Leit
Loka

Blóð- og krabbameinslækningadeild 11EG

Lyflækningadeild fyrir sjúklinga með krabbamein og blóðsjúkdóma. Á deildinni er veitt meðferð vegna blóðsjúkdóma og krabbameina. Einnig er veitt einkennameðferð vegna fylgikvilla meðferðar og önnur stuðningsmeðferð.

Deildarstjóri

Ragna Gústafsdóttir

ragnagu@landspitali.is
Yfirlæknar

Signý Vala Sveinsdóttir

signysv@landspitali.is

Agnes Smáradóttir

agnessma@landspitali.is

Banner mynd fyrir  Blóð- og krabbameinslækningadeild 11EG

Hafðu samband

OPIÐAllan sólarhringinn alla daga

Blóðlækningadeild - mynd

Hér erum við

Hringbraut, E og G álma 1. hæð.

Sjá staðsetningu á korti

Hagnýtar upplýsingar

Blóð- og krabbameinslækningadeild 11EG

Legudeild með 30 rúmum. Þar af eru nokkur sérútbúin einbýli með einangrunaraðstöðu.

Meginviðfangsefni

  • Þjónusta við sjúklinga með krabbamein
  • Þjónusta við sjúklinga með blóðsjúkdóma
  • Þjónusta við sjúklinga sem fara í stofnfrumumeðferð

Innlagnir

Dvalartími er mismunandi og fer eftir ástæðum innlagnar. Flestir sjúklingar sem leggjast inn á deildina koma frá bráðadeild, dagdeild blóð- og krabbameinslækninga eða að heiman. Meginástæður innlagna eru skipulagðar lyfjameðferðir, bráð veikindi, einkenni sjúkdómsins eða fylgikvillar meðferðar.

Við innlögn á deildina aflar starfsfólkið nauðsynlegra upplýsinga um sjúkling og eru þær skráðar í rafræna sjúkraskrá til að tryggja sem besta meðferð.

Samskipti

Starfsfólk deildarinnar leggur áherslu á góð samskipti við sjúklinga og fjölskyldur þeirra og að veita greinargóðar upplýsingar um sjúkdómsástand, rannsóknir, meðferð, hjúkrun og batahorfur.

Ef sjúklingur treystir sér ekki til að miðla upplýsingum sjálfur til aðstandenda er gott að fjölskyldur ákveði tengilið, sem sér um samskipti við deildina og miðlar upplýsingum til aðstandenda. Auk þess getur starfsfólk veitt upplýsingar á heimsóknartíma, komið á stofugang eftir samkomulagi eða aðstandendur óskað eftir fjölskyldufundi.

Þjónustutími

Deildin er opin allan sólarhringinn allan ársins hring. Sjúklingar leggjast inn hvenær sem er sólarhringsins og útskrifað er alla daga, einnig um helgar.
Sjúklingum er sinnt allan sólarhringinn, allt eftir þörfum hvers og eins en mest er um að vera á morgnana. Þá er veitt aðstoð við persónulega umhirðu, genginn stofugangur og útskriftir undirbúnar.
  • Vaktaskipti hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða eru kl. 08:00, 15:30 og 23:00.
  • Stofugangur er oftast á milli kl. 09:30 og 12:00 en tími er breytilegur um helgar.

Læknar 

Á blóð- og krabbameinslækningadeild 11EG starfa tvö teymi lækna, annars vegar rauða teymið sem sinnir blóðsjúkdómum og hins vegar græna teymið sem sinnir krabbameinum. Læknar annast sjúkdómsgreiningu, stýra lyfjameðferð sjúklinga, gerð meðferðaráætlana og vali á meðferðarúrræðum í samráði við aðrar fagstéttir. Sérfræðilæknar sinna kennslu aðstoðar- og deildarlækna og hafa umsjón með þeim í daglegu starfi.

Hjúkrunarfræðingar

Hjúkrunarfræðingar hafa eftirlit með sjúklingum. Þeir hafa yfirumsjón með hjúkrun, sjá um gjöf í krabbameinslyfjameðferð, aðrar lyfjagjafir, blóðhlutagjafir, verkjastillingu, fræðslu til sjúklinga og aðstandenda, að skipta um umbúðir á sárum, undirbúa útskriftir o.fl. Rík áhersla er lögð á mat og meðferð ýmissa einkenna s.s. verkja og ógleði.

Hjúkrun á deildinni byggir á fjölskylduhjúkrun. Horft er til þess að þegar einn í fjölskyldunni er mikið veikur hefur það áhrif á alla innan hennar. Því þurfi að huga að þörfum og stuðningi við fjölskylduna í heild sinni.
Hjúkrunarfræðingur sem sér um slökun er kallaður til eftir þörfum fyrir sjúklinga og aðstandendur.

