Rannsóknir - nánar

Mótefnapróf til greiningar á sjálfsofnæmi

Sjálfsofnæmismótefnum má skipta í tvo flokka. Annars vegar eru vefjasértæk mótefni (organ specific) sem beinast gegn sérstökum frumum, vefjum eða líffærum, svo sem  parietal frumum, hormónmyndandi skjaldkirtilsfrumum eða rauðum blóðkornum. Hins vegar eru ekki vefjasértæk mótefni (organ non-specific) sem beinast gegn sameindum sem finnast meira og minna í öllum frumum líkamans og má þar nefna mótefni gegn mitokondrium og ýmsum kjarnaþáttum.
Almennt má segja að sjálfsofnæmismótefni finnist stöku sinnum hjá heilbrigðum einstaklingum og fer algengi þeirra vaxandi með aldri. Það þarf því ekki alltaf að vera merki um sjúkdóm, þótt þau greinist í blóði, og þótt þessi mótefni komi að gagni við sjúkdómsgreiningu, er ekki þar með sagt að þau séu meginorsök þeirra vefjaskemmda sem fylgja sjúkdómnum. Oftast taka bæði mótefni og ónæmisfrumur þátt í meinferli sjálfsofnæmissjúkdóma. Þau sjálfsofnæmismótefni sem ekki eru vefjasértæk, beinast yfirleitt gegn frumuþáttum sem eru sameiginlegir öllum spendýrum, þ.e. eru ekki tegundasértæk og má því greina þessi mótefni á öðrum vefjum en mannavef. Sum vefjasértæk mótefni er hins vegar einungis hægt að greina með mannavef.

 

Gigtarpróf

Gigtarpróf eru notuð til þess að mæla gigtarþætti (Rheumatoid Factor, RF) sem eru mótefni gegn Fc-hluta (halahluta) á immunoglobulini G (IgG). Hefðbundin gigtarpróf (kekkjunarpróf, agglutinationspróf) mæla fyrst og fremst RF af IgM gerð, en með ELISA aðferð má mæla aðrar RF tegundir svo sem IgA RF og IgG RF. RF er ekki sértækur fyrir ákveðna sjúkdóma. Hann er þó til staðar í 75-90% sjúklinga með iktsýki (RA). Hins vegar finnst hann ekki nema hjá 10-20% barna með liðagigt. RF er einnig til staðar í um 90% sjúklinga með Sjögren’s syndrome. Algengt er að RF sé til staðar í tiltölulega litlu magni í sjúklingum með lupus (SLE), hjartaþelsbólgu (endocarditis), berkla, sarcoidosis, sárasótt, króníska virka lifrarbólgu (chronic active hepatitis) og sumar veirusýkingar. RF finnst einnig í 3-5% heilbrigðra einstaklinga og þetta hlutfall fer vaxandi með aldri. Þannig finnst hækkaður RF hjá allt að 30% einstaklinga sem orðnir eru eldri en 60 ára.
Rheumatoid faktor getur ruglað mótefnamælingar gegn ýmsum veiruantigenum. Til dæmis getur RF valdið falskt jákvæðu svari þegar IgM mótefni gegn veirum eru mæld.

 

RF  Rheumaton

Rheumaton er skimpróf sem greinir fyrst og fremst RF af IgM gerð og segir til um hvort þessi þáttur er til staðar eða ekki, en ekki í hve miklu magni. Próf þetta er þokkalega næmt fyrir iktsýki (um 70% RA sjúklinga reynast jákvæðir) en hefur litla sértækni.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Rauðkornakekkjun (hemagglutination). Athugað er hvort óþynnt sermi sjúklings kekkjar rauð kindablóðkorn sem þakin eru IgG úr kanínum.
Viðmiðunargildi: Neikvætt.  Jákvæð sýni eru gefin út sem (+), +  eða ++. 
Öll jákvæð sýni eru títruð með RAPA aðferðinni en einstakar RF tegundir (IgM RF, IgG RF og IgA RF) eru ekki mældar með ELISA aðferð nema sérstaklega sé um slíkt beðið á rannsóknarbeiðninni.
 

RF  RAPA

Skimpróf sem greinir RF í sermi (aðallega af IgM gerð) líkt og Rheumaton, en sýnið er einnig títrerað til að ákvarða RF magn. Um 75% iktsýki (RA) sjúklinga reynast jákvæðir í þessu prófi. Ef um háan títer er að ræða er prófið nokkuð sértækt fyrir RA. RAPA prófið er ekki framkvæmt nema sýni hafi reynst jákvætt í Rheumaton skimprófinu
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Kekkjunarpróf. Gelatínkúlur, sem húðaðar hafa verið með IgG mótefnum úr kanínum, eru settar í brunna. Sermi sjúklings er síðan sett í brunnana í ákveðnum þynningum ( 1/40, 1/80, 1/160, o.s.frv.). Endatíter er síðan ákvarðaður út frá hæstu þynningu þar sem kekkjun á sér stað.
Viðmunargildi:  Neikvætt (titer <1/40). Jákvæð sýni gefin út sem titer; 1/40, 1/80, 1/160, o.s.frv. 
 

RF ELISA

Byrjað er á því að gera RF ELISA skimpróf sem greinir jöfnum höndum rheumatoid faktor (RF) af IgM, IgG eða IgA gerðum. Ef skimprófið reynist jákvætt er magn hverrar RF tegundar fyrir sig mælt (IgM RF, IgG RF og IgA RF). Um 90% iktsýkissjúklinga (RA sjúklinga) reynast jákvæðir í þessu prófi. Prófið er því mjög næmt fyrir RA og ef um mikið magn er að ræða er það einnig mjög sértækt. Fari saman hækkun á bæði IgM RF og IgA RF eru miklar líkur á því að sjúklingurinn sé með iktsýki (há sértækni).
IgA RF hefur verið tengdur verri horfum og sjúkdómsgangi en IgM RF, t.d. eru þekkt tengsl IgA RF við beinúrátur og utanliðaeinkenni (extra-articular manifestations). Því er rétt að hafa í huga að einungis þriðjungur RA sjúklinga með einangraða hækkun á IgA RF er jafnframt jákvæður í hefðbundnum kekkjunarprófum (Rheumaton og RAPA). Þessir sjúklingar eru hins vegar jákvæðir í RF ELISA skimprófinu.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay). Notaðir eru plastbakkar með 96 flatbotna brunnum sem húðaðir eru með IgG úr kanínum. Sermi er bætt á og því næst eru sett ensímtengd merkimótefni sem bindast á mannamótefnin (RF). Loks er bætt á hvarfefni, sem ensímið breytir í litað myndefni. Litarstyrkurinn er mældur og er hann í réttu hlutfalli við það RF magn sem er í serminu.
Niðurstöður: Svör gefin út í einingum sem miðast við alþjóðlegan staðal fyrir RF virkni.
Viðmiðunargildi:  Eðlileg gildi fyrir RF ELISA skimpróf er <4 einingar. Eðlileg gildi fyrir IgM RF, IgG RF og IgA RF eru <25 einingar fyrir hverja gerð.

 

Anti CCP (cyclic citrullinated peptide)

Sumir sjúklingar með iktsýki (RA) mælast neikvæðir í RF prófum (seroneikvæður RA). Rannsóknir hafa sýnt að hluti þessara sjúklinga er með mótefni í blóði gegn cyclic citrullinated peptide (CCP). Rannsóknir hafa einnig sýnt að mótefni gegn CCP geta komið fram mörgum árum áður en iktsýki gerir vart við sig. Aðrar rannsóknir hafa einnig bent til að sjúklingar með hækkuð mótefni gegn CCP fái verri sjúkdóm en þeir sem ekki hafa slík mótefni. Hækkuð mótefni gegn CCP eru talin vera mjög sértæk fyrir iktsýki (RA). Mælingar á CCP mótefnum geta þannig verið sérstaklega gagnlegar við mat á gigtarsjúklingum sem eru RF neikvæðir.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay). Notaðir eru plastbakkar sem eru húðaðir eru með hreinsuðu CCP.
Viðmunargildi:  Eðlileg gildi fyrir anti CCP eru <50 einingar. Mæligildi á bilinu 25–49 einingar má telja “grátt svæði”, og getur þá eftir atvikum verið ástæða til að taka nýtt sýni og endurtaka mælinguna að nokkrum tíma liðnum.

 

Bandvefsofnæmispróf 

Þegar talað er um bandvefsofnæmispróf er átt við þau próf sem notuð eru til að greina mótefni sem einkum finnast hjá sjúklingum með ýmsa bandvefs- eða gigtarsjúkdóma. Flest þessara mótefna eru ekki vefjaasértæk (organ non-specific). Slík mótefni beinast einkum gegn ýmsum próteinum í umfrymi og frumukjörnum og eru gjarnan nefnd ANA, ENA og DNA mótefni.
ANA mótefni (antinuclear antibodies) er vítt hugtak, sem notað er um öll mótefni sem beinast gegn sameindum í frumukjörnum (stundum einnig sameindum í umfrymi og má þar til dæmis nefna Jo-1 mótefni). ANA mótefni eru gjarnan mæld með flúrskinsaðferð (immunofluorescence) þar sem notaðar eru vefjasneiðar eða ræktaðar frumur með heilum frumukjörnum.
ENA mótefni er notað um hóp af mótefnum sem beinast gegn uppleysanlegum kjarnaþáttum (extractable nuclear antigens). Þetta hugtak er nú notað um samtals 8-10 mismunandi mótefni og eru þau helstu eftirfarandi :  anti-RNP, anti-Sm, anti-SSA, anti-SSB, anti-Scl-70, anti-Jo-1 og anti-centromer.
DNA mótefni vísa til þeirra mótefna sem beinast gegn erfðaefninu DNA. Það eru til tvær megingerðir af DNA mótefnum. Í fyrsta lagi eru það mótefni sem beinast gegn einstrengja DNA (single stranded DNA, ssDNA) og hins vegar mótefni sem beinast gegn tvístrengja DNA (double stranded DNA (dsDNA). Í sjúklingum með lupus (SLE) eru það IgG mótefni gegn tvístrengja DNA (dsDNA) sem hafa mesta þýðingu við greiningu og eftirlit.

