Leit
Loka

Grensásdeild

Deildin sinnir fjölbreyttum hópi sjúklinga sem eiga það sameiginlegt að hafa tapað færni, tímabundið eða varanlega vegna slysa eða veikinda. Stundum er um að ræða marga sjúkdóma samtímis.

Deildarstjóri

Sigríður Guðmundsdóttir

siggud@landspitali.is
Yfirlæknir

Magdalena Ásgeirsdóttir

magdas@landspitali.is

Banner mynd fyrir  Grensásdeild

Hafðu samband

OPIÐAllan sólarhringinn alla daga

Grensásdeild - mynd

Hér erum við

Grensásdeild við Álmgerði

Hagnýtar upplýsingar

Endurhæfingardeildin á Grensási var opnuð 26. apríl 1973 þegar fyrsti sjúklingurinn kom þangað. Hún hefur síðan gengið undir nafninu Grensásdeild.

Markmið og starfshættir
Markmið endurhæfingar er að gera einstaklinga eins sjálfbjarga líkamlega, andlega og félagslega og geta leyfir.

Leiðir að markmiðum eru margar svo sem að auka styrk og þol, auka færni við ýmsar athafnir daglegs lífs eða þjálfa mál og tal.

Þetta krefst virkrar þátttöku einstaklinga og þeirra sem standa þeim næst. Mikilvægt er að markmið séu eins skýr og unnt er.

Sett eru tímamörk til viðmiðunar og þau endurmetin reglulega. Teymisvinna er sérstaklega mikilvæg vegna þeirra flóknu verkefna sem unnið er að. Samvinna starfsmanna og sjúklings miðar að því að ná settu marki með því að samþætta sérþekkingu og framlag hvers og eins.

Sjúklingur er kjarni teymisins og með honum starfar hópur fagfólks; meðferðarteymi.

Fjöldi fagaðila í hverju teymi fer eftir eðli verkefnis.

Samsetning teymis er breytileg, að jafnaði hittir sjúklingur:

  • Lækni
  • Hjúkrunarfræðing
  • Sjúkraþjálfara
  • Iðjuþjálfa

Sjúkraliðar, sálfræðingar, félagsráðgjafar, talmeinafræðingar og næringarfræðingar eru oft burðarásar í þeim verkefnum sem leysa þarf.

Stoðtækjafræðingar og sjúkrahúsprestar koma einnig til ráðgjafar og aðstoðar sé eftir því leitað.

Teymið hittist eins oft og þurfa þykir, ýmist með sjúklingnum einum eða með honum og fjölskyldu hans.

Markmiðs- og fjölskyldufundir

Reynt er að hafa markmiðsfundi stutta, um 15 mínútur og fjölskyldufundi um 30 mínútur.

Markmið funda er að tryggja að allir, sjúklingur, fjölskylda hans og meðferðarteymi, séu samstiga og að endurhæfingarferlið sé skýrt. Á þann hátt skapast gagnkvæmt traust.

Brúarfundir

Í vissum tilvikum er þörf á að samhæfa þjónustuna að lokinni útskrift.

Haldnir eru fundir með því fagfólki sem tekur við sjúklingi svo sem félagsþjónustu, heimahjúkrun og fleirum.

Þjónusta á Grensásdeild - Sólarhringsdeild

Endurhæfingardeildin á Grensási sinnir fyrst og fremst sjúklingum sem koma frá öðrum deildum Landspítala.

Sólarhringsdeild (vinnulag og viðmið fyrir innlögn)
Læknir sjúklings á Landspítala hringir í ráðgjafarsíma endurhæfingarlækninga og sendir beiðni um ráðgjöf. Ákvörðun um innlögn á endurhæfingardeild er alfarið á hendi endurhæfingarlækna og er þá sérstaklega getið í svari viðkomandi læknis. 

1. Sjúklingur hefur færniskerðingu og heilsubrest sem þarfnast

  • sérfræðiþjónustu endurhæfingarlæknis
  • endurhæfingarhjúkrunar allan sólarhringinn
  • meðferð fjölfaglegs teymis s.s. sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, talmeinafræðinga, sálfræðinga og félagsráðgjafa
2. Ástand sjúklings telst nægilega stöðugt til að
  • hægt sé að sinna sjúklingi með öruggum hætti á endurhæfingardeild
  • sjúklingi sé talið fært að taka þátt í endurhæfingu samhliða annarri meðferð
3. Sjúklingur er talinn fær um þátttöku í endurhæfingarmeðferð eða er talinn verða það innan fárra daga.