Sjúkraliðar

Sjúkraliðar aðstoða sjúklinga við athafnir daglegs lífs. Þeir mæla lífsmörk, annast verkjamat, meta næringarástand sjúklinga, eru leiðandi í þrýstingssára- og byltuvörnum og aðstoða sjúklinga við hreyfingu o.fl.

Lyfjafræðingar

Lyfjafræðingar þjónusta sjúklinga deildar Þeir fara yfir stoðlyf með krabbameinslyfjagjöfum, fylgja eftir virkni þeirra og stilla skammta ef þörf er á. Einnig veita þeir ráðleggingar varðandi einkennameðferð, t.d. verkjalyfjameðferð. Mikið er lagt upp úr faglegri og vandaðri einkennameðferð sjúklinga á deildinni og eru lyfjafræðingar þar í stóru hlutverki.

Sjúkraþjálfarar

Sjúkraþjálfari býr yfir sérþekkingu á hreyfingum mannslíkamans, þjálfun og líkamsbeitingu. Starfið felst m.a. í greiningu og meðferð ýmissa sjúkdóma, meiðsla, ofálags eða meðfæddrar fötlunar. Sjúkraþjálfari sér einnig um fræðslu um orsakir ýmissa einkenna, ráðgjöf og leiðbeiningar.

Sjúkraþjálfun á Landspítala

Iðjuþjálfar

Iðjuþjálfar gegna mikilvægu hlutverki í meðferð, fræðslu og ráðleggingum til sjúklinga. Þeir þjónusta einstaklinga sem eiga erfitt með að takast á við athafnir daglegs lífs eftir slys eða veikindi. Eftir því sem við á er færni sjúklings metin við athafnir daglegs lífs (ADL), skimað eftir vitrænni getu, heimilisaðstæður metnar svo og þörf á hjálpartækjum.

Iðjuþjálfun á Landspítala

Félagsráðgjafar

Félagsráðgjafar veita ráðgjöf um réttindamál, búsetuúrræði og færni- og heilsumat. Undirbúningur útskriftar er einnig veigamikill þáttur í þjónustu félagsráðgjafa. Leitað er að þjónustuúrræðum sem eru í boði fyrir sjúkling hvort sem hann er að útskrifast heim til sín eða annað.
Samstarf við aðrar stofnanir er veita slíka þjónustu er mikið.

Félagsráðgjöf á Landspítala

Næringarfræðingar

Næringarfræðingar veita fræðslu og ráðgjöf um mataræði miðað við sjúkdómsástand og næringarástand. Beiðni um næringarráðgjöf kemur frá læknum og hjúkrunarfræðingum.

Næringarstofa

Næringarráðgjöf á Barnaspítala Hringsins

Sálfræðingar

Sálfræðingar eru kallaðir til eftir þörfum bæði fyrir sjúklinga og aðstandendur. Sálfræðileg aðstoð beinist að því að bæta líðan sjúklingsins, hjálpa honum að ná sáttum við breytta stöðu, efla aðlögunarhæfni og auka sjálfstraustið.

Sálgæsla

Sjúkrahúsprestur sinnir sálgæslu fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Sálgæslan felur í sér andlega og trúarlega þjónustu og er markmið hennar að styðja við þá sem glíma við sárar tilfinningar og tilvistarspurningar.
Sálgæslan stendur öllum til boða óháð lífsskoðunum eða trúarafstöðu.

Sálgæsla presta og djákna á Landspítala

Endurhæfingarteymi fyrir krabbameinsgreinda

Á Landspítala starfar fjölfaglegt teymi sem annast endurhæfingu sjúklinga sem greinst hafa með krabbamein. Lögð er áhersla á að sinna þörfum sjúklinga fyrir endurhæfingu óháð meðferð og sjúkdómsstigi en í forgangi eru þeir sem eru með erfið og fjölþátta einkenni sem hafa mikil áhrif á daglegt líf og lífsgæði.

Líknarráðgjafateymi

Líknarráðgjafateymið er sérhæfð líknarþjónusta sem sinnir ráðgjöf innan og utan Landspítala. Meginhlutverk þess er að vera heilbrigðisstarfsfólki til ráðgjafar við mat og meðferð einkenna sem koma fram í veikindum og vegna útskrifta þegar þörf er á sérhæfðri heimaþjónustu eða innlögn á líknardeild.