 

Kjarnamótefni (Anti Nuclear Antibodies, ANA)

ANA er hópur mótefna sem beinist gegn margvíslegum kjarnaþáttum. Slík mótefni greinast í allt að 95% sjúklinga með lupus (SLE) en einnig oft í öðrum sjálfsofnæmissjúkdómum svo sem scleroderma (50%), iktsýki (30%) og mixed connective tissue disease/MCTD (80%). Þau finnast ennfremur í colitis ulcerosa, Sjögren´s syndrome, mononuclosis infectiosa o.fl. Allt að 4% heilbrigðra eru ANA jákvæðir og ANA jákvæðni eykst upp í allt að 20% hjá þeim sem eru 60 ára og eldri. Mismunandi flúrskinsmynstur (pattern) m.a. diffue/homogenous, speckled, nucleolar og membrane geta gefið vísbendingu um ákveðna sjúkdóma en eru ekki alltaf einkennandi fyrir þá. Sýni sem eru jákvæð í ANA prófi eru rannsökuð nánar m.t.t. mótefna gegn tvístrengja DNA (double stranded DNA, dsDNA) og Extractable Nuclear Antigen (ENA). Sýni sem eru neikvæð í ANA prófi eru langoftast neikvæð í mótefnaprófum gegn tvístrengja DNA eða ENA (SSA mótefni geta verið undantekning, sjá aftar). ANA prófið er mjög næmt fyrir SLE, en hefur litla sértækni. Ef sýni er jákvætt í ANA prófi er það títrað (1/40 til 1/300 ) og jafnframt eru mæld mótefni gegn dsDNA og ENA.
Sýni: 1 ml sermi.
Aðferð: Óbeint flúrskinspróf (indirect immunofluorescence) á vefjasneiðum úr rottulíffærum (nýra, lifur, magi og vélinda).
Niðurstöður:  Neikvætt (titer <1/40). Jákvæð sýni með titer 1/40. Í svari er getið um mynstur (pattern) sem sést við smásjárskoðun sé þess óskað (diffuse/homogenous, speckled, nucleolar, membrane).

 

ENA mótefni (ENA ELISA skimpróf)

ENA (Extractable Nuclear Antigen) mótefni vísa til hóps mótefna sem beinast gegn nokkrum vatnsleysanlegum þáttum í frumukjörnum. Reynist anti–ENA skimpróf jákvætt er til viðbótar framkvæmd nánari tegundagreining. Í anti–ENA prófi mælast mótefni gegn eftirfarandi 8 antigenum: RNP (Ribonucleoprótein), Sm (Smith), SSA (Ro), SSB (La), Scl-70 (Topoisomerase-1), Jo-1, centromerum (CENP-B) og tvístrengja DNA (dsDNA). ENA ELISA skimprófið er gagnlegt við mat á sjúklingum með ýmiskonar gigtareinkenni, sérstaklega ef grunur vaknar um SLE, MCTD, Sjögren’s syndrome, scleroderma/CREST og polymyositis/dermatomyositis.
Sýni: 1 ml sermi.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay). Í prófinu eru notaðir plastbakkar sem húðaðir eru með blöndu af 8 hreinum (hreinsuðum eða “recombinant”) kjarnaþáttum.
Niðurstöður:  Niðurstöður eru gefnar upp sem hlutfall (ratio) og <1.4 telst neikvætt. Mælist hlutfallið á bilinu 1.0–1.4 má telja það “grátt svæði”, og getur þá eftir atvikum verið ástæða til að taka nýtt sýni og endurtaka mælinguna að nokkrum tíma liðnum.

 

Anti RNP

Mótefni gegn ribonucleopróteini (anti RNP) finnast hjá um 90% sjúklinga með mixed connective tissue disease (MCTD), en það er blönduð sjúkdómsmynd af SLE, scleroderma og polymyositis/dermatomyositis. Mótefni gegn RNP finnast einnig í um 30% sjúklinga með SLE, en þessir sömu sjúklingar mynda sjaldnast einnig mótefni gegn dsDNA. Einnig er mun fátíðara að þeir SLE sjúklingar sem hafa anti RNP fái nephritis og batahorfur þeirra eru almennt betri en hinna sem ekki hafa þetta mótefni.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay). Í prófinu eru notaðir plastbakkar sem húðaðir eru með hreinu RNP antigeni (68 kDa A, B).
Niðurstöður:  Niðurstöður eru gefnar upp sem hlutfall (ratio) og <1.4 telst neikvætt. Mælist hlutfallið á bilinu 1.0–1.4 má telja það “grátt svæði”, og getur þá eftir atvikum verið ástæða til að taka nýtt sýni og endurtaka mælinguna að nokkrum tíma liðnum.

 

Anti Sm

Mótefni gegn Sm (Smith) antigeni eru mjög sértæk fyrir sjúklinga með SLE. Hins vegar hafa tiltölulega fáir, eða einungis 25 - 30% SLE sjúklinga þetta mótefni.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay). Í prófinu eru notaðir plastbakkar sem húðaðir eru með hreinu Sm antigeni (B, B', D).
Niðurstöður:  Niðurstöður eru gefnar upp sem hlutfall (ratio) og <1.4 telst neikvætt. Mælist hlutfallið á bilinu 1.0–1.4 má telja það “grátt svæði”, og getur þá eftir atvikum verið ástæða til að taka nýtt sýni og endurtaka mælinguna að nokkrum tíma liðnum.
 

Anti SSA (Ro)

Um 75% sjúklinga með primary Sjögren’s syndrome greinast með mótefni gegn SSA (Ro). Einnig hafa 30 - 40% sjúklinga með Sjögren’s syndrome í tengslum við SLE anti SSA mótefni. Slík mótefni geta einnig fundist í sjúklingum með ANA neikvæðan lupus og idiopathic thrombocytopenia purpura (ITP).
SSA mótefni af IgG gerð geta farið yfir fylgju hjá þunguðum konum og framkallað hjartablokk hjá fóstrinu. Því getur verið ástæða til að kanna hvort þungaðar konur með lupus (SLE) og/eða Sjögren’s syndrome  hafi SSA mótefni.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay). Í prófinu eru notaðir plastbakkar sem húðaðir eru með hreinu SSA antigeni (52 kDa og 60 kDa).
Niðurstöður:  Niðurstöður eru gefnar upp sem hlutfall (ratio) og <1.4 telst neikvætt. Mælist hlutfallið á bilinu 1.0–1.4 má telja það “grátt svæði”, og getur þá eftir atvikum verið ástæða til að taka nýtt sýni og endurtaka mælinguna að nokkrum tíma liðnum.
 

Anti SSB (La)

Mótefni gegn SSB finnast í um 50–60% sjúklinga með primary Sjögren’s syndrome en eru fremur fátíð í öðrum sjúkdómum (finnst þó í 5-10% sjúklinga með SLE). Sjúklingar með Sjögren’s syndrome, í tengslum við rheumatoid arthritis, hafa mjög sjaldan SSA eða SSB mótefni. Langflestir sjúklingar með anti SSB mótefni hafa jafnframt SSA mótefni.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay). Í prófinu eru notaðir plastbakkar sem húðaðir eru með hreinu SSB antigeni.
Niðurstöður:  Niðurstöður eru gefnar upp sem hlutfall (ratio) og <1.4 telst neikvætt. Mælist hlutfallið á bilinu 1.0–1.4 má telja það “grátt svæði”, og getur þá eftir atvikum verið ástæða til að taka nýtt sýni og endurtaka mælinguna að nokkrum tíma liðnum.
 

Anti Scl-70

Mótefni gegn Scl-70 (Topoisomerase-1) finnast í um 25% sjúklinga með scleroderma. Hjá þeim sjúklingum sem hafa virkan sjúkdóm finnst anti-Scl 70 hins vegar í allt að 75% tilvika. Þar sem Scl-70 antigenið (DNA topoisomerasi I sem losar um DNA vafninga) er staðsett í nucleolus er nucleolar flúrskinsmynstur algengt í ANA prófi hjá sjúklingum með Scl-70 mótefni. Rannsóknir hafa sýnt að þeir sjúklingar sem hafa viðvarandi hækkun á mótefnum gegn Scl-70 er hættara við interstitial fibrosis í lungum og hafa almennt verri horfur en þeir sem ekki hafa viðvarandi hækkun.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay). Í prófinu eru notaðir plastbakkar sem húðaðir eru með hreinu Scl-70 antigeni (topoisomerasi-1).
Niðurstöður:  Niðurstöður eru gefnar upp sem hlutfall (ratio) og <1.4 telst neikvætt. Mælist hlutfallið á bilinu 1.0–1.4 má telja það “grátt svæði”, og getur þá eftir atvikum verið ástæða til að taka nýtt sýni og endurtaka mælinguna að nokkrum tíma liðnum.

 

Anti centromer (anti CENP-B)

Anti-centromere mótefni eru til staðar í 70–80% sjúklinga með CREST-syndrome (limited scleroderma), um 10% sjúklinga með scleroderma (diffuse scleroderma) en sjaldnar hjá sjúklingum með primary biliary cirrhosis (PBC), MCTD og SLE.
Flestir sjúklingar með centromer mótefni í blóði hafa Raynaud’s einkenni. Sjúklingar með CREST-syndrome sem reynast með jákvætt anti-centromer próf eru í meiri hættu að fá sjúkdóminn í innri líffæri en þeir sem hafa neikvætt próf. Því getur prófið reynst gagnlegt við að meta horfur þessara sjúklinga. Prófið mælir mótefni gegn CENP-B antigeninu, en ekki öðrum centromerpróteinum s.s. CENP-A og CENP-C.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay). Í prófinu eru notaðir plastbakkar sem húðaðir eru með hreinu centromer antigeni (CENP-B).
Niðurstöður:  Niðurstöður eru gefnar upp sem hlutfall (ratio) og <1.4 telst neikvætt. Mælist hlutfallið á bilinu 1.0–1.4 má telja það “grátt svæði”, og getur þá eftir atvikum verið ástæða til að taka nýtt sýni og endurtaka mælinguna að nokkrum tíma liðnum.

 

Anti Jo-1 

Jo-1 eða histidyl-tRNA syntetase finnst í umfrymi (cytoplasma), en ekki í frumukjarnanum líkt og önnur antigen sem kjarnamótefni (ANA) beinast gegn. Jo-1 mótefni eru því í raun og veru ekki kjarnamótefni (ANA). Mælingar á Jo-1 mótefnum er helst gagnlegar þegar grunur leikur á að sjúklingur sé með polymyositis/dermatomyositis, en 20-40% slíkra sjúklinga hafa hækkun á Jo-1 mótefnum.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay). Í prófinu eru notaðir plastbakkar sem húðaðir eru með hreinu Jo-1 antigeni.
Niðurstöður:  Niðurstöður eru gefnar upp sem hlutfall (ratio) og <1.4 telst neikvætt. Mælist hlutfallið á bilinu 1.0–1.4 má telja það “grátt svæði”, og getur þá eftir atvikum verið ástæða til að taka nýtt sýni og endurtaka mælinguna að nokkrum tíma liðnum.

