Sálfræðiþjónusta

Hlutverk sálfræðinga á geðsviði er í takt við meginhlutverk sjúkrahússins, þ.e. þjónusta við skjólstæðinga og aðstandendur þeirra, vísindastörf og kennsla og þjálfun háskólanema. Þeir eru í nánu samstarfi við aðrar heilbrigðisstéttir og veita þeim stuðning og fræðslu. Nokkrir sálfræðinganna eru stundakennarar í sálfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands og löng hefð er fyrir því að sálfræðingar á geðsviði kenni læknanemum sálfræði. Þá leiðbeina þeir sálfræðinemum í framhaldsnámi (cand. psych.) sem eru í starfsþjálfun á geðsviði. Sálfræðingar á geðsviði halda "vísindadag" á hverju hausti þar sem þeir flytja erindi um rannsóknir sínar og klíníska vinnu.

Störf sálfræðinga á geðsviði skiptast í aðalatriðum í þrennt, klíníska vinnu, fræðslu og rannsóknarstörf. Klíníska vinnan felst í því að greina vandamál skjólstæðinga, oftast í náinni samvinnu við lækna og hjúkrunarfræðinga, fræða þá um eðli vandamálsins og veita þeim sálfræðilega meðferð og stuðning.

Markmið sálfræðinga á sviðinu er að bjóða upp á árangursríka og hagkvæma sálfræðiþjónustu sem byggir á vísindalegum kenningum og árangursrannsóknum, bæði í meðferð og greiningu.  Þeir leggja einnig mikla áherslu á að þróa aðferðir sínar með því að leggja stund á rannsóknir á greiningartækjum og meðferðarúrræðum.

Sálfræðingar á geðsviði leggja nú megináherslu á að beita sálfræðilegri meðferð er nefnist hugræn atferlismeðferð (HAM). Það er meðferð sem byggir á traustum vísindalegum grunni og hefur reynst mjög vel við að hjálpa fólki við að takast á við ýmiss konar geð- og hegðunarraskanir og við að koma á breytingum í lífi sínu. Í slíkri meðferð er reynt að vinna markvisst að ákveðnu afmörkuðu vandamáli hverju sinni og lögð er áhersla á að komast að því strax í upphafi hvað kemur vandamálinu af stað, hvað viðheldur því og hvaða afleiðingar það hefur í för með sér. Þessi meðferð gerir ráð fyrir náinni samvinnu sálfræðings og skjólstæðings. Í raun og veru má segja að sálfræðingurinn sé leiðbeinandi skjólstæðingsins en hann sinn eigin meðferðaraðili.