Líknarráðgjafateymi í Landspítala

Upplýsingar um heimsóknartíma

Ef óskað er eftir öðru fyrirkomulagi en þarna er tilgreint þarf að hafa samband við deildar- eða vaktstjóra.

  • Margir sjúklingar deildarinnar eru mjög viðkvæmir fyrir sýkingum og því mikilvægt að verja þá eins og hægt er.
  • Hreinlæti er grundvallaratriði í sýkingavörnum, sérstaklega handþvottur og sprittun handa því smit sem berst með snertingu er algengasta smitleiðin.
  • Ekki er leyfilegt að koma með blóm á deildina vegna sýkingarhættu.

Hreyfing og virkni

  • Mikilvægt er fyrir vellíðan að viðhalda hreyfingu og virkni á meðan dvalið er á sjúkrahúsinu.
  • Dagleg hreyfing eins og heilsufar leyfir, er mikilvæg.
  • Betra er að hreyfa sig í stuttan tíma og oftar á dag með hvíld á milli.

Verslun og samskiptamiðlar

  • Margir sjúklingar deildarinnar eru mjög viðkvæmir fyrir sýkingum og því mikilvægt að verja þá eins og hægt er. Hreinlæti er grundvallaratriði í sýkingavörnum. Gestir eru beðnir um að gæta vel að handhreinsun, með handþvotti og sprittun handa því smit sem berst með snertingu er algengasta smitleið sýkinga.
  • Ekki er leyfilegt að koma með blóm á deildina vegna sýkingarhættu.
  • Farsíma og fartölvur má nota en þess er óskað að þau séu stillt á hljóðlausa stillingu og tekið tillit til stofufélaga.
  • Sjúklingar geta fengið aðgang að Netinu gegnum gestanet spítalans. Nánari upplýsingar.
  •  Sjónvörp eru á öllum sjúkrastofum en best er að taka sín eigin heyrnatól með sér.
  • Hraðbanki er í anddyri í Kringlu og sjálfsalar eru á nokkrum stöðum í húsinu.
  • Kvennadeild Rauða kross Íslands rekur verslanir í anddyrum Landspítala.
  • Sjúklingar eru beðnir um að láta vita ef þeir hyggjast fara í verslunina, eða af deildinni í öðrum erindagjörðum.
  • Starfsfólk og nemendur eru bundnir þagnarskyldu og virða friðhelgi sjúklinga Landspítala. Að sama skapi eru gerðar kröfur til sjúklinga og aðstandenda um að virða einkalíf annarra sjúklinga og ræða ekki það sem þeir kunna að verða áskynja um heilsufar þeirra og hagi.V
  • Sjúkrahúsið getur ekki borið ábyrgð á peningum eða öðrum verðmætum svo sem símum, tölvum o.fl. sem sjúklingar eða aðstandendur hafa meðferðis.

Allir sjúklingar fá mat á deildinni nema þeir séu tímabundið fastandi vegna rannsókna, aðgerða eða sjúkdómsástands.
Flestir sjúklingar með krabbamein finna fyrir mörgum einkennum vegna sjúkdómsins og/eða meðferðarinnar. Einkenni eins og ógleði, lystarleysi, munnþurrkur, eymsli í munni, brenglað bragð-, og lyktarskyn eru algeng og geta haft mikil áhrif á næringarástand sjúklinga. Að viðhalda góðu næringarástandi hefur mikil áhrif á lífsgæði og líðan í krabbameinsmeðferð.

Á deildinni er lögð áhersla á að koma til móts við óskir sjúklinga og vanda framsetningu matarins. Láta þarf strax vita ef fæðuofnæmi eða óþol er til staðar.
Á ganginum er vatnsvél og þar er líka hægt að fá kalt sódavatn.
Á setustofum er kæliskápur fyrir sjúklinga.

Matmálstímar

  • Morgunverður um kl. 8:30
  • Hádegisverður um kl. 12:00
  • Miðdegiskaffi um kl. 14:30
  • Kvöldmatur um kl. 17:30
  • Kvöldkaffi um kl. 19:30
  • Mikilvægt er fyrir vellíðan að viðhalda hreyfingu og virkni á meðan dvalið er á sjúkrahúsinu.
  • Dagleg hreyfing eins og heilsufar leyfir, er mikilvæg.
  • Betra er að hreyfa sig í stuttan tíma og oftar á dag með hvíld á milli.
Sjúkrahúsdvöl á aldrei að vera lengri en nauðsyn krefur og sjúklingar eiga að jafnaði að fá upplýsingar um útskrift innan sólarhrings frá innlögn. Við útskrift á sjúklingur rétt á að fá:
  • Upplýsingar um ástæður innlagnar, meðferð og niðurstöður rannsókna.
  • Upplýsingar um áframhaldandi eftirlit ef slíkt er fyrirhugað og hvert á að leita eftir niðurstöðum sem liggja ekki fyrir við útskrift.
  • Upplýsingar um hættumerki sem þarf að vera vakandi fyrir eftir heimkomu og hvert á að leita ef vandamál koma upp eftir útskrift.
  • Yfirlit yfir þau lyf sem á að taka, skammtastærðir og tímalengd ef við á. Lyfseðlar eru sendir rafrænt í lyfjagátt og er hægt að leysa út í hvaða apóteki sem er.