 

Anti dsDNA

Mótefni gegn tvístrengja DNA (dsDNA) eru sérkennandi fyrir SLE og finnast hjá allt að 75% þeirra sem hafa virkan sjúkdóm. Magn dsDNA mótefna gefur jafnframt nokkra vísbendingu um hversu virkur sjúkdómurinn er og er því gagnlegt þegar árangur meðferðar er metinn. Lækkun á komplimentþáttunum C3 og/eða C4 fylgir oft hækkun á dsDNA mótefnum. Viss fylgni hefur einnig fundist milli hárra dsDNA mótefna og nephritis í sjúklingum með SLE. Skimað er fyrir dsDNA mótefnum með ENA ELISA skimprófi, en dsDNA mótefni sjást einnig við venjubundna ANA skoðun með óbeinni flúrskinsaðferð. Magnmæling jákvæðra sýna er síðan gerð með Farr tækni, sem lengstum hefur verið talin “gullstandard” til mælinga á dsDNA mótefnum.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: RIA (radioimmunoassay), svonefnd Farr tækni. Í fyrstu er sermi sjúklings blandað saman við geislamerkt DNA ([14C]DNA frá Amersham). Ef til staðar eru dsDNA mótefni í sermi bindast þau hinu geislavirka DNA og mynda mótefnafléttur, sem síðan eru felldar úr lausninni. Reiknað er út hlutfall bundins DNA samkvæmt jöfnunni: Bundið DNA / bundið DNA + DNA í floti.
Niðurstöður: Hundraðshlutfall (%) af geislamerktu DNA sem bundist hefur mótefnum og myndað mótefnafléttur í lausn.
Viðmiðunargildi:  Sýni telst neikvætt ef bindingur er < 20%.
 

Anti cardiolipin  (antiphospholipid antibodies)

Hér er um að ræða mótefni sem beinast gegn phospholipidum er taka þátt í storknunarferli blóðs. Hjá einstaklingum með cardiolipin mótefni lengist APTT, en venjulega er engin eða einungis lítilsháttar lenging á PT. Cardiolipin mótefni finnast í 5–15% sjúklinga með SLE og er talið að yfir helmingur þeirra sem eru jákvæðir fái einkenni sem rekja megi til þessara mótefna. Cardiolipin mótefni geta einnig fundist við aðra sjúkdóma en SLE, svo sem hjá AIDS sjúklingum í kjölfarið á tækifærissýkingum. Cardiolipin mótefni hafa einkum verið tengd óeðlilegri blóðsegamyndun, blóðflögufæð, fósturlátum (einkum á öðrum þriðjungi meðgöngu), pulmonary hypertension, transverse myelitis, livedo reticularis, hemolitic anemia og fótasárum. Óeðlileg segamyndun, blóðflögufæð og fósturlát hafa sterkust tengsl við IgG cardiolipin mótefni, en livedo reticularis og fótasár hafa hins vegar meiri tengsl við IgM cardiolipin mótefni.
Hafa ber í huga að cardiolipin mótefni (einkum IgM gerðin) getur valdið falsk jákvæðu syphilis prófi (VDRL), þar sem cardiolipin er eitt af uppistöðuefnum þess prófs. Þá getur IgM RF valdið falsk jákvæðu IgM cardiolipin prófi. Einnig ber að geta þess að við blóðsegamyndun getur magn cardiolipin mótefna lækkað tímabundið í blóði.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay). Í prófinu eru notaðir plastbakkar húðaðir með cardiolipin og 2-glycoprotein I cofaktor úr nauti.
Viðmiðunargildi: Eðlileg gildi eru <15 einingar (U/ml) fyrir bæði IgM og IgG cardiolipin mótefni. Mæligildi á bilinu 10–15 einingar má telja “grátt svæði”, og getur þá eftir atvikum verið ástæða til að taka nýtt sýni og endurtaka mælinguna að nokkrum tíma liðnum.

 

ANCA

Anti-neutrophil cytoplasmic antibodies (ANCA) eru mótefni sem beinast gegn ýmsum antigenum í umfrymi neutrophila. Það eru þó einkum tvö antigen í neutrophilum sem hafa klíniska þýðingu, proteinase-3 (PR3) og myeloperoxidasi (MPO). 
Mótefni gegn proteinase-3 (PR3) gefa svonefnda C-ANCA svörun í óbeinu flúrskinsprófi, en mótefni gegn myeloperoxidasa (MPO) gefa P-ANCA svörun.
Mótefni gegn PR3 (C-ANCA) greinist hjá 50-98% sjúklinga með Wegener’ granulomatosis ef um virkan og ómeðhöndlaðan sjúkdóm er að ræða en hjá aðeins 15% einstaklinga með óvirkan sjúkdóm. Mótefni gegn PR3 (C-ANCA) greinast einnig hjá hluta sjúklinga með microscopic polyangitis og focal segmental necrotizing glomerulonephritis. Mótefni gegn MPO (P-ANCA) greinist hjá 50 -90% sjúklinga með microscopic polyangitis eða Churg-Strauss syndrome en nokkru sjaldnar hjá sjúklingum með polyarteritis nodosa, Kawasaki’s sjúkdóm eða Wegener's granulomatosis. Mótefni gegn MPO (P-ANCA) getur einnig fundist hjá SLE sjúklingum með nephritis.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay). Í prófinu eru notaðir plastbakkar sem húðaðir eru með hreinum PR3 eða MPO antigenum.
Niðurstöður:  Neikvætt er eðlilegt. Jákvæð sýni eru send utan til staðfestingar og magnákvörðunar.

 

Mótefni gegn glomerular basement membrane (anti GBM)

Í langflestum sjúklingum (um 90%) með Goodpasture syndrome, sem er glomerulonephritis með eða án meðfylgjandi lungnablæðinga, finnast mótefni í blóði sem beinast gegn alfa-3 keðjunni í collagen IV. Collagen IV finnst einkum í basement membrane í nýrum og lungum og skýrir það hvers vegna sjúkdómurinn leggst fyrst og fremst á þessi tvö líffæri. GBM mótefni  eru oftast í háum styrk í upphafi sjúkdómsins, en lækka síðan við meðferð. Með flúrskinslitun á nýrnasýnum úr sjúklingunum má einnig finna útfellingar á IgG og C3 í nýrnaglomeruli. Hluti sjúklinga með Goodpasture syndrome hefur jafnframt hækkuð ANCA mótefni í blóði, oftar MPO-ANCA en PR3-ANCA. Í bráðatilvikum er hægt að óska eftir bráðamælingu á bæði GBM og ANCA mótefnum.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay). Í prófinu eru notaðir plastbakkar sem húðaðir eru með hreinu GBM antigeni (Goodpasture antigeni), en GBM antigenið er hluti eða undireining af collagen IV.
Viðmiðunargildi: Neikvætt er eðlilegt. Jákvæð sýni eru send utan til staðfestingar og magnákvörðunar

 

Önnur sjálfsofnæmispróf

Sjálfsofnæmismótefnum má skipta í tvo flokka. Annars vegar eru vefjasértæk mótefni (organ specific) sem beinast gegn sérstökum frumum, vefjum eða líffærum, svo sem  parietal frumum, hormónmyndandi skjaldkirtilsfrumum eða rauðum blóðkornum. Hins vegar eru ekki vefjasértæk mótefni (organ non-specific) sem beinast gegn sameindum sem finnast meira og minna í öllum frumum líkamans og má þar nefna mótefni gegn mitokondrium og ýmsum kjarnaþáttum.
Almennt má segja að sjálfsofnæmismótefni finnist stöku sinnum hjá heilbrigðum einstaklingum og fer algengi þeirra vaxandi með aldri. Það þarf því ekki alltaf að vera merki um sjúkdóm, þótt þau greinist í blóði, og þótt þessi mótefni komi að gagni við sjúkdómsgreiningu, er ekki þar með sagt að þau séu meginorsök þeirra vefjaskemmda sem fylgja sjúkdómnum. Oftast taka bæði mótefni og ónæmisfrumur þátt í meinferli sjálfsofnæmissjúkdóma. Þau sjálfsofnæmismótefni sem ekki eru vefjasértæk, beinast yfirleitt gegn frumuþáttum sem eru sameiginlegir öllum spendýrum, þ.e. eru ekki tegundasértæk og má því greina þessi mótefni á öðrum vefjum en mannavef. Sum vefjasértæk mótefni er hins vegar einungis hægt að greina með mannavef.  

 

Mótefni gegn thyroglobulini (anti TG)

Þau mótefni gegn skjaldkirtli sem algengast er að mæla beinast gegn thyroglobulini (anti TG) og thyroid peroxidasa (anti TPO). Mælingar á þessum mótefnum geta verið gagnlegar við greiningu á orsökum truflaðrar skjaldkirtilsstarfsemi.  Mótefnin finnast hjá allt að 95% sjúklinga með Hashimotho’s thyroiditis. Þau geta einnig fundist hjá 50-70% sjúklinga með Graves’ sjúkdóm og primary myxedema. Algengt er að há gildi mælist hjá sjúklingum með Hashimotho’s thyroiditis og Graves’ sjúkdóm. Mótefnin geta fundist við ýmsa aðra sjúkdóma, en eru þá venjulega í lægra magni. Dæmi um þetta eru sjálfsofnæmissjúkdómar, svo sem anemia perniciosa, Addison’s sjúkdómur, myasthenia gravis, RA og SLE. Bæði prófin eru því mjög næm fyrir Hashimotho´s thyroiditis og há mótefnagildi eru fremur sértæk fyrir þennan sjúkdóm. 
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Flúrskinsmæling (FEIA) með thyroglobulinhúðuðum bollum (ImmunoCAP) á UNICap 100 tæki frá Pharmacia.
Viðmiðunargildi: Eðlileg gildi fyrir mótefni gegn thyroglobulini eru <344 einingar (IU/ml). Niðurstöður á bilinu 280–344 einingar má telja “grátt svæði”, og getur þá eftir atvikum verið ástæða til að taka nýtt sýni og endurtaka mælinguna að nokkrum tíma liðnum.

 

Mótefni gegn thyroid peroxidasa (anti TPO)

Þau mótefni gegn skjaldkirtli sem algengast er að mæla beinast gegn thyroglobulini (anti TG) og thyroid peroxidasa (anti TPO). Mælingar á þessum mótefnum geta verið gagnlegar við greiningu á orsökum truflaðrar skjaldkirtilsstarfsemi.  Mótefnin finnast hjá allt að 95% sjúklinga með Hashimotho’s thyroiditis. Þau geta einnig fundist hjá 50-70% sjúklinga með Graves’ sjúkdóm og primary myxedema. Algengt er að há gildi mælist hjá sjúklingum með Hashimotho’s thyroiditis og Graves’ sjúkdóm. Mótefnin geta fundist við ýmsa aðra sjúkdóma, en eru þá venjulega í lægra magni. Dæmi um þetta eru sjálfsofnæmissjúkdómar, svo sem anemia perniciosa, Addison’s sjúkdómur, myasthenia gravis, RA og SLE. Bæði prófin eru því mjög næm fyrir Hashimotho´s thyroiditis og há mótefnagildi eru fremur sértæk fyrir þennan sjúkdóm. 
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Flúrskinsmæling (FEIA) með thyroid peroxidase húðuðum bollum (ImmunoCAP) á UNICap 100 tæki frá Pharmacia.
Viðmiðunargildi: Eðlileg gildi fyrir mótefni gegn thyroid peroxidasa eru <100 einingar (IU/ml). Niðurstöður á bilinu 60–100 einingar má telja “grátt svæði”, og getur þá eftir atvikum verið ástæða til að taka nýtt sýni og endurtaka mælinguna að nokkrum tíma liðnum.

