Sjúkrahótel

Sjúkrahótel Landspítala, Ármúla 9 í Reykjavík

Sjúkrahótel Landspítala er í Ármúla 9 í Reykjavík (Park Inn Hótel). Það er rekið í samræmi við samkomulag Landspítala og Sjúkratrygginga Íslands í samstarfi við Sinnum ehf. Hjúkrunarfræðingar LSH sjá um allan daglegan rekstur og hjúkrunarþjónustuna.  Sinnum ehf. hefur með höndum hótelþjónustuna sem felur m.a. í sér öll þrif og framleiðslu matar. 

Símar: 543 6371 / 543 6372 
Fax: 543 6374
Netfang: sjukrahotel@landspitali.is

Deildarstjóri: Bryndís Konráðsdóttir Sími 543 6371
Netfang: bryndko@landspitali.is

 Beiðni um dvöl á sjúkrahóteli (eyðublað)

Sjúkrahótel er hugsað sem úrræði fyrir einstaklinga sem þurfa heilsu sinnar eða aðstandenda vegna að dvelja fjarri heimabyggð vegna rannsókna og meðferða. Auk þess nýtist sjúkrahótel þeim sem dvalið hafa á sjúkrahúsi sem liður í frekari endurhæfingu og bata. Auk almennrar hótelþjónustu er gestum veitt hjúkrun og ráðgjöf vegna heilsufarsvanda og þeim liðsinnt við að sækja heilbrigðisþjónustu. Dvöl er háð tilvísun lækna og hjúkrunarfræðinga á LSH eða heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

Boðið er upp á gistingu í einbýlum í rúmgóðum herbergjum. Aðstandendur og fylgdarmenn geta einnig gist á sjúkrahótelinu. Öll herbergin eru reyklaus, með sér baði, síma, sjónvarpi og útvarpi. Möguleiki er á nettenginu í herbergjum. Nokkur herbergi eru með aðgengi fyrir hjólastóla. Gistingu fylgir fullt fæði sem eldað er á staðnum. Matsalur og sameiginleg setustofa er á 2. hæð.

Sjúkrahótel Landspítala (Park Inn)

Gestir hótelsins þurfa að vera sjálfbjarga með að komast fram úr rúmi og að sinna daglegum athöfnum. Sjúklingar/gestir þurfa að hafa með sér öll hjálpartæki sem þeir þurfa að nota svo sem hjólastóla, göngugrindur og hækjur. Sama gildir um öll lyf. Hjúkrunarfræðingar starfa við hótelið og veita hjúkrunarráðgjöf, sinna ýmsum hjúkrunarstörfum eins og að gefa lyf, taka sauma, skipta á sárum og aðstoða fólk við að fara í bað.  Enginn starfsmaður er á vakt á sjúkrahótelinu frá kl. 23:00 til 8:00 fyrir utan næturvörð. Hjúkrunarfræðingur er á bakvakt á þessum tíma, skilaboð í gegnum gestamóttöku hótelsins. Sjúkraþjálfari er á staðnum virka daga milli kl. 13:00 og 16:00. Hægt er að óska eftir þjónustu snyrtifræðings og hársnyrtis. Greitt er sérstaklega fyrir þjónustu þeirra. Sjálfboðaliðar frá Rauða krossi Íslands lána bækur frá bókasafni tvisvar í viku.

Kostnaður sjúklinga er kr. 1.200 á sólarhring og kr. 4.000 fyrir aðstandendur eða fylgdarmenn. Ósjúkratryggðir greiða kr. 18.000 fyrir sólarhringinn.  Sjá reglugerð.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Eskli