Verkefni fulltrúa notenda

 

  • Veitir upplýsingar um réttindi og aðstoðar sjúklinga hvað það varðar
  • Veitir upplýsingar um og tengir sjúklinga við félagasamtök og/eða athvörf s.s. Hlutverkasetur, Hugarafl, Geysi, Geðhjálp, Rauðakross félögin Læk, Dvöl, Vin, Laut og Höndina
  • Kemur til skila til starfsfólks eða gæðaráðs beiðnum eða athugasemdum um aukna/bætta þjónustu sem hefur jákvætt gildi fyrir notendur
  • Upplýsir notendur um niðurstöður úr stefnumótun gæðaráðs
  • Gefur notendum upplýsingar um hvernig nálgast megi upplýsingar um starfsemi geðsviðs og LSH á vefsíðu sjúkrahússins
  • Aðstoðar notendur við skilvirkt tengslanet í þjónustunni
  • Styður við aðra notendur með því að leggja áherslu á að bæta upplýsingamiðlun og jákvæða ímynd geðsviðs LSH, í þeim tilgangi að styrkja þá sem til geðsviðsins leita
  • Tekur við kvörtunum eða ábendingum er varða þjónustu geðsviðs LSH, eða beinir kvörtunum til réttra aðila

 

Starfið skiptist í 2 þætti

Vinnu verkefnastjóra

Hér er unnið að ýmsum verkefnum m.a. með gæðaráði geðsviðs eða haldið utan um og/eða stýrt vinnuhópi viðmótsverkefnis og haldið utan um fræðslu og kynningar notendafélaga á deildum. Tvisvar til þrisvar á ári eru verkefni tengd skemmtun fyrir sjúklinga/notendur en það getur verið í formi vor-, sumar-, eða jólatónleika og/eða önnur skemmtun. Í stefnu geðsviðs er kveðið á um að efla samvinnu við notendur og auka formlega samvinnu gæðaráðs geðsviðs við notendur.

Einstaklingsmiðaða þjónustu við sjúklinga/notendur

Felst ýmist í viðtali þar sem tekið er við kvörtun og/eða fyrirspurn vegna mála er viðkoma þjónustunni, eða aðstoð við að tengjast einhverju notendafélaganna. Stundum er farið með sjúklingi/notanda í kynningu til einhvers félags. Þessar óskir um tengingu og fylgd koma ýmist frá sjúklingi/notanda sjálfum, lækni, hjúkrunarfræðingi, félagsráðgjafa, sálfræðingi eða iðjuþjálfa viðkomandi sjúklings. Öll þessháttar vinna er unnin í samvinnu við alla sem hlut eiga að máli. Fullum trúnaði er heitið eftir óskum einstaklinga.