 

Mótefni gegn TSH receptor (TSI, TRAb)

Þau mótefni sem algengast hefur verið að mæla hjá sjúklingum með skjaldkirtilssjúkdóma beinast gegn thyroglobulini (anti TG) og thyroid peroxidasa (anti TPO). Mælingar á anti TG og anti TPO geta verið gagnlegar við greiningu á orsökum truflaðrar skjaldkirtilsstarfsemi og finnast hjá flestum sjúklingum með Hashimoto's thyroiditis, en einnig sjaldnar í Graves' sjúkdómi og primary myxedema.
Á síðari árum er einnig farið að nota mælingar á mótefnum gegn TSH viðtakanum (thyrotropin receptor autoantibodies/TRAb eða thyroid stimulating immunoglobulin/TSI) við greiningu skjaldkirtilssjúkdóma. Þegar TSI/TRAb binst TSH viðtökum veldur það venjulega örvun á skjaldkirtilsstarfsemi með hækkun á skjaldkirtilshormónum (T3, T4) í blóði. Mælingar á TSI/TRAb eru því einkum gagnlegar við mismunagreiningu á ofvirknini skjaldkirtils (hyperthyroidismus) og eftirlit sjúklinga með Graves' sjúkdóm. Um 80% sjúklinga með Graves' sjúkdóm hafa hækkun á TSI/TRAb. Mótefni frá mæðrum með hátt TSI/TRAb geta farið yfir fylgju til fósturs og valdið sjúkdómseinkennum hjá barninu.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay). Í prófinu eru notaðir plastbakkar sem húðaðir eru með TSH viðtökum.
Viðmiðunargildi: Eðlileg gildi fyrir TSI/TRAb er <1.5 IU/l.  Niðurstöður á bilinu 1.0–1.5 IU/l má telja á "gráu svæði", og getur þá eftir atvikum verið ástæða til að taka nýtt sýni og endurtaka mælinguna að nokkrum tíma liðnum.

 

Mótefni gegn sléttum vöðvum (SMA)

Þessi mótefni beinast gegn actin og ýmsum öðrum sameindum í sléttum vöðvum. Það eru einkum mótefni gegn actin–F sem talin eru hafa mest greiningargildi. Af öðrum sameindum sem sléttra vöðva mótefni beinast gegn má nefna vimentin, desmin, tubulin og fleiri.
Mótefni gegn sléttum vöðvum eru til staðar í 65–85% sjúklinga með autoimmune chronic active hepatitis (AI–CAH) og í 40–50% sjúklinga með primary biliary cirrhosis (PBC). Mótefnin geta einnig verið til staðar í lágum títer í lifrarbólgu af völdum lyfja eða veira, mononucleosis infectiousa, æxli í eggjastokkum eða melanoma malignum. Minna en 5% heilbrigðra hafa þessi mótefni í blóði og þá yfirleitt í litlu magni. Prófið telst vera miðlungi til næmt og sértækt fyrir AI-CAH.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Óbeint flúrskinspróf (indirect immunofluorescence). Notuð eru rottulíffæri (magi, vélinda, lifur og nýra). Svörun kemur fram í muscularis mucosa og milli kirtilfruma í maga og í arterial tunica media í líffærunum fjórum. Jákvæð sýni eru títruð.
Viðmiðunargildi: Neikvætt (titer <1/80). Jákvæð sýni gefin út sem títer, 1/80, 1/160, 1/320 o.s.frv., og endatíter gefinn út sem lokasvar. 
 

Mótefni gegn mitochondria (AMA)

Mótefni gegn mitochondrium (AMA) beinast gegn lipopróteinum á innri (M1, M2 og M7) og ytri (M3–6, M8 og M9) himnu mitochondria og þau eru ýmist af IgG (IgG3) eða IgM gerð. Þessi mótefni eru til staðar í 85–90% sjúklinga með primary biliary cirrhosis (PBC) og í 30% sjúklinga með autoimmune chronic active hepatitis (AI–CAH) eða cryptogenic cirrhosis. Þessi mótefni geta stöku sinnum verið til staðar í minna magni við sjúkdóma svo sem Sjögren’s syndrome, lifrarbólgu af völdum lyfja, myasthenia gravis, thyroiditis, adrenalitis og idiopatiska hemolytiska anemiu. Við extrahepatic biliary obstruction finnast AMA mótefni afar sjaldan. Samfara primary biliary cirrhosis er oft til staðar hypergammaglobulinemia af IgM flokki. Þessi mótefni finnast sjaldan í heilbrigðum einstaklingum (<5%). Prófið er því bæði nokkuð næmt og sértækt fyrir primary biliary cirrhosis.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Óbeint flúrskinspróf (indirect immunofluorescence). Notuð eru rottulíffæri (magi, vélinda, lifur og magi). Sé svörun sterkust í distal renal tubules bendir það frekar á primary biliary cirrhosis en sé svörun sterkust í proximal renal tubules bendir það frekar á AI-CAH.
Viðmiðunargildi: Neikvætt (titer <1/40). Jákvæð sýni gefin út sem títer, 1/40, 1/80, 1/160 o.s.frv., og endatíter gefinn út sem lokasvar. 

 

Mótefni gegn parietalfrumum (GPC)

Um 90% sjúklinga með anemia perniciosa hafa mótefni í sermi gegn parietal frumum (GPC). Slík mótefni finnast einnig í allt að 60% sjúklinga með chronic atrophic gastritis, við sjúkdóma svo sem Hashimoto’s thyroiditis (30%), thyrotoxicosis (25%), sykursýki (20%), Addison’s sjúkdóm (24%) og járnskorts anemiu (20%). Einnig finnast þessi mótefni hjá allt að 10% af eldra fólki. Próf þetta er talsvert næmt fyrir anemia perniciosa, en ekki nema að miðlungi til sértækt.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Óbeint flúrskinspróf (indirect immunofluorescence). Notaðar eru sneiðar úr rottumaga. 
Viðmiðunargildi: Neikvætt (titer <1/40). Jákvæð sýni gefin út sem (+) eða +.

 

Mótefni gegn intrinsic faktor (IFA)

Til eru tvær gerðir af mótefnum gegn intrinsic faktor. Í fyrsta lagi er um að ræða mótefni sem keppa við B12 vítamin um bindisæti á intrinsic faktor (blocking antibody) og í öðru lagi mótefni sem bindast intrinsic faktor á öðrum stað en vítamín B12 (binding antibody). Prófið greinir IgG mótefni af báðum þessum gerðum.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay) með hreinum intrinsic faktor.
Viðmiðunargildi: Neikvætt (<1.1 eining).  Mæligildi á bilinu 0.9–1.1 má telja á “gráu svæði”, og getur þá eftir atvikum verið ástæða til að taka nýtt sýni og endurtaka mælinguna að nokkrum tíma liðnum.

 

Mótefni gegn munnvatnskirtlum

Mótefni gegn sameindum í göngum munnvatnskirtla finnast í um helmingi sjúklinga með Sjögren’s syndrome í tengslum við RA og 30% sjúklinga með primary Sjögren’s syndrome. Einnig eru þessi mótefni til staðar í um 20–25% þeirra sem hafa iktsýki (RA) eina og sér.
Við grun um Sjögren’s syndrome er einnig æskilegt að kanna hvort til staðar eru SSA (Ro) og/eða SSB (La) kjarnamótefni og er þá einfaldast að skima eftir þeim með ENA ELISA prófi (stundum einnig með ANA prófi).
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Óbeint flúrskinspróf (indirect immunofluorescence). Notaðar eru vefjasneiðar með munnvatnskirtlum úr mönnum.
Viðmiðunargildi: Neikvætt. Jákvæð sýni eru gefin út sem títer ; óþ., 1/4, 1/8 o.s.frv. og endatíter gefinn út sem lokasvar.

 

Mótefni gegn nýrnahettuberki

Mótefni gegn nýrnahettuberki eru yfirleitt af IgG flokki og beinast gegn einum eða fleiri míkrosomal þáttum fruma í zona fasciculata og zona glomerulosa í nýrnahettuberkinum. Um það bil 60% sjúklinga með Addison’s sjúkdóm hafa þessi mótefni í blóði við greiningu en hlutfallið minnkar síðan þegar á sjúkdóminn líður. Mótefni gegn nýrnahettuberki finnast einnig í um 20% sjúklinga með berkla í nýrnahettum. Talið er að í kringum 10% náinna ættingja þeirra sem greinast með Addison’s sjúkdóm hafi mótefni gegn nýrnahettuberki í blóði. Þessi mótefni finnast í <1% heilbrigðra einstaklinga. Próf þetta er að miðlungi til næmt og sértækt hvað varðar Addison’s sjúkdóm.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Óbeint flúrskinspróf (indirect immunofluorescence). Notaður er nýrnahettubörkur úr öpum. 
Viðmiðunargildi: Neikvætt. Jákvæð sýni eru gefin út sem vægt, miðlungs eða sterkt jákvæð.

 

Mótefni gegn briskirtilseyjum (ICA)

Mótefni gegn briskirtilseyjum finnast í blóði um 70% þeirra sem greinast með insúlínháða sykursýki (DM type I). Mótefnin geta verið til staðar mörgum árum áður en sykursýkin gerir vart við sig. Þau hverfa síðan smám saman úr blóði og 10 árum eftir greiningu finnast þau aðeins í 10–15% sjúklinganna. Þessi mótefni finnast einnig hjá u.þ.b. 6% sjúklinga með insúlín óháða sykursýki (týpa II) og til samanburðar hjá 0.5-1.7% heilbrigðra einstaklinga. Nánir ættingjar sjúklinga með insúlín háða sykursýki (týpa I) greinast með mótefni gegn briskirtilseyjum í 8 - 9% tilfella. Próf þetta er ekki sérlega næmt fyrir insúlin háðri sykursýki (týpa I) en er að miðlungi til sértækt.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Óbeint flúrskinspróf (indirect immunofluorescence). Notaður er briskirtill úr öpum. 
Viðmiðunargildi: Neikvætt. Jákvæð sýni eru gefin út sem vægt, miðlungs eða sterkt jákvæð.