4. Fyrir liggja skýr markmið sem eru raunhæf og geta leitt til aukinnar færni til sjálfsbjargar

5. Góðar líkur eru taldar á að sjúklingur hafi gagn af meðferðinni og hafi áhuga á að taka þátt í þjálfun. 

6. Aldursviðmið 
  • Almennt viðmið: 18 til 75 ára
  • Yngri en 18 ára í völdum tilvikum í samráði við barnadeild og foreldra
  • Allt að 85 ára í völdum tilvikum
            a. Afmarkaður heilsufarsvandi sem fellur að þeim verkefnum sem deildin sinnir
            b. 85 ára og eldri fari í öllum tilvikum á öldrunarlækningadeildir

Dagdeild
Ákvörðun um innritun beint á dagdeild fer fram á sama hátt og að framan greinir.

Göngudeild
Til að fá þjónustu á göngudeild þarf eftir atvikum tilvísun eða beiðni um þjálfun frá lækni.



Endurhæfingardeildin á Grensási sinnir fyrst og fremst sjúklingum sem koma frá öðrum deildum Landspítala.  Deildin sinnir fjölbreyttum hópi sjúklinga sem eiga það sameiginlegt að hfa tapað færni, tímabundið eða varanlega, vegna slysa eða veikinda.  Stundum eru um að ræða marga sjúkdóma samtímis.

Hér eru nokkur algeng viðfangsefni:

Missir útlims

Algengustu ástæður aflimunar eru blóðrásartruflanir vegna æðakölkunar eða sykursýki. Aðrar ástæður geta verið æxli, sýkingar, slys eða meðfæddir gallar.

Tilgangur aflimunar er að fjarlægja þann hluta fótarins þar sem blóðflæði er orðið það lítið að drep hefur myndast, stöðva þjáningu t.d. þegar litlar líkur eru á að bein grói eftir slys eða að auðvelda endurhæfingu t.d. vegna meðfæddra galla. Ávalt er reynt að fjarlægja sem minnst af fótleggnum til að hreyfing og göngufærni skerðist sem minnst.

Að læra að ganga á gervifæti getur verið erfitt verkefni sem krefst mikillar orku og þjálfunar sérstaklega þegar aflimun er ofan við hné. Í upphafi endurhæfingar eru því allir þjálfaðir í að verða sjálfbjarga í hjólastól.

Þegar ákvörðun um val á gervifæti og tilheyrandi gönguþjálfun er tekin þarf að taka mið af aldri og almennu heilsufari.

Boðið er upp á eftirlit í framhaldi af útskrift.

Fyrirtæki sem eru í samvinnu við Grensásdeild:

Langvinn veikindi

Ýmsir sjúkdómar eru í eðli sínu langvinnir. Þeim sem búa við afleiðingar langvinnra sjúkdóma, t.d. sykursýki og krabbameins fjölgar stöðugt og lífslíkur þeirra aukast. Bráð veikindi geta breyst í langvinn veikindi sem geta komið hægt og sígandi jafnvel án þess að einstaklingurinn geri sér grein fyrir þeim.

Bráð veikindi geta valdið stigvaxandi álagi og bilun í mörgum líffærakerfum. Þetta kallast fjölkerfabilun. Algengust eru nýrnabilun, hjartabilun og lungnabilun. Truflun á efnaskiptum og næringu er vel þekkt og getur leitt til röskunar á starfsemi tauga og vöðva með tilheyrandi vöðvarýrnun. Einkenni geta m.a. verið slappleiki, þreyta, geðdeyfð, lystarleysi og jafnvægistruflun.

Innlögn á endurhæfingardeild getur verið nauðsynlegt framhald langrar legu á gjörgæslu og bráðadeildum. Oft er þörf fyrir áframhaldandi þjónustu frá öðrum deildum Landspítala samhliða endurhæfingu.

