbameina

Tíminn frá greiningu brjóstakrabbameins að skurðaðgerð getur verið erfiður. Oft er óvissa um eðli og umfang sjúkdómsins og hvort eða hvers konar viðbótarmeðferð kunni að vera ráðlögð eftir skurðaðgerðina.  Þessi óvissa getur valdið áhyggjum. Kvíði, óróleiki og svefntruflanir eru ekki óalgeng einkenni á þessum tíma.

Meðferð þeirra sem greinast með brjóstakrabbamein á Landspítala byggir á samvinnu þar sem margir fagaðilar koma að með mismunandi sérþekkingu. Bæði fyrir og eftir aðgerðina er meðferðin rædd á samráðsfundum en á þeim sitja skurðlæknar og hjúkrunarfræðingar, krabbameinslæknar sem annast lyfja- og geislameðferð og meinafræðingar sem greina tegund meinsins og eðli með smásjárskoðun á æxlinu.

Segulómun

Segulómun á brjóstum

Konur sem hafa farið í myndgreiningarrannsóknir hjá Krabbameinsfélagi Íslands, annað hvort vegna einkenna frá brjóstum eða eftir hópleitarmynd þar sem grunur hefur vaknað um brjóstakrabbamein, er vísað á brjóstamiðstöð Landspítala við Hringbraut.  Í fyrsta viðtali er greining gefin af lækni og meðferðarleiðir ræddar. Hjúkrunarfræðingur er einnig viðstaddur. Stundum er ákvörðun um meðferð tekin í þessu viðtali en oft þarf að gera frekari rannsóknir, svo sem segulómskoðun af brjóstum áður en hægt að ákvarða meðferð.

Segulómskoðun er gerð í tvennum tilgangi. Annars vegar er slík rannsókn talin næmari til að meta stærð og útbreiðslu meinsins í brjóstinu og hugsanlega í eitlum en venjuleg röntgenmynd og ómskoðun hjá Krabbameinsfélaginu. Hins vegar er rannsóknin gerð til að skoða betur hitt brjóstið. Oftast staðfestir segulómskoðunin aðeins fyrri myndgreiningar sem gerðar hafa verið en stundum getur þessi rannsókn breytt ráðleggingum um aðgerð. Þegar niðurstöður segulómskoðunarinnar liggja fyrir er tekin ákvörðun um tegund og dagsetningu skurðaðgerðar. Ef flóknari aðgerð er fyrirhuguð (t.d. brjóstauppbygging) þarf fleiri viðtöl áður en ákvörðun er tekin.

Í fyrsta viðtalinu fá allar konur símanúmer hjá hjúkrunarfræðingum sem veita símaráðgjöf eða bóka tíma í viðtal.