 

Mótefni gegn þverrákóttum vöðvum

Mótefni gegn þverrákóttum vöðvum beinast gegn I böndum sarkomera og A böndum myofibrilla. Þessi mótefni finnast hjá um 40% sjúklinga með myasthenia gravis og 25% sjúklinga með thymoma. Hins vegar eru þessi mótefni til staðar hjá 90–100% sjúklinga sem greinast með bæði myasthenia gravis og thymoma. Prófið er því mjög næmt ef um báða sjúkdómana er að ræða, en að sama skapi ósértækt.
Einnig er hægt að mæla sérstaklega mótefni gegn acetylcholine viðtökum (AchR) og eru slík sýni send utan til mælinga.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Óbeint flúrskinspróf (indirect immunofluorescence). Notuð er þind úr rottu.
Viðmiðunargildi: Neikvætt (títer <1/50).

 

Gluten mótefni  –  Transglutaminase mótefni

Gluten er forðaprótein hveitis. Sams konar prótein í rúgi, byggi og höfrum geta einnig valdið glutenóþoli. Glíadin er alkóhóluppleysanlegur þáttur glutens. Tveir sjúkdómar stafa af glutenóþoli. Annars vegar coeliac sjúkdómur, sem einkennist af skertu frásogi vegna útbreiddra skemmda í totum garnaslímhúðar. Hins vegar er dermatitis herpetiformis þar sem einkenni frá meltingarvegi eru lítil en sjúklingar hafa aftur á móti vessafyllt útbrot í húð. Enginn munur er á IgM glutenmótefnum hjá heilbrigðum einstaklingum og sjúklingum með glutenóþol. Margir glutenóþolssjúklingar hafa hins vegar hækkuð IgG glutenmótefni. Veruleg hækkun IgA glutenmótefna bendir sterklega til glutenóþols. Sumir sjúklingar með glutenóþol hafa ekki hækkuð glutenmótefni, þannig að lág glutenmótefni útiloka ekki glutenóþol. Magn glutenmótefna er háð glutenneyslu sjúklinganna. Mótefnamagn minnkar verulega þegar glutenneyslu eru hætt og eykst aftur þegar glutens er neytt. Mæling á glutenmótefnum er því m.a. gagnleg til að fylgjast með hversu vel sjúklingum tekst að sneyða hjá gluteni.
Sýni með hækkuð glutenmótefni, annaðhvort af IgG eða IgA gerð, eru mæld frekar fyrir IgA mótefnum gegn transglutaminase (IgA anti–tTG). Hækkuð IgA mótefni gegn transglutaminase eru talin mjög sértæk fyrir coeliac sjúkdóm (næmi ≈96% og sértækni ≈99%) og er það mun meiri sértækni en fyrir hækkuð mótefni gegn gluteni.
Sjúklingar með IgA skort mælast neikvæðir fyrir IgA mótefnum gegn bæði gluteni og transglutaminase. Neikvæð IgA mótefni gegn gluteni og transglutaminase útiloka þannig ekki að sjúklingar geti haft glutenóþol. Því getur þurft að mæla heildarmagn IgA til að tryggja að niðurstöðurnar séu ekki “falskt neikvæðar” vegna IgA skorts.
Sýni: 0,5 sermi.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay) Notaðir eru plastbakkar sem húðaðir eru með gluteni (IgG og IgA glutenmótefni) eða recombinat framleiddum transglutaminase (IgA anti–tTG).
Viðmiðunargildi: Eðlileg gildi fyrir IgG gluten mótefni eru ≤105 einingar, og fyrir IgA gluten mótefni  IgA ≤7 einingar. Eðlileg gildi fyrir IgA transglutaminase mótefni eru <8 einingar (U/ml). Mælist IgA transglutaminse mótefni á bilinu 5–8 einingar má telja það á “gráu svæði”, og getur þá eftir atvikum verið ástæða til að taka nýtt sýni og endurtaka mælinguna að nokkrum tíma liðnum.

 

Mælingar á komplimentþáttum

Komplimentkerfið getur virkjast á þrennan hátt. Klassíski ferillinn virkjast af frumubundnum mótefnum eða mótefnafléttum af IgG (IgG3 > IgG1 > IgG2) eða IgM gerð. Styttri ferilinn (alternative pathway) getur virkjast án hjálpar mótefna m.a. af endotoxinum og vissum örverum. Þriðja leiðin er hinn svonefndi lektín ferill, sem hefst með bindingu mannose binding lectin (MBL) við sykrur sem eru á yfirborði sýkla eða mótefnaflétta.
Klassíski og styttri ferillinn koma saman þegar komplimentþáttur C3 virkjast. Klíniskt gildi komplimentmælinga er aðallega bundið lækkuðum gildum, sem má rekja annars vegar til aukins umbrots (consumption) við ýmsa sjúkdóma og hins vegar til meðfædds skorts vegna erfðagalla en það er mun sjaldgæfara. Enn fremur eru sumir umbrotsþættir (einkum C3d) mældir til að meta virkni komplimentkerfisins. Óeðlilega mikil komplimentvirkni getur átt sér stað án þess að það komi fram í mælingum þar sem nýmyndun komplimentþátta er einnig aukinn. Lækkun á C4 er næmari vísbending en lækkun á C3 um ræsingu klassíska ferilsins, en hvorugt er mjög næmt. Mælingar á CH50, C3, C3d og Faktor B eru í flestum tilfellum nægjanlegar til þess að meta ástand komplimentkerfisins í sjúklingum. Meðfæddur skortur á komplimentþáttum (C1, C4, C2, eða C3) er tengdur SLE, en sjúklingar með skort á komplimentþáttum (C5, C6, C7 eða C8) hafa veiklaðar varnir gegn Neisseria (meningitidis/gonorrhoeae) sýklum.
Meðferð sýna fyrir komplimentmælingar: 1 ml sermi. Komplimentþættir þola misvel geymslu og virkni þeirra minnkar í návist heparins eða EDTA, og því eru þessar mælingar gerðar í sermi. Undantekning er þó C3d en sýni fyrir þá mælingu skal taka í EDTA plasmaglas. Ef vitað er fyrirfram að sýnið nær ekki á rannsóknarstofuna innan fárra klukkustunda frá sýnatöku er rétt að skilja það niður áður en það er sent af stað. Í sýnum sem geymd hafa verið of lengi getur átt sér stað in vitro ræsing á komplimentkerfinu með lækkun á CH50 og C1q, en hækkun á C3.

 

Heildarvirkni klassíska ferilsins (CH50)

Með þessari rannsókn má meta starfshæfni klassíska ferilsins í heild. Prófið gefur vísbendingu um skort á komplimentþáttum eða skerta starfshæfni, sérstaklega í fyrri hluta ferilsins (C1,C2 og að hluta til C3 og C4). Prófið segir ekki eins mikið til um seinni hluta ferilsins (C5–C9), þar sem um verulegan skort þarf að vera að ræða til að valda lækkun á þessu prófi. Helstu ábendingar þessarar rannsóknar er því grunur um skort eða bilun á einhverjum komplimentþætti, sjálfsofnæmissjúkdómar (t.d. SLE, glomerulonephrit og myasthenia gravis), smitsjúkdómar (t.d. acute poststreptococcal glomerulonephritis) ásamt DIC, paroxismal cold hemoglobinuria og líffærahöfnun.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Hemolysa í glösum. Rauð kindablóðkorn eru húðuð með hemolysini (rabbit anti sheep erythrocyte) og sermi blandað saman við. Þetta veldur ræsingu á klassíska ferlinum og rofi á himnu rauðu blóðkornanna. Hemolysan er mæld í ljósmæli og borin saman við viðmiðunarsýni (sem hefur staðalgildið 100%). Niðurstöður gefnar upp sem hlutfall (%) af virkni viðmiðunarsýnis.
Viðmiðunargildi: Eðlileg gildi eru 60–124%.

 

Heildarvirkni styttri ferilsins (alternative pathway, AP)

Með þessari rannsókn er unnt að meta starfshæfni styttri ferilsins (alternative pathway, AP). Styttri ferilinn samanstendur af 6 plasmapróteinum: Faktor D, B, H, I, P (Properdin) og C3.
Styttri ferillinn getur virkjast án þátttöku mótefna. Helstu þættir sem stuðla að virkjun hans eru ýmsar bakteríur, sveppir, veirur, veirusýktar frumur, æxlisfrumur og sníklar (parasitar). Upphafsskrefið er venjulega þannig að C3 komplimentþáttur kemst í snertingu við yfirborð bakteríu og klofnar við það í tvennt (C3a og C3b). C3b binst við yfirborð bakteríunnar (polysaccharid hluta) og myndar ásamt faktor B (sem klofnar í Ba og Bb) C3bBb. Fyrir tilstuðlan faktor D á sér stað mögnun á ferlinu og myndun C5 convertasa (C3bBb3b) sem síðan veldur himnurofi eftir sömu leið og klassíski ferilinn þ.e. C5–C9. Ræsing á styttri ferli komplimentkerfisins hefur í för með sér lækkun á AP í hemolysuprófi, lækkun á C3 og faktor B. Ræsing á styttri ferlinum er áberandi við suma sjúkdóma, t.d. membranoproliferative glomerulonephritis, paroxismal nocturnal hemoglobinuria og endotoxinemiu.
Styttri ferill komplimentkerfisins hefur með varnir líkamans að gera áður en mótefnasvar hefur myndast, t.d. gegn bakteríum. Af þeim sökum getur vanstarfsemi á honum haft í för með sér slæmar bakteríusýkingar (t.d. af völdum pneumokokka, haemophilus influenzae og staphylokokka). Dæmi um slíkt er sigðfrumublóðleysi þar sem sigðfrumublóðkornin valda stöðugri ræsingu á styttri ferlinum, sem aftur hefur í för með sér aukna sýkingarhættu sem oft er erfiðasta vandamál þessara sjúklinga.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Agarflæðisaðferð (radial diffusion). Marsvínablóðkorn eru steypt í agarosahlaup sem inniheldur EGTA. Brunnar eru síðan skornir í hlaupið og í þá er sett sermi sjúklinga ásamt viðmiðunarsýnum. Sermið flæðir síðan út í agarosahlaupið,  styttri ferill komplementkerfisins ræsist og sjáanleg hemolysa verður í gelinu. Þvermál hemolysunnar er mælt og borið saman við hemolysu viðmiðunarsýnisins sem hefur staðalgildið 100%. Niðurstöður eru gefnar sem hlutafall (%) af virkni viðmiðunarsýnis.
Viðmiðunargildi: Eðlileg gildi eru 75–125%.
 