Fjöláverkar

Alvarleg slys eru nokkuð algeng í okkar þjóðfélagi. Algengustu áverkar eru beinbrot, áverkar á innri líffærum og skaðar á taugakerfi.

Áherslur í endurhæfingu taka mið af þeim skaða sem sjúklingur hefur orðið fyrir.

Áverkar á heilavef eða mænu þarfnast sértækrar meðferðar sem fjallað er um hér (tenglar).

Oft er þörf fyrir áframhaldandi samhliða þjónustu frá öðrum deildum Landspítala.

Mænuskaðar

Taugakerfið samanstendur af heila, mænu og úttaugum. Skaði á taugakerfi veldur því að boð berast ekki með eðlilegum hætti um kerfið. Við skaða á mænu ræðst umfang einkenna af því hve ofarlega á mænunni skaðinn er og hvort um er að ræða alskaða eða hlutskaða.

Alskaði á mænu lýsir sér í þverlömun , þar sem engin boð berast niður fyrir mænuskaðann, sem veldur lömun og skertu skyni, s.s. snerti- og sársaukaskyni. Við hlutskaða er skaðinn ekki alger þannig að eitthvað af hreyfiboðum og/eða skynboðum berast yfir skaðasvæðið.

Því ofar sem skaðinn er því meiri verður lömunin. Hár mænuskaði (í hálshrygg) getur haft áhrif á bol og alla útlimi en lágur mænuskaði (í lendhrygg) hefur áhrif á neðri útlimi.

Helstu orsakir mænuskaða eru áverkar en ýmsir sjúkdómar geta einnig valdið mænuskaða t.d. krabbamein eða brjósklos.

Endurhæfing , heilsurækt og eftirlit

Lögð er áhersla á sjálfsbjörg og sjálfstæði í öllum athöfnum daglegs lífs og aðlögun umhverfis að nýjum aðstæðum. Þjálfuð er færni við að takast á við breyttar aðstæður og kennt að hugsa um líkamann á nýjan hátt og á nýjum forsendum.

Regluleg heilsurækt er mikilvæg til að viðhalda styrk, liðleika og úthaldi. Sumir stunda æfingar hjá Íþróttafélagi fatlaðra, aðrir á heilsuræktarstöðvum eða í hópþjálfun á Grensási.

Boðið er upp á reglulegt eftirlit, þar sem er farið yfir heilsufar og hjálpartækjamál.

Heilaskaðar 

Heilinn getur orðið fyrir skaða vegna áverka eða sjúkdóma. Sjúkdómar sem valda heilaskaða eru t.d. heilablóðfall, sýkingar í heila og súrefnisskortur við hjartastopp. Heilaskaði getur einnig orðið til við höfuðáverka í slysum af ýmsum toga. Umferðarslys eru algengasta orsök heilaskaði í yngri aldurshópum en föll hjá þeim sem eldri eru.

Heilaskaðar eru flokkaðir í væga, miðlungs eða alvarlega út frá alvarleika einkenna í upphafi. Eftir því sem meðvitundarskerðing er meiri og varir lengur því alvarlegri telst skaðinn.

Einkenni eftir heilaskaða eru mjög einstaklingsbundin. Þau vara einnig mislengi og fara að nokkru leyti eftir staðsetningu, eðli skaðans og alvarleika. Þannig eru líkur á því að þeir sem fá alvarlegan, dreifðan heilaskaða fái mikil einkenni sem vara lengi og séu lengur að ná sér en þeir sem fá vægari skaða.

Í upphafi eru bráð einkenni mest áberandi, eins og meðvitundarleysi, höfuðverkur, svimi, ógleði og uppköst. Þegar fólk kemur til meðvitundar og bráðastigið er gengið yfir verða önnur einkenni meira áberandi. Þau má flokka í líkamleg einkenni og hugræn einkenni.

Líkamleg einkenni geta verið lömun í útlimum, skert skyn, skert samhæfing, jafnvægistruflun, sjónskerðing og mál- eða taltruflanir.

