Réttarlæknisfræði

Skilgreining

Réttarlæknisfræði er sú grein læknavísindanna sem hefur það hlutverk að aðstoða réttvísina við lausn læknisfræðilegra vandamála, sem koma fyrir lögreglu og dómsstóla.

Saga

Réttarlæknisfræði er ævafornt fag en fyrstu kennslubækur í réttarlæknisfræði í Evrópu voru gefnar út á 17. öld og var þá kennd við þýska háskóla. Í kringum 1750 hófst kennsla í réttarlæknisfræði við Háskólann í Kaupmannahöfn en stofnað var til fyrstu prófessorsstöðu í réttarlæknisfræði á Norðurlöndum (medicina legalis) árið 1841 við Karolinska Institutionen í Stokkhólmi.

 

Á Íslandi var réttarlæknisfræði kennd í Læknaskólanum í Reykjavík frá 1876. Jafnan þótti rétt að gera líkskurð á mönnum sem létust voveiflega og var Níels Dungal, prófessor í meinafræði frumkvöðull í réttarlæknisfræðilegum störfum hérlendis og tók meðal annars upp rannsóknir í barnsfaðernismálum. Sérstakt embætti prófessors í réttarlæknisfræði við Háskóla Íslands var stofnað 1979 og samkvæmt hefð fylgdu þá rannsóknastörf í réttarlæknisfræði innan vébanda Rannsóknastofu Háskólans.

Mörg störf réttarlæknisfræði eru fléttuð inn í almenn lækningastörf, svo sem héraðslækna, slysavarðstofulækna, kvensjúkdómalækna og barnalækna. Þau störf, sem kalla má sértæk réttarlæknisfræðileg störf eru rannsókn dauðsfalla, sem koma til kasta lögregluyfirvalda, barnsfaðernismál og glæpamál þar sem lífefni til kennslagreiningar koma við sögu. Réttarlæknar þurfa oft á afar sértækum rannsóknum að halda, t.d. kennslaburð líkamsleifa, DNA-rannsóknir í glæpamálum, skoðun bitfara og margt fleira.

Rannsóknir í réttarlæknisfræði eru í eðli sínu margslungnar sökum þess að hvert mál er sérstakt. Um er að ræða að mestum hluta réttarkrufningar og barnsfaðernismál. Allar rannsóknir í réttarlæknisfræði eru unnar samkvæmt beiðni lögreglu eða dómsyfirvalda.