MBL (Mannose Binding Lectin)

Mannose bindandi lektín (MBL) er kalsíum–háð lektín í blóðvökva með opsonínvirkni gegn mörgum tegundum örvera. Sameindinni svipar mjög til C1q hvað varðar byggingu og hlutverk og getur ræst komplimentferilinn strax í upphafi sýkingar þar sem C1q er hins vegar óvirkt þangað til ónæmiskerfið hefur fengið tíma til að mynda mótefnasvar. MBL er mælt með ELISA aðferð. Mæling á MBL hefur tekið við af svonefndu "opsoninprófi" sem áður var boðið upp á ónæmisfræðideildinni.
MBL skortur er tiltölulega algengur og er talið að 30–40% sjúklinga með tíðar efri loftvegasýkingar skorti þessa sameind. Lágt MBL (<500 ng/ml) er algengt og veldur yfirleitt ekki óeðlilegum sýkingum nema það fari saman með einhverjum öðrum ónæmisgalla. Þannig hafa rannsóknir hér á landi sýnt að börnum er hættara við að fá eyrnabólgur (otitis media) ef þau skortir MBL samfara því að hafa lágt IgA.
Þá hefur einnig verið sýnt fram á að sjúklingar sem þurfa að taka sterk ónæmisbælandi lyf, til dæmis vegna vefjaígræðslu eða SLE, fá fremur alvarlegar sýkingar ef MBL þéttni í sermi er lægri en 500-1000 ng/ml.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay). Í prófinu eru notaðir plastbakkar sem eru húðaðir með MBL.
Viðmiðunargildi: MBL þéttni í blóði er aldursháð.  Eðlileg gildi fyrir MBL í fullorðnum eru  500 ng/ml.

 

Komplimentþættir C3 og C4

Þar sem C3 og C4 eru "acute-phase" prótein á sér stað aukin nýmyndun þeirra í bráðu bólgusvari. Við sjálfsofnæmissjúkdóma getur sést hækkun á komplimentgildum í bráðafasa sjúkdómsins, en þegar frá líður verður lækkun á gildum. Skortur á C4 hefur sterk tengsl við SLE og aðra fléttusjúkdóma (immune complex diseases) en skortur á C3 hefur aftur á móti einkum tengsl við sýkingar. Við fléttusjúkdóma eins og SLE, RA eða glomerulonephritis á sér stað ræsing á klassíska ferli komplimentkerfisins með lækkun á C4 og C3. C4 gildi lækka yfirleitt fyrst en C3 fylgir í kjölfarið (mest áberandi í SLE). Endurteknar mælingar á C3 og C4 geta verið gagnlegar til að fylgjast með sjúkdómsvirkni hjá einstaklingum með SLE (C3 og/eða C4 lækka nær alltaf ef um nephritis er að ræða), æðabólgusjúkdóma (vasculitis) og glomerulonephritis. Komplimentþáttur C3 lækkar við sjúkdóma sem hafa í för með sér ræsingu á styttri ferlinum (AP), t.d. membranoproliferative glomerulonephritis (C3 nephritic factor) og paroxysmal nocturnal hemoglobinuria, en C4 gildi eru eðlileg (C4 er hluti klassíska ferilsins). Sumir sjúkdómar hafa í för með sér ræsingu á báðum ferlunum (t.d. gram–negative bacteremia) og er þá bæði um lækkun á C3 og C4 að ræða ásamt lækkun á faktor B (faktor B lækkar eingöngu við ræsingu á styttri ferlinum, enda hluti af honum). Hjá einstaklingum með hereditary angioedema (skortur á C1–INH) á sér stað lækkun á C4, jafnvel þótt viðkomandi sjúklingur sé einkennalaus. Þegar einkenni sjúkdómsins gera vart við sig er C4 vart mælanlegt en C3 gildi er alltaf eðlilegt. Í iktsýki (RA) er C3 ýmist eðlilegt eða lækkað, en C4 venjulega eðlilegt. Í mixed cryoglobulinemia er C3 eðlilegt eða lækkað og C4 lækkað.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Rate nephelometry. Mælingin er gerð á Beckman nephelometer.
Viðmiðunargildi: Eðlileg gildi fyrir C3 eru 0,74–1,38 g/l. Eðlileg gildi fyrir C4 eru 0,14–0,37 g/l.
 

Faktor B

Faktor B (C3 proactivator) er einn af þáttum styttri komplimentferilsins og gegnir hann svipuðu hlutverki og C2 í klassíska ferlinum. Faktor B myndar ásamt C3b svokallaðan C3 convertasa (C3bBb). Lækkun á faktor B á sér venjulega stað í sjúkdómum sem hafa í för með sér ræsingu á styttri komplimentferlinum. Til eru einstaklingar sem mynda mótefni "C3 nephritic factor" sem auka stöðugleika C3 convertasa (C3bBb). Slík mótefni geta fundist í sjúklingum með membranoproliferative glomerulonephritis, SLE, partial lipodystrophy, eða hemolytic uremic syndrome. Hjá þessum sjúklingum mælist mikil lækkun á C3 en ekki nema miðlungs lækkun á faktor B. Ástæðan er sú að líkaminn dregur úr myndun C3 við stöðuga ræsingu á ferlinum. Einstaklingar með meðfæddan skort á C3b inactivator hafa einnig mjög lág gildi á C3 og lækkun á faktor B. Ef faktor H eða I eru ekki til staðar reynist faktor B alltaf lækkaður. Ef um mikla ræsingu á klassíska ferlinum er að ræða getur C3b sem þá myndast bundist faktor B og þar með ræst styttri ferilinn" positive feedback loop". Við slíkar aðstæður getur komið fram lækkun á faktor B við primer ræsingu á klassíska ferlinum.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Strýturafdráttur í agar (Laurell rocket immunoelectrophoresis).
Viðmiðunargildi: Eðlileg gildi eru 75–125% af viðmiðunarsýni.
 

C1 esterase inhibitor

Mæling á magni C1–esterasa inhibitor (C1–INH) í sermi segir til um ræsingu klassíska hluta komplimentkerfisins. Upphafsskrefið í ræsingu klassíska ferilsins er þegar C1q sameindin kemst í snertingu við IgM eða IgG mótefni bundið á frumuhimnu eða í mótefnafléttu. C1s (C1–esterase) virkjast sem proteolytiskt ensím með hæfileika til að kljúfa C4 og C2. Þessu ferli er haldið í skefjum með C1–esterasa inhibitor sem binst við C1s og C1q og losar þessi ensím frá mótefnabundnu C1q.
Hereditary angioedema er erfðasjúkdómur (autosomal dominant) sem veldur óheftri ræsingu á klassíska ferlinum þannig að komplimentbrot eins og C5a (bólgupeptíð) losna í miklu magni og valda bólgumyndun. Í 85% tilfella stafar HEA af of lítilli framleiðslu og skertri starfshæfni C1–INH (type 1) en í 15% tilfella er um að ræða óstarfhæfan C1–INH þó svo framleiðslan sé eðlileg eða jafnvel aukin. Geta má þess að HEA fylgir ekki kláði. Til er áunnið form af angioneuretic edema þar sem C1–esterasa inhibitor er ekki til staðar sökum þess að sjúklingarnir framleiða sameindir sem valda stöðugri ræsingu á C1 þannig að líkaminn nær ekki að nýmynda C1-INH í nægilegu magni. Í slíkum tilvikum er venjulega um undirliggjandi B-frumu lymphoma eða sjálfsofnæmissjúkdóm (SLE) að ræða.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Strýturafdráttur í agar (Laurell rocket immunoelectrophoresis).
Viðmiðunargildi: 0,17–0.41 g/l
 

C3d

Magn komplimentpróteina lækkar ekki alltaf þegar um ræsingu er að ræða vegna þes að aukin nýmyndun vegur fyllilega upp á móti aukinni notkun.  Mæling á svokölluðum "complement split products" (til dæmis C3d) gefur því betri mynd af því hvort komplimentræsing hafi átt sér stað eða ekki.
Sýni:  EDTA plasma.  Þar sem C3 getur auðveldlega brotnað niður við storknun blóðs, og þar með valdið in vitro aukningu á C3d, er nauðsynlegt að taka EDTA plasma sýni.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay). Í prófinu eru notaðir plastbakkar húðaðir með mótefni gegn komplimentþætti C3d.
Viðmiðunargildi: Eðlileg gildi fyrir C3d eru 0–50 einingar.
 

Komplimentþáttur C1q

Ræsing klassíska hluta komplimentferilsins hefst þegar C1q binst Fc hluta mótefnis (IgG eða IgM á yfirborði t.d. bakteríu eða í mótefnafléttu) og við það virkjast C1r sem er ensím með hæfileika til að kljúfa C1s (serín próteasi) sem öðlast þá hæfileika til að kljúfa C4 og C2. Tvær tegundir af meðfæddum (autosomal recessive) C1q skorti eru þekktar. Í 60% tilfella er um að ræða verulega skerta framleiðslu á C1q (með eðlilega starfshæfni) en í 40% tilfella er um að ræða óstarfhæfar C1q sameindir þrátt fyrir eðlilega framleiðslu. Slíkir einstaklingar fá nær allir fléttusjúkdóma (SLE, glomerulonephritis og vasculitis) vegna þess að eitt helsta hlutverk klassíska ferils komplimentkerfisins er hreinsun á mótefnafléttum. Einnig ber nokkuð á slæmum húðsýkingum hjá þessum einstaklingum. Angioneuretic edema sem afleiðing af SLE eða lymphoproliferatifum sjúkdóm hefur í för með sér mikla lækkun á C1q. Erfðabundna formið (hereditary angioedema) hefur ekki í för með sér lækkun á C1q nema þegar sjúkdómurinn er virkur.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Andstreymisrafdráttur í agar (Countercurrent immunoelectrophoresis).
Viðmiðunargildi: Viðmiðun við normalsýni. Mælingin er semikvantitativ og niðurstaðan er gefin út sem títer (óþynnt, 1/2, 1/4,  o.s.frv.).

 

Komplimentþáttur C2

C2 skortur er algengasti þekkti arfhreini komplimentgallinn (algengi um 1/10.000 til 1/30.000). Þar sem klassíski ferill komplimentkerfisins hefur með hreinsun mótefnaflétta að gera fylgja C2 skorti gjarnan fléttusjúkdómar (t.d. SLE, vasculitis eða glomerulonephritis). Þriðjungur sjúklinga er aftur á móti einkennalaus þar sem C4b getur hjálpað til við hreinsun mótefnaflétta með því að bindast CR2. Einnig hafa nýlegar rannsóknir bent til þess að faktor B geti að hluta komið í stað C2 þar sem um mjög skyldar sameindir er að ræða.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Andstreymisrafdráttur í agar (Countercurrent immunoelectrophoresis).
Viðmiðunargildi: Viðmiðun við normalsýni. Mælingin er semikvantitativ og niðurstaðan er gefin út sem títer (óþynnt, 1/2, 1/4,  o.s.frv.).