Hugræn einkenni eru margvísleg og geta bæði snúist um vitræna getu en einnig geðræn einkenni eða breytta hegðun. Flestir finna fyrir þessum einkennum að einhverju marki. Með vitrænum einkennum er átt við t.d. minnistruflanir, skipulags- og athygliserfiðleika, skerta einbeitingu og skert andlegt úthald eða þreytu sem oft er mjög áberandi. Geðræn einkenni geta t.d. verið þunglyndi/depurð, kvíði, skert frumkvæði, hvatvísi og ýmiss konar hegðunartruflanir.

Endurhæfing felst m.a. í því að þjálfa þá þætti sem eru skertir, eins og minni, athygli og einbeitingu. Í endurhæfingarferlinu er einnig lögð áhersla á fræðslu og aðlögun einstaklings og umhverfis því að í mörgum tilvikum ganga einkenni ekki að fullu tilbaka. Endurhæfing verður alltaf einstaklingsbundin því afleiðingar heilaskaðans eru mismunandi og því breytilegt hvað þarf að leggja áherslu á í hverju tilviki fyrir sig.

Flestir sem fá miðlungs eða alvarlega heilaskaða þurfa á endurhæfingu að halda. Við vægari heilaskaða þarf fyrst og fremst ráðgjöf og eftirfylgd.

Heilablóðfall

Heilablóðfall er það kallað þegar truflun verður á blóðflæði til heilans. Það getur verið vegna blæðingar í eða utan við heilavefinn eða vegna þess að æð lokast í kjölfar blóðtappa. Æðar lokast annað hvort af því að þær hafa smá saman verið að þrengjast eða af því að blóðtappi lokar þeim skyndilega. Heilablóðföll koma oftast án mikils fyrirvara og gefa skyndileg einkenni.
Einkenni eftir heilablóðfall geta verið margvísleg og mismikil eftir stærð og staðsetningu heilablóðfallsins. Málstöðvar eru t.d. í vinstra heilahveli hjá flestum.

Lömun í öðrum líkamshelmingnum er eitt algengasta einkennið og getur hún verið allt frá því að vera mjög væg yfir í það að vera alger. Önnur einkenni geta verið skert húðskyn og jafnvægi, sjóntruflanir, verkstol, gaumstol, málstol, þvoglumælgi, kyngingarerfiðleikar o.fl. Þessi einkenni eru mismikil. Sumir geta haft mörg þessara einkenna á meðan aðrir hafa einungis hluta þeirra. Heilablóðfall í vinstra heilahveli veldur einkennum í hægri líkamshelmingi og öfugt.

Endurhæfing miðar að sjálfsbjörg og sjálfstæði við allar athafnir daglegs lífs. Boðið er upp á heilsurækt í hópþjálfun að lokinni útskrift.

Stjórnendur

  • Sigríður Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur, deildarstjóri s. 543 9118
  • Sigrún Garðarsdóttir, yfiriðjuþjálfi
  • Ída Ómarsdóttir, yfirsjúkraþjálfi
  • Ester Sighvatsdóttir, yfirtalmeinafræðingur

Félagsráðgjöf

Félagsráðgjafi á endurhæfingardeild veitir einstaklingum og fjölskyldum þeirra stuðning og ráðgjöf til að takast á við breyttar aðstæður sem koma upp í kjölfar veikinda eða slysa.

Hjúkrun

Hjúkrun á endurhæfingardeild byggir á fjölskylduhjúkrun.

Hver sjúklingur fær sinn umsjónarhjúkrunarfræðing og sjúkraliða sem eru ábyrgir fyrir hjúkrunarmeðferð meðan á meðferð stendur. Með því er leitast við að tryggja samfellu í þjónustu, einfalda tjáskipti og styrkja tengslamyndun og traust.

Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar aðstoða sjúklinginn við alla grunnþætti daglegs lífs, viðhalda eða auka líkamlega, andlega og félagslega færni og aðstoða hann og fjölskylduna við aðlögun að breyttum aðstæðum. Einnig aðstoða þeir við að yfirfæra á daglegt líf það sem lærst hefur í þjálfun.

Iðjuþjálfar

Samhliða færniþjálfun til eigin umsjár, heimilisstarfa, atvinnu og tómstunda er farið í heimilis- og vinnustaðarathuganir og mat á akstursfærni þegar þörf krefur. Auk þess eru veittar ráðleggingar við val og útvegun hjálpartækja.

