Segulómun

Hvað er segulómun?

Segulómun eða MRI (Magnetic Resonance Imaging) er myndgreiningaraðferð sem byggir m.a. á segulsviði, útvarpsbylgjum og loftneti við myndatökur af líkamanum.  Segulómun er rannsóknaraðferð sem fer sívaxandi vegna hæfni til að skoða mjúkvefi líkamans, ekki síst heila og mænu, taugar, vöðva, liðbönd og liðbrjósk en aðferðin er notuð til rannsókna á flestum líkamshlutum og líffærakerfum.  Segulómun býr til sneiðmyndir sem hægt er að skoða í öllum mögulegum sniðum, tví- og þrívídd. 

Undirbúningur fyrir segulómrannsókn

Undirbúningur fer eftir því hvaða líkamshluta á að rannsaka.  Einungis fyrir rannsókn af kviðarholi (lifur, nýru, smáþarmar/ristill) er þörf á að fasta í 4 klst. en bent er á að taka inn öll regluleg lyf.  Fyrir aðrar rannsóknir (heili, hryggur, hné o.fl.) má borða eðlilega.

Áður en rannsókn hefst er mikilvægt að taka af sér alla málmhluti og/eða rafrænan búnað s.s. gleraugu, heyrnartæki, úr, skartgripi, síma, kort með segulrönd/örgjörfa, hárspennur o.þ.h.  Fatnaður með málm í s.s. rennilás, smellur, krækjur er mikilvægt að fjarlægja því slíkt segulmagnast inn í rannsóknarherberginu og hefur áhrif á gæði mynda ásamt truflun eða skemmd á tæki/búnaði.  Íþróttafatnaður eða annar fatnaður án einhverskonar málms má klæðast við segulómrannsókn.  Fatnaður er geymdur í biðklefa í læsanlegum skáp og boðið upp á að klæðast slopp frá sjúkrahúsinu í stað eigin fatnaðar. 

Geislafræðingur fer yfir gátlista fyrir segulómrannsókn til að tryggja öryggi við framkvæmd rannsóknar.  

Innilokunarkennd

Innilokunarkennd er þekkt kvíðaröskun við segulómrannsókn.  Geislafræðingar nýta færni og reynslu til að draga úr einkennum hennar.  Ráðlagt er t.d. að taka geisladisk með rólegri tónlist sem hjálpar til við slökun, hafa aðstandana með sér, augnhlíf til að opna síður augun við rannsókn o.s.frv.  Ávallt er velkomið að hafa samband við geislafræðinga á segulómun vegna fyrirspurnar um rannsókn og fá frekari upplýsingar um aðferðir til að draga úr einkennum innilokunarkenndar svo rannsóknar geti átt sér stað.

Ert þú barnshafandi?

Reynt er að komast hjá því að mynda barnshafandi konur í segulómun, sérstaklega á fyrstu þremur mánuðum meðgöngu.  Mikilvægt er að láta geislafræðing eða lækni vita ef um mögulega þungun er að ræða. 

Framkvæmd rannsóknar

Geislafræðingur framkvæmir rannsókn.  Í rannsóknarherberginu er lagst á rannsóknarbekk, loftnet er sett yfir og/eða undir þann hluta líkamans sem á að rannsaka og rennt inn í segulómtækið sem er tiltölulega bjart og opið í báða enda.  Segulómtæknin er viðkvæm fyrir allri hreyfingu og því er mikilvægt að vera kyrr á meðan myndatöku stendur.  Segulómrannsókn tekur 15 mín. til 1 klst. en tímalengd fer eftir því hvað er verið að rannsaka.  Töluverður hávaði er í segulómtækinu á meðan rannsókn fer fram.  Af þeim sökum er boðið upp á eyrnatappa eða heyrnartól til að hlusta á útvarp eða geisladisk meðan á rannsókn stendur.  Má gjarnan hafa geisladisk meðferðis.  Geislafræðingar fylgjast vel með framvindu rannsóknar bæði í myndavél og kallkerfi.  Myndatakan er sársaukalaus og án aukaverkana.

Skuggaefni

Við segulómrannsókn þarf í völdum tilfellum að gefa gadóliníum skuggaefni í bláæð.  Aukaverkanir eru tiltölulega sjaldgæfar og þá langoftast vægar. 

Konur með börn á brjósti er bent á að mjólka sig í 24 klst. eftir rannsókn með gadólilínum skuggaefni  og farga mjólkinni þar sem skuggaefnið frásogast út í brjóstamjólk.