Iðjuþjálfun á Landakoti

Staðsetning: Landakot, Túngötu 26, 101 Reykjavík

Staðsetning Landakots á götukorti>>

Símanúmer deildar: 543 9834/543 9838 

Yfiriðjuþjálfi: Rósa Hauksdóttir
Netfang: rosah@landspitali.is
Símanúmer: 543 9841

Á Landakot koma aldraðir í flestum tilvikum úr heimahúsum eða frá öðrum deildum Landspítala. Þar fer fram greining og mat á heilsufari auk endurhæfingar. Iðjuþjálfar eru hluti af þverfaglegu teymi á öllum deildum Landakots. Iðjuþjálfunin er staðsett á þriðju hæð í K-álmu og samanstendur aðstaðan m.a. af vinnustofu, þjálfunarsal, tölvuherbergi, betri stofu og þjálfunareldhúsi.
Þjónustuferlið sem unnið er eftir kallast OTIPM (Occupational Therapy Intervention Process Model). Hugmyndafræðin kemur úr ýmsum áttum og tekur mið af ólíkum skjólstæðingshópum og aðstæðum hverju sinni. Sem dæmi má nefna A-ONE, kanadíska færnilíkanið (CMOP-E), líkanið um iðju mannsins (MOHO), lífaflfræðilíkanið, endurhæfingarlíkanið, valdeflingu (empowerment) og öldrunarkenningar.

Mats- og markmiðslota

Iðjuþjálfar á Landakoti hafa sérþekkingu á daglegri iðju aldraðra. Með daglegri iðju er átt við athafnir eins og klæðnað, snyrtingu, borðhald, akstur og tómstundir. Iðjuþjálfar veita skjólstæðingsmiðaða þjónustu og leggja áherslu á styrkleika skjólstæðinga sinna. Þjónustunni má skipta í þrjá meginþætti; mat á þjónustuþörf, íhlutun og endurmat.
Stór þáttur í starfi iðjuþjálfa á Landakoti felst í að meta færni við daglega iðju. Til þess nota iðjuþjálfar ýmis matstæki, greina verk og framkvæmd, beita áhorfi og taka viðtöl. Líkamlegir og vitrænir þættir sem geta haft áhrif á færni skjólstæðinga eru einnig metnir. Farið er yfir viðfangsefni sem skjólstæðingurinn fæst við í sínu daglega lífi, bæði þau sem ganga vel og þau sem hann á erfitt með að sinna. Íhlutunaráætlun er gerð í samráði við skjólstæðing í framhaldinu. 

Iðjuþjálfar meta auk þess þörf fyrir hjálpartæki og fara í heimilisathuganir eftir þörfum. Mikilvægt getur verið að fara heim til skjólstæðinga til að meta færni þeirra í eigin umhverfi. Mat á færni við akstur er framkvæmt í samstarfi við ökukennara þegar það á við. Sjúkdómar og slys geta haft áhrif á líkamlega og vitræna færniþætti sem nauðsynlegir eru við akstur. Ákveðnum verklagsreglum er fylgt til þess að meta hvort og þá hvenær farið er í ökumat. Helstu matstæki og gátlistar sem iðjuþjálfar á Landakoti nota eru A-ONE, Modified Barthel Index, MMSE, Mat á færni við akstur og gátlisti við heimilisathuganir.

Helstu matstæki, gátlistar og próf sem notuð eru af iðjuþjálfum á Landakoti:

 • Assessment of Motor and Process Skills (AMPS)
 • Áhugalistinn
 • Árnadóttir OT-ADL Neurobehavioral Evaluation (A-ONE)
 • Canadian Occupational Performance Measure (COPM)
 • Dynamometer
 • Gaumstolspróf
 • Iðjuhjólið
 • Klukkupróf
 • Mat á færni við akstur
 • Modified Barthel Index
 • Purdue Pegboard
 • The Mini Mental State Examination (MMSE)

 

Íhlutun sem iðjuþjálfar á Landakoti veita er skjólstæðingsmiðuð og er endurhæfingin því afar fjölbreytt. Samkvæmt þjónustuferli OTIPM fellur íhlutunin í flestum tilvikum undir leikninálgun og jöfnunarnálgun. Einnig kemur fyrir að aðferðir sem falla undir styrkingarnálgun og fræðslunálgun séu notaðar (sjá mynd).

Íhlutunin getur m.a. falist í að kenna nýjar leiðir við að framkvæma daglegar athafnir, færniþjálfun og aðlögun á heimili, auk þess sem iðjuþjálfar veita fræðslu og ráðgjöf til skjólstæðinga og aðstandenda þeirra. Í heimilisathugunum er t.d. veitt ráðgjöf varðandi leiðir til þess að auka öryggi og draga úr byltuhættu. 

Endurhæfingin fer bæði fram sem einstaklingsþjálfun og í hópum. Áhersla er lögð á að bæta andlega líðan og félagslega hæfni með ýmis konar hópastarfi. Iðjuþjálfar taka einnig þátt í umræðuhópum fyrir aðstandendur á minnismóttöku.

Útvegun, prófun og kennsla í notkun hjálpartækja er stór þáttur í starfi iðjuþjálfa á Landakoti. Þá sjá iðjuþjálfar um spelkugerð þegar þess er þörf. Iðjuþjálfar sækja um hjálpartæki fyrir skjólstæðinga til Hjálpartækjamiðstöðvar Sjúkratrygginga Íslands (SÍ). SÍ sendir svar um niðurstöðu til skjólstæðinga og iðjuþjálfa þegar ákvörðun liggur fyrir. Í flestum tilfellum þurfa skjólstæðingar að nálgast tækin sjálfir hjá söluaðilum eða SÍ. Ef skjólstæðingur á ekki rétt á hjálpartækjum frá SÍ getur iðjuþjálfi veitt upplýsingar um hvar kaupa má tækin.

Færni skjólstæðings er endurmetin eftir að íhlutun hefur átt sér stað og íhlutunaráætlun aðlöguð eftir þörfum og vilja skjólstæðings. Við útskrift getur verið þörf fyrir eftirfylgd iðjuþjálfa t.d. vegna hjálpartækja og áframhaldandi þjálfunar á öðrum stöðum.
Legudeildir og dagdeild: Þörf fyrir iðjuþjálfun er metin í samvinnu við skjólstæðinginn og teymismeðlimi.

Göngudeildir: Iðjuþjálfar fá senda beiðni fyrir skjólstæðinga sem hafa þörf fyrir iðjuþjálfun á minnismóttöku. Allir sem koma á byltu- og beinverndarmóttöku fá þjónustu iðjuþjálfa.