Læknar

  • Guðrún Karlsdóttir, yfirlæknir
  • Páll Eyjólfur Ingvarsson, sérfræðilæknir
  • Finnbogi Jakobsson, sérfræðilæknir
  • Ólöf Halldóra Bjarnadóttir, sérfræðilæknir
  • Magdalena Ásgeirsdóttir, sérfræðilæknir
  • Gunnar Björn Gunnarsson, sérfræðilæknir

Endurhæfingarlækningar er sú sérgrein lækninga sem sérhæfir sig í svokallaðri læknisfræðilegri endurhæfingu.

Með því er átt við aðferð þar sem saman fara læknisfræðilegar, sálfræðilegar, félagslegar og tæknilegar úrlausnir sem miða að því að hver einstaklingur nái mestri mögulegri færni og lífsgæðum og viðhaldi þeim.

Verkefni lækna á endurhæfingardeild eru mjög fjölbreytt:

  • Rannsóknar- og greiningarvinna í þeim tilvikum sem henni hefur ekki verið lokið fyrir komu á endurhæfingardeild
  • Ráðgjöf á deildum Landspítala
  • Vinna í meðferðarteymum og fagteymum

Þá er sinnt ýmsum skipulögðum verkefnum svo sem eftirliti í kjölfar ígræddra lyfjadæla og þindarraförva.

Næringarráðgjafar

Næringarráðgjafi kemur vikulega. Hjúkrunarfræðingar veita nánari upplýsingar.

Sálfræðiþjónusta

Veikindi og slys hafa margbreytileg áhrif bæði á sjúkling og fjölskyldu hans. Hlutverk og samskipti innan fjölskyldunnar geta breyst. Framtíðaráform geta breyst og vinna þarf úr tilfinningalegum og félagslegum afleiðingum áfalls. Sumum reynist erfitt að glíma við slíkt andstreymi upp á eigin spýtur. Í þeim tilvikum getur sálfræðilegur stuðningur eða meðferð skipt máli.

Starf sálfræðings felst í að meta andlega líðan, veita meðferð og stuðning. Andlegt jafnvægi skiptir miklu máli varðandi það hvernig til tekst að vinna úr þeirri röskun sem verður á lífinu í kjölfar sjúkdóms eða slyss.

Stuðningur við aðstandendur er einnig í boði ef þörf er á.

Taugasálfræðiþjónusta
Taugasálfræðingar meta hugrænar afleiðingar heilaskaða af völdum áverka eða sjúkdóma.

Við taugasálfræðilegt mat er stuðst við stöðluð próf og matslista. Niðurstöður gefa til kynna taugasálfræðilega styrkleika og veikleika sjúklings, m.a. hvað snertir minnisþætti, einbeitingu, athygli, úthald, sjálfsstjórn, hraða í hugarstarfi og skipulag.

Einnig er lagt mat á aðlögunarfærni og líðan einstaklingsins. Taugasálfræðileg ráðgjöf, meðferð og endurhæfing byggir á niðurstöðum matsins.

Með markvissri hugrænni endurhæfingu er hægt að ýta undir bata. Verið er að þróa nýar leiðir í þessu sambandi, m.a. með sérhæfðum tölvuforritum.

Sálgæsla

Sjúkrahúsprestur kemur á deildina þegar þess er óskað.

Sjúkraþjálfun

Með nákvæmri skoðun og greiningu meta sjúkraþjálfarar hreyfifærni, vöðvastyrk, liðleika, ástand húðar, jafnvægi, úthald, þörf fyrir hjálpartæki og fleira. Meðferð byggist á niðurstöðum þess mats og felst meðal annars í einstaklingsþjálfun, hópæfingum, fræðslu og ráðgjöf til sjúklings og aðstandenda.

Talþjálfun

Í talþjálfun er unnið með vandamál sem varða mál, tal eða kyngingu.

 

 

Upphafið

Endurhæfingarstarf hefur farið fram á Grensási allt frá upphafi árið 1973. Smíði hússins hófst 1969 en byggingin var vígð í apríl 1973.

Deildin var hluti af Borgarspítalanum og gekk undir nafninu Grensásdeild.

Árið 1985 var tekin í notkun vegleg þjálfunarlaug.