 

Aðrar mælingar

Á ónæmisfræðideildinni eru meðal annars mæld cryoglobulin í blóði og magn cyclosporins í blóði.
Mælingar á cryoglobulinum geta verið gagnlegar við mat á sjúklingum með margvísleg einkenni, til dæmis þrálát húðútbrot, æðabólgur, blóðflæðistruflanir, gigtarsjúkdóma, æxli eða sýkingar.
Mælingar á þéttni cyclosporins eru einkum gerðar hjá sjúklingum sem eru á ónæmisbælandi meðferð eftir líffæraflutninga, til dæmis nýrnaþegum og hjarta-og lungnaþegum.
Hægt er í samráði við sérfræðinga deildarinnar að óska eftri mælingum á öðrum “ónæmistengdum þáttum” eftir því sem við á hverju sinni, og getur þá ónæmisfræðideildin haft milligöngu um að fá slíkar mælingar gerðar, annað hvort innan lands eða utan.

 

Cryoglobulin

Cryoglobulin eru mótefni sem falla út við kulda og leysast upp við endurhitun. Önnur prótein, svo sem fibrinogen, geta líka haft þennan eiginleika. Cryoglobulina er leitað hjá sjúklingum með margvísleg einkenni svo sem þrálát húðútbrot, æðabólgu (vasculitis), blóðflæðitruflanir, ýmsa gigtsjúkdóma, æxlissjúkdóma og óeðlilegar sýkingar.
Sjúkdómum af völdum cryoglobulina er skipt niður í þrjár tegundir (I, II og III) eftir magni, flokki og samsetningu þeirra immunoglobulina sem hlut eiga að máli. Þá skiptir máli hvort þau eru einstofna eða margstofna þegar meta á horfur og meðferð.
Tegund I (um 25%). Cryoglobulin af tegund I eru monoklonal immunoglobulin og tengjast aðallega lymphoproliferativum sjúkdómum (myeloma, Waldemström’s macroglobulinemiu og CLL). Eitt algengasta kliniska einkennið hjá sjúklingum með tegund I er hyperviscositet (Raynaud’s einkenni, blóðsegamyndun, blæðingar og sáramyndun).
Tegund II (um 25%) eða mixed monoclonal cryoglobulin. Tengist sjúkdómum eins og myeloma, Waldenström’s macroglobulinemia, CLL, RA, Sjögren’s syndrome og mixed essential cryoglobulinemia.
Tegund III (um 50%) eða mixed polyclonal cryoglobulin. Oftast essential en tengist sjúkdómum eins og SLE, RA, Sjögren’s syndrome, infectious mononucleosis, cytomegalovirus, acut viral hepatitis og chronic active hepatitis (CAH), primary biliary cirrhosis (PBC), poststreptococcal glomerulonephritis, infective endocarditis.
Eitt helsta sjúkdómseinkenni cryoglobulina af tegund II og III er vasculitis (purpura, arthralgia, peripheral neuropathy og glomerulonephritis).
Cryoglobulin geta orsakað skekkju í mörgum mælingum með því að falla út við lækkað hitastig. Þetta er sérlega bagalegt við mælingu á komplimentþáttum og immunoglobulinum.
Sýni: 10 ml serumglas. Blóð dregið í hitað glas og glasinu haldið heitu sem næst 37°C þar til það kemst á rannsóknarstofuna. 
Sjá nánar kaflann  “Sýni – Sýnatökur”. 
Aðferð: Sýnið geymt í 37°C hita meðan það storknar. Blóðið er síðan skilið við 37°C og serminu skipt í tvö glös. Annað er kælt niður í 4°C og hitt geymt við 37°C. Útfall myndast venjulega í 4°C glasinu á fyrstu 24–72 klst. ef um cryoglobulin er að ræða. Magn immunoglobulina í floti 4°C og 37°C glasanna er síðan mælt og tegund þeirra ákvörðuð.
 

Cyclosporin (CyA)

Cyclosporin A (Sandimmun®, Sandimmun Neoral®) veldur ósértækri ónæmisbælingu með því að hemja IL-2 framleiðslu, sem aftur dregur úr ræsingu á T–eitilfrumum.
Komið hefur í ljós að oft er lítið samband milli skammtastærða og blóðþéttni cyclosporins. Aftur á móti er greinilegt samband á milli blóðþéttni lyfsins og aukaverkana á starfsemi nýrna. Einnig er samband milli blóðþéttni lyfsins og ónæmisbælandi virkni.
Próf þetta byggir á notkun sértæks einstofna mótefnis sem bindur eingöngu Cyclosporinsameindina sjálfa. Erythromycin og ketókónazol (Fungoral) eru talin geta aukið blóðþéttni Cyclosporins en fenytoin, rifampicin og karbamazepin eru talin geta lækkað hana.
Sýni: Allar mælingar á cyclosporini eru gerðar á heilblóði teknu í EDTA, minnsta glas nægir (2 ml).
Aðferð: Fluorescence polarization immunoassay (FPIA) frá Abbott. 
Viðmiðunargildi: Hæfileg þéttni í EDTA heilblóði eftir líffæraflutning er talin vera á bilinu 100–450 ng/ml. Æskileg þéttni er háð aðstæðum og er breytileg eftir því hvers konar líffæraflutningur var framkvæmdur og hve langt er um liðið frá aðgerð.

 

Mat á sjúklingum með tíðar eða afbrigðilegar sýkingar

Mótefni (immunoglobulin, Ig) eru til af 5 meginflokkum, IgM, IgA, IgG, IgD og IgE. Hver mótefnasameind er samsett ú 4 polypeptíðkeðjum, 2 þungum og 2 léttum keðjum. Það eru til tveir undirflokkar af IgA (IgA1 og IgA2) og 4 undirflokkar af IgG (IgG1–IgG4). Það er gerð þungu keðjanna sem ræður mótefnaflokknum og virkni sameindanna, t.d. hvort mótefnin ræsa komplimentkerfið og hvort þau fara yfir fylgju frá móður til fósturs.
Mælingar á magni mótefna í blóði hafa einkum þýðingu hjá sjúklingum sem verið er að rannsaka vegna ónæmisgalla og tíðra sýkinga, en einnig hjá sjúklingum með ofnæmi. Mælingar á heildarmagni IgG (og IgG undirflokkum), IgM og IgA geta verið gagnlegar við mat á einstaklingum með tíðar sýkingar. IgE mótefni eru hins vegar mæld hjá einstaklingum sem grunaðir eru um ofnæmissjúkdóma. Almennt má segja að mælingar á IgD hafi lítið gildi nema hjá sjúklingum sem grunaðir eru um “hyper–IgD syndrome” eða sjúklingum með IgD framleiðandi myeloma.
Við mat á sjúklingum með tíðar sýkingar getur einnig verið gagnlegt að kanna magn sértækra mótefna, t.d. gegn pneumókokkum eða tetanus toxoid.

 

Immunoglobulin M  (IgM)

IgM er myndað úr 5 grunneiningum (pentamer, t1/2 = 5 dagar) og vegna stærðar sinnar finnst það nær eingöngu intravasculert. Um 10% af heildarmótefnum í sermi er af IgM flokki. Við áreiti mótefnavaka mynda B–eitilfrumur venjulega fyrst mótefni af IgM gerð en þegar frá líður fara þeir að mynda mótefni af IgG og IgA gerð (class switching). IgM er virkara en IgG við ræsingu komplimentkerfisins (eftir klassíska ferlinum). Stafar þetta meðal annars af því að C1q getur bundist nokkrum Fc hlutum á sömu IgM pentamer sameind og þannig ræst komplimentkerfið fyrir tilstuðlan einnar sameindar. Í sumum sjúkdómum svo sem SLE og RA er IgM til staðar í eingildu (monomeric) formi í fremur háum styrk. IgM í eingildu formi hefur mun lægri bindistyrk (avidity) gagnvart mótefnavaka en fimmgilda formið og er því ekki eins virkt við ræsingu komplimentkerfisins. Við sérhæfðan IgM skort (selective IgM deficiency) eru aðrir flokkar mótefna yfirleitt innan eðlilegra marka. Einstaklingar með slíkan skort eru gjarnir á að fá sjálfsofnæmissjúkdóma og slæmar sýkingar af völdum fjölsykruhjúpaðra (encapsulated) baktería svo sem pneumókokka og Hemophilus influenzae. Einnig eru þessir einstaklingar gjarnir á að fá niðurgang og þrálátar öndunarfærasýkingar. Hækkað IgM samfara hækkuðu IgA og IgG kemur við margar sýkingar (bakteríu, veiru og sníkla) en ef IgM er hækkað samfara lágu eða engu IgA og IgG getur það þýtt vandamál í immunoglobulín flokkaskiptingu (class switching).
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Rate nephelometria á Beckman nephelometer.
Viðmiðunargildi: Aldursstöðluð viðmiðunargildi. Eðlileg gildi fyrir fullorðna eru 0,31–3,85 g/l.
 

Immunoglobulin A  (IgA)

IgA er um 15% af mótefnum í sermi (85% monomer og 15% dimer ). Til eru tveir undirflokkar af IgA (IgA1 og IgA2). IgA mótefni taka þátt í ytri vörnum slímhúða og er ráðandi mótefni í líkamsvessum (munnvatni, tárum, svita, nefslími, þarmavökva og móðurmjólk). Secretory IgA (sIgA er dimer) hefur talsvert þol gegn virkni proteolytiskra ensíma. Verkunarmáti sIgA felst aðallega í því að hindra bakteríur í að bindast við slímhúðarfrumur sem og að hlutleysa (neutralisera) veirur. IgA hefur ekki hæfileika til að virkja klassíska hluta komplimentkerfisins en getur aftur á móti virkjað MBL og styttri ferilinn og átt þannig þátt í að halda ýmsum sýklum í skefjum. Sértækur IgA skortur (selective IgA deficiency) greinist þegar IgA magn í sermi er lægra en 0,05 g/l, en magn annarra immunoglobulina er innan eðlilegra marka eða hækkað. Algengi sérhæfðs IgA skorts er um það bil 1:700 (nokkru algengara er að atopiskir einstaklingar hafi IgA skort eða um 1:300). Flestir einstaklingar með sérhæfðan IgA skort eru einkennalitlir eða einkennalausir, en hluti þeirra (sérlega ef IgG2 og IgG4 skortur er samfara) hafa aukna tíðni sýkinga í efri loftvegum og miðeyrum. Einnig hafa 30–40% einstaklinga með sérhæfðan IgA skort mótefni gegn IgA (anti-IgA). Ef þessum einstaklingum er gefið blóð, sermi eða gammaglobulin geta þeir átt það á hættu að fá kröftuga ofnæmissvörun gegn IgA. Marktæk fylgni (1:100–1:200 ) hefur fundist milli sérhæfðs IgA skorts og eftirfarandi sjúkdóma: RA, SLE og coeliac disease. Einnig hefur verið bent á fylgni milli sérhæfðs IgA skorts og flöguþekjukrabbameins í lungum og vélinda. Um 40% sjúklinga með ataxia telangiectasia hafa sérhæfðan IgA skort. Hækkun á IgA ásamt IgG og IgM kemur við flestar sýkingar (bakteríu, veiru og sníkla).
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Rate nephelometria á Beckman nephelometer
Viðmiðunargildi: Aldursstöðluð viðmiðunargildi. IgA þéttni fer hækkandi fram til 12 ára aldurs.  Eðlileg gildi fyrir fullorðna eru 0,78–4,96 g/l.