Nemar

Landspítali er háskólasjúkrahús og margir nemar í heilbrigðisfræðum og tengdum greinum koma í verklega þjálfun sem er hluti af námi þeirra. Nemar fylgjast með og taka þátt í daglegri meðferð sjúklinga og eru ávallt á ábyrgð og undir handleiðslu leiðbeinenda sinna.

Vísindastarf

Á Landspítala er umfangsmikið vísindastarf. Sjúklingar eru stundum beðnir um að taka þátt í verkefnum sem tengjast þeim og eiga þá rétt á ítarlegri upplýsingagjöf um tilgang og framkvæmd verkefnis.
Hverjum og einum er heimilt að neita slíkri þátttöku eða hætta henni hvenær sem er án skýringa.

Allir sjúklingar eiga að fá armband með nafni og kennitölu.  Upplýsingar á armbandinu eru notaðar til staðfestingar þegar lyf eru gefin, við blóðgjafir og hvers kyns rannsóknir og aðgerðir.

Búast má við að oft sé spurt um kennitölu, ofnæmi og lyfjanotkun en allt er þetta gert til að tryggja öryggi.

Æskilegt er að kynna sér fræðsluefni um örugga dvöl á spítala og sjúklingaráðin 10.

Þagnarskylda

Starfsfólk og nemendur eru bundnir þagnarskyldu og ber að virða friðhelgi sjúklinga á Landspítala.  Einnig eru sjúklingar og aðstandendur beðir um að virða einkalíf annarra sjúklinga og ræða ekki það sem þeir kunna að verða áskynja um heilsufar þeirra og hagi.

Verðmæti

Sjúkrahúsið getur ekki borið ábyrgð á peningum eða öðrum verðmætum svo sem símum, tölvum og fleiru sem sjúklingar eða aðstandendur hafa meðferðis.

Meðan á veikindum og meðferð stendur geta komið upp aðstæður sem þarf að bregðast skjótt við og þá er mikilvægt að hafa beint samband við deildina og tala við lækni, hjúkrunarfræðing eða bráðamóttöku.
Oft er erfitt að vita hvenær á að hafa samband og því mikilvægt að fá upplýsingar hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi um þau einkenni sem þarf að vera vakandi fyrir og hvaða einkenni krefjast skoðunar strax.

Merki um sýkingu og bólgur

Hafa þarf samband ef einhver eftirtalinna einkenna koma fram eða ef óvissa er með einkenni:

  • Hiti hækkar. Ef hiti er 38 °C er ráðlagt að mæla hann aftur eftir eina klukkustund og hafa strax samband ef hann er mælist hærri þá.
    - Hiti er merki um sýkingu og honum fylgir oft hrollur og vanlíðan. Hafa ber í huga að sterar og ýmis verkjalyf eru hitalækkandi og þá getur hiti mælst lægri en hann er í raun, þrátt fyrir sýkingu.
    - Vegna skertra varna sjúklings í daufkyrningafæð (neutropeníu) gilda lægri viðmið:
      a) Ef hiti er 37,5°C er ráðlagt að mæla hann aftur eftir eina klukkustund.
      b) Hafa þarf strax samband við deildina ef hitinn mælist hærri þá eða honum fylgir hrollur og vanlíðan.
  • Hósti, mæði, hrygla og grænleitur uppgangur.
  • Særindi í munni og hálsi.
  • Verkir eða sviði við þvaglát.
  • Niðurgangur en hann getur verið merki um sýkingu eða bólgur í meltingavegi. Til dæmis ef hægðir eru mjög linar eða vatnskenndar og 4-6 sinnum eða oftar á sólarhring.

Önnur einkenni

  • Auknir eða skyndilegir verkir sem ekki hafa verið áður.
  • Marblettir eða húðblæðingar, nefblæðing eða blóð í þvagi og hægðum.

Í fræðsluefni Mikilvægt að hafa samband er að finna nánari upplýsingar um einkenni sem vera þarf vakandi fyrir.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?