Sameiningar

Árið 1996 varð deildin hluti af Sjúkrahúsi Reykjavíkur eftir sameiningu Borgarspítala og Landakotsspítala og árið 2000 varð hún hluti af Landspítala - háskólasjúkrahúsi eftir sameiningu Landspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur.

Síðan þá hefur deildin gegnt því hlutverki að vera endurhæfingarmiðstöð Landspítala.

Sérgreinar

Endurhæfingar- og taugalækningadeild var starfrækt frá 1973 allt til ársins 1998 en þá var deildinni skipt í tvær deildir, endurhæfingardeild og taugalækningadeild.

Taugalækningadeildin var flutt frá Grensási árið 2002 þegar taugalækningar á sameinuðum Landspítala fengu aðstöðu í Fossvogi. Frá þeim tíma hefur endurhæfingardeildin haft allt húsnæðið til afnota.

Umfang

Umfang starfsemi á Grensásdeild hefur verið breytilegt í gegnum tíðina.

Lengst af voru 48 sólarhringsrúm í rekstri á tveimur 24 rúma deildum auk nokkurrar dag- og göngudeildarstarfsemi.

Frá 1. maí 2009 hefur verið rekin ein sólarhringsdeild (R2) með 24 rúmum auk dagdeildar (R3) sem sinnir um 30 manns alla virka daga.

Samtökin „Hollvinir Grensásdeildar“ voru stofnuð 5. apríl 2006.

Tilgangur, samkvæmt lögum samtakanna, er að styðja við, efla og styrkja endurhæfingarstarfsemi sem fer á Grensásdeild Landspítala.

Er það gert með öflun fjár til þeirrar starfsemi og eins með því að vekja athygli á og hvetja til styrktar starfseminnar á opinberum vettvangi.

Hollvinir Grensásdeildar safna fé til tækjakaupa og almennra styrkja við starf deildarinnar og til endurbóta á húsnæði hennar.

Formaður: Guðrún Pétursdóttir

Vefur samtakanna Hollvinir Grensásdeildar

Styrkir

Kennsla. Landspítali er háskólasjúkrahús og gegnir veigamiklu hlutverki í því að afla nýrrar þekkingar í heilbrigðisvísindum. Öflugt vísindastarf er forsenda góðrar heilbrigðisþjónustu og menntunar heilbrigðisstétta. Engar framfarir verða án rannsókna.

Kennsla og rannsóknir sem tengjast endurhæfingu eru innan læknisfræði, hjúkrunar, iðjuþjálfunar, sjúkraþjálfunar, talmeinafræði og sálfræði.

Áhersla er á samstarf við menntastofnanir sem sinna kennslu heilbrigðisstétta svo sem Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Þannig tvinnast saman menntun og rannsóknir í daglegum störfum á deildinni.

Vísindi. Lögð er áhersla á uppbyggingu vísindarannsókna með það að leiðarljósi að aukin þekking bæti þjónustuna.  Samvinna er einnig við heilbrigðisstofnanir erlendis í tengslum við vísindastarf endurhæfingardeildar Landspítala.


Matstæki
Á Grensási eru notuð ýmis matstæki til að skoða og meta sjúklinginn. Hver fagstétt hefur sín mælitæki en Functional Independence Measure (FIM) er alþjóðlegt þverfaglegt mælitæki sem notað er á endurhæfingardeildum víða um heim. FIM metur ýmsar athafnir daglegs lífs og þörf fyrir umönnun.

 

Stuðningshópar/sjálfshjálparhópar 

Yfir veturinn eru í gangi stuðningshópar og sjálfshjálparhópar fyrir sjúklinga og aðstandendur.  Markmiðið er að skapa vettvang fyrir sjúklinga sem hafa gengið í gegnum eða eru að upplifa svipaða reynslu og geta veitt hver öðrum stuðning. 

Skipulögð fræðsla

Fræðslufundir um margvísleg efni eru haldnir vikulega allan veturinn í kennslustofu á 1. hæð.
Þeir eru öllum opnir. Sjá nánar auglýsingar.

Að nýta sér reynslu annarra

Starfsfólk hefur milligöngu um að koma sjúklingum í samband við fyrrverandi sjúklinga sem hafa lent í svipuðum veikindum og eru tilbúnir að koma og veita ráð.

Tenglar á stuðningshópa og fræðslu á vegum sjúklingafélaga:

Heilaheill
MND félagið
Krabbameinsfélag Íslands
Ljósið
Kraftur
Hugarfar
SEM Samtök endurhæfðra mænuskaddaðra
Félag Parkinsonsjúklinga á Íslandi
MS félagið

Gott að vita

Áætluð meðferðarlengd er mjög breytileg. Um leið og sjúklingur treystir sér til fer hann í dagleyfi / helgarleyfi og svo á dagdeild þegar aðstæður leyfa. Þátttaka og virkni sjúklings og fjölskyldu skipta miklu máli í endurhæfingarferlinu. Fræðsla er mikilvægur þáttur í aðlögun að breytingum sem verða á högum sjúklings og fjölskyldu.

Fljótlega eftir innlögn er haldinn markmiðsfundur með sjúklingi (og nánum aðstandanda ef þörf er á) og meðferðarteymi þar sem farið er yfir meðferðaráætlunina og sett áætluð dagsetning fyrir útskrift. Þar gefst gott tækifæri til að spyrja spurninga og miðla upplýsingum. Sjúklingur setur sér markmið í samvinnu við meðferðarteymið.

Fyrstu drög að útskriftaráætlun eru gerð á markmiðsfundi þar sem metin er þörf fyrir heimilisathugun, hjálpartæki, ökumat, ferðaþjónustu og fleira. Þátttaka í samfélaginu er metin svo sem atvinna og tómstundir.

Á Grensásdeild klæðast allir eigin fatnaði og er mikilvægt að hann sé þægilegur, t.d. íþróttafatnaður. Í sjúkrahúsumhverfi er nauðsynlegt að gæta fyllsta hreinlætis og taka með næg föt til skiptanna.

  • Hentugur skófatnaður m.t.t. þjálfunar er nauðsynlegur
  • Gott að taka með sundföt ef nýta á sundlaugina
  • Aðstandendur sjá um að þvo föt sjúklinga
  • Sjúklingar koma með hársápu, tannbursta, tannkrem og aðra snyrtivöru
  • Heimilt er að taka með sér GSM síma, fartölvu og útvarp með heyrnartólum

Deildin tekur ekki ábyrgð á persónulegum verðmætum nema ef þau eru afhent starfsfólki til geymslu í læstri hirslu.

  • Tvær tölvur og prentari eru í dagstofum
  • Útvarp, bækur og spil eru í dagstofum
  • Þvottavél er á deildinni til afnota fyrir þá sem búa á landsbyggðinni og geta sjálfir þvegið af sér
  • Sjálfsalar eru á fyrstu hæð – gos, sælgæti og kaffi
  • Vatnsvél á er fyrstu hæð
  • Borðtennisborð og pílukast í kjallara (spaðar og pílur eru í iðjuþjálfun)

Mikilvægt er að sjúklingar taki þátt í eigin meðferð eins og kostur er.

Jákvæðni og virk þátttaka skiptir miklu máli og flýtir fyrir bata.  Heilbrigðisstarfsfólk veitir til þess nauðsynlega fræðslu og stuðning.

Sjúklingar bera ábyrgð á eigin heilsu eftir því sem þeir eru færir um. Það gera þeir með þeim lífsstíl sem þeir temja sér og með því að nýta sér ráðlagða meðferð.

Stuðningur fjölskyldu og vina skiptir miklu máli og getur haft áhrif á að efla sjálfstraust eftir áfall eða slys. Þátttaka fjölskyldu og jákvæð og opin umræða getur hjálpað til við að yfirvinna hindranir og efla lífsviljann.

Það er mikilvægt að vita hvað sjúklingur getur gert sjálfur og hvetja hann til að nýta það sem hann lærir í þjálfuninni á deild. Það er nauðsynlegt að heimfæra það sem lært er yfir á daglegar athafnir. Öryggi við að framkvæma næst einungis með því að endurtaka það sem lært er. Fjölskyldunni er velkomin að taka þátt í umönnun ástvina sinna eins og kostur er í samvinnu við starfsfólk sem er ætíð reiðubúið að veita stuðning, upplýsingar og fræðslu.

Allt sem fjölskyldan getur gert til að gleðja sjúkling og stytta honum stundir er kærkomið en æskilegt er að það sé í samráði við starfsfólk deildar. Ávallt skal hafa í huga að endurhæfing er fullt starf og ber að taka tillit til þess. Mikilvægt er að stytta sínum nánustu stundirnar, sérstaklega um helgar með því t.d. að fara út úr húsi ef möguleiki er, í heimsóknir til vina eða í stutta ferð heim strax og aðstæður leyfa. Tilvalið er að koma með mat eða annað sem sjúklingnum þykir gott. Einnig er í góðu lagi að koma með persónulega hluti s.s. myndaalbúm af fjölskyldu og vinum.

Markmiðsfundir

Markmiðsfundur er haldinn í upphafi endurhæfingar. Þetta er stuttur fundur, u.þ.b. 15 mínútur með sjúklingi. Á fundinum er staðan metin og sjúklingur setur sér endurhæfingarmarkmið ásamt sínu meðferðarteymi. Staðan og markmið eru síðan endurskoðuð eftir því sem þurfa þykir. Sett er fram áætluð útskriftardagsetning.

Fjölskyldufundir

Boðið er upp á fjölskyldufund fljótlega eftir komu. Sjúklingur og fjölskylda geta óskað eftir fundi eða viðtali við fagfólk eftir þörfum.
Fyrir fjölskyldufundi er gott að skrifa hjá sér punkta / spurningar til að taka með sér.
Áætluð tímalengd er 30 mínútur.

Teymið kynnir meðferðaráætlun, niðurstöður markmiðsfundar og áætlaðan dvalartíma.
Hér gefst gott tækifæri til að spyrja fagaðila spurninga.
Rætt um hvað fjölskyldan geti gert til stuðnings og hvaða þjónusta stendur til boða eftir útskrift.

Þegar komið er á Grensásdeild eru alvarlegustu veikindin búin og fólk byrjar að byggja sig upp aftur.  Það getur tekið langan tíma og jafnast á við fulla vinnu.  Sumir eru í endurhæfingu í nokkrar vikur og aðrir í marga mánuði.

Eftir slys eða alvarleg veikindi finnur fólk oft fyrir mikilli þreytu sem getur verið erfitt að tala um og útskýra.Það er þreytt án þess að gera nokkuð.  Í endurhæfingu er byggt upp úthald og styrkur og með tímanum eykst orka og úthald.

Það er mjög misjafnt hversu vel fólk jafnar sig eftir veikindi eða slys.  Sumir munu alltaf þurfa hjálp t.d. við að ganga, klæða sig eða borða. Aðrir verða næstum því eins og áður.

Þeim sem eru í endurhæfingu finnst gott að fá fjölskyldu og vini í heimsókn. Það er líka í lagi að fara í æfingasalinn og fá að fylgjast með.

Foreldri líður betur ef það veit að börnin halda áfram að vera dugleg, fara í skóla og íþróttir, sinna áhugamálum og hitta vini þrátt fyrir að vera ekki til taks á sama hátt og áður. Ef sá sem er í endurhæfingu á erfitt með að tala eða skilja það sem sagt er getur verið gott að tala við einhvern og fá góð ráð.

Það er gott að spyrja spurninga um veikindin. Það er t.d. hægt að tala við einhvern í fjölskyldunni eða spyrja starfsfólk á deildinni.

Hvern get ég talað við á deildinni?

Ef þér líður illa vegna einhvers nákomins er hægt að leita til starfsfólksins á deildinni, til dæmis hjúkrunarfræðings, læknis eða þjálfara sem geta sagt eða sýnt hvernig best er að hjálpa, ef þarf. Við spurningum er ekki endilega neitt eitt svar heldur getur það verið misjafnt og farið eftir aðstæðum hvers ogf eins. Því er best að spyrja starfsfólkið.
Leyfi frá deildarstjóra þarf til að fá að koma með gæludýr á endurhæfingardeildina.

Öll notkun tóbaks er óleyfileg á Grensásdeild eins og annars staðar á Landspítala sem er reyklaus stofnun. 

Stefna spítalans í tóbaksvörnum gildir um Grensásdeild eins og aðrar deildir spítalans.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?