 

Immunoglobulin G (IgG)

Um 75% mótefna í sermi eru af IgG flokki. IgG mótefni dreifast jafnt um innan æða og utanfrumuvökva. Helmingunartími IgG er nálægt þremur vikum (nokkru styttri fyrir IgG3). Við fyrsta áreiti antigens (primary response) myndast fremur lítið magn af IgG. Aftur á móti er IgG meginuppistaðan í þeim mótefnum sem mynduð eru við seinni áreiti (secondary response) antigens. Hlutverk IgG er meðal annars opsonering, neutralisering á toxinum og veirum, hemja viðloðun sýkla við frumuyfirborð og taka þátt í frumubundnu drápi gegn veirusýktum frumum. Einnig getur IgG bundist yfirborðsviðtækjum á T– og B eitilfrumum og þannig haft áhrif á stjórnun mótefnamyndunar. IgG getur ræst klassíska feril komplimentkerfisins og hefur einnig sérstakan hæfileika til að bindast við prótein A á Staphylococcus aureus og prótein G á streptokokkum (grúppu G) og þannig auðveldað líkamanum að ráða niðurlögum þessara sýkla. Aukning á IgG samfara aukningu á IgA og IgM kemur við flestar sýkingar (bakteríu, veiru, sníkla). IgG er einnig algengasta myeloma próteinið. IgG er eina mótefnið sem fer yfir fylgju frá móður til barns. Nær öll ungabörn fara í gegnum tímabundna hypogammaglobulinemiu við 5–6 mánaða aldur, en sum börn hafa lágt IgG fram yfir 2ja ára aldur.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Rate nephelometria á Beckman nephelometer
Viðmiðunargildi: Aldursstöðluð viðmiðunargildi. Eðlileg gildi fyrir fullorðna eru 7,0–17,0 g/l.
 

Immunoglobulin G  –  IgG undirflokkar (IgG1–IgG4) 

IgG greinist í 4 undirflokka eftir breytileika í þungu keðjunum og dísúlfíðbindingum milli keðjanna. Magn undirflokka er mismikið í sermi: IgG1 (60–70%), IgG2 (14–20%), IgG3 (4–8%) og IgG4 (2–6%).
Hæfileiki IgG undirflokka til að ræsa komplimentkerfið er mismunandi (IgG3 > IgG1 > IgG2 > IgG4 ). IgG4 undirflokkur getur til að mynda ekki ræst klassíska feril komplimentkerfisins eins og hinir undirflokkarnir en er aftur á móti talinn geta ræst styttri ferilinn (alternative pathway). IgG2 mótefni myndast gegn fjölsykrungum og eru talin mikilvæg fyrir varnir gegn fjölsykruhjúpuðum (encapsulated) bakteríum svo sem Streptococcus pneumoniae, Hemophilus influenzae og Neizzeria meningitidis. Hlutverk IgG4 er einnig talið tengjast ofnæmi, þar sem það hefur hæfileika til að bindast mastfrumum í húð líkt og IgE mótefni.
Einstaklingur með sértækan skort á einhverjum undirflokki IgG getur haft heildarmagn IgG innan eðlilegra marka og er magn IgA og IgM þá venjulega eðlilegt eða hækkað. Slíkir einstaklingar geta átt við að stríða þrálátar bakteríusýkingar í öndunarfærum (pneumókokkus, Hemophilus influenzae, Staphylococcus aureus).
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Radial immunodiffusion (RID).
Viðmiðunargildi: Aldursstöðluð viðmiðunargildi, t.d. er getan til að mynda IgG2 að þroskast fram til 10 ára aldurs.  Eðlileg gildi fullorðinna eru  IgG1 3,48–12,14 g/l,  IgG2 1,18–6,62 g/l,  IgG3 0,13–1,58g/l,  IgG4 0,03–2,54 g/l.
Mælist magn IgG4 <0,03 g/l þarf það ekki endilega að merkja að sjúklingurinn hafi IgG4 skort, heldur getur það þýtt að magn IgG4 sé einungis undir þeim mörkum sem prófið hefur getu til að mæla.
  

Immunoglobulin E (IgE)

IgE finnst venjulega í litlum styrk í sermi (< 0,001% af heildarmagni immunoglobulina) en eykst þó við typu I ofnæmi (atopiska sjúkdóma, þ.e. frjókornaofnæmi, asthma, atopic exem og urticaria) og sýkingar af völdum sníkla (parasíta). IgE getur einnig hækkað við IgE myeloma, acute graft versus host reaction, mononucleosis, sarcoidosis, coccidioidomycosis, HIV sýkingar, pulmonary hemosiderosis og RA. Sjúklingar með hyper–IgE syndrome fá gjarnan exem og síendurteknar bakteríusýkingar í formi abcessa (í húð, lungu, eyru, ennisholur og augu). Eosinophilia er áberandi hjá þessum sjúklingum og IgE magn í sermi fer oft yfir 5000 kU/l.  IgE fer ekki yfir fylgju og ræsir ekki komplimentkerfið. Tími sýnatöku, miðað við einkenni, skiptir miklu máli fyrir túlkun á niðurstöðu (T1/2 = 2 dagar).
Sýni: 1 ml sermi.
Aðferð: Flúrskinsmæling (FEIA) gerð á UNICap 100 tæki frá Pharmacia.
Viðmiðunargildi: Aldursstöðluð viðmiðunargildi.  Eðlileg gildi fyrir fullorðna eru <148 kU/l.

 

Pneumókokka mótefni

Mælir eiginleika einstaklinga til að mynda mótefni gegn fjölsykrum (pneumókokkus, hjúpgerðir 4, 6B, 7F og 19F). Prófið er einkum notað til að meta hæfni vessabundna ónæmiskerfisins hjá einstaklingum með þrálátar sýkingar.
Mæld eru sértæk mótefni gegn fjórum hjúpgerðum. Hjúpgerð 4 sem er góður ónæmisvaki en finnst mjög sjaldan hér á landi, hjúpgerð 6B sem er algeng í sýkingum er lélegur ónæmisvaki. Hjúpgerð 7F er algengasta hjúpgerðin í sýkingum hjá fullorðnum hér á landi og hjúpgerð 19F finnst hjá öllum aldurshópum. Hjúpgerðir 7F og 19F eru miðlungs góðir ónæmisvakar. Til að fá sem besta mynd af getu sjúklings til að mynda mótefni gegn fjölsykrum er nauðsynlegt að mæla mótefni fyrir og 4 vikum eftir bólusetningu með fjölsykrubóluefni.
Sýni: 1 ml sermi.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay). Í prófinu eru notuð antigen sem eru sértæk fyrir viðkomandi hjúpgerðir pneumókokka.
Viðmiðunargildi: Ekki eru gefin viðmiðurnargildi fyrir magn mótefnanna fyrir bólusetningu en eftirfarandi er til hliðsjónar við túlkun mótefnasvars við bólusetningu með fjölsykrubóluefni. Taflan sýnir mögulegar niðurstöður og túlkun fyrir mælingar á hjúpgerðum 4 og 6B. Svar við hjúpgerðum 7F og 19F túlkast svipað og fyrir hjúpgerð 4 en þó eru meiri líkur á fyrri útsetningu fyrir þeim hér á landi.

 

Hjúpgerð 4

Hjúpgerð 6B

 

IgG

IgG

Fyrir

Eftir

Fyrir

Eftir

Túlkun

Lítið magn

Lítið magn

Lítið magn

Lítið magn

Myndar ekki fjölsykrumótefni. Engin vörn gegn bakteríum sem hafa fjölsykruhjúp

Lítið magn

Hækkar x > 2 (> 1 µg/mL)

Lítið magn

Lítið magn

Seinn þroski ónæmiskerfis, veikluð vörn. Endurmeta eftir ca. 1 - 2 ár

Lítið magn

Hækkar x > 2 (> 1 µg/mL)

Lítið magn

Hækkar x > 2 (> 1 µg/mL)

        Eðlilegt ónæmissvar          gegn fjölsykrum.

Hækkað (>1 µg/ml)

Hærra / óbreytt

Hækkað (>1 µg/ml)

Hærra / óbreytt

Fyrri útsetning, eðlilegt ónæmissvar gegn fjölsykrum

 

Tetanus toxoid mótefni

Mælir eiginleika einstaklinga til að mynda mótefni gegn próteinum (tetanus toxoid). Prófið er einkum notað til að meta hæfni vessabundna ónæmiskerfisins hjá einstaklingum með þrálátar sýkingar. Ef gildi er lágt er nauðsynlegt að bólusetja með tetanus toxoid bóluefni og endurtaka mælingu eftir 4 vikur.
Sýni: 1 ml sermi.
Aðferð: ELISA (Enzyme Linked Immunosorbent Assay).
Viðmiðunargildi: Svörun metin eftir aldri og ónæmisaðgerðum. Nauðsynlegt lágmarksmagn til að veita vörn er 0,01 IU/ml en langtíma vörn fæst með 0,1 IU/ml.

 

Mat á sjúklingum með ofnæmi

Við mat á sjúklingum með ofnæmissjúkdóma getur verið gagnlegt að mæla ofnæmismótefni (IgE) í blóði.  Mælt er heildarmagn IgE í blóði, en einnig IgE magn gegn einstökum ofnæmisvökum (ofnæmisvöldum), oft nefnt sértækt IgE.
Styrkur IgE í sermi er yfirleitt lágur borið saman við magn annarra mótefnaflokka (< 0,001% af heildarmagni immunoglobulina er IgE) en styrkurinn eykst þó við typu I ofnæmi (atopiska sjúkdóma, þ.e. frjókornaofnæmi, asthma, atopic exem og urticaria) og sýkingar af völdum sníkla (parasíta).
Hægt er að mæla sérstaklega það IgE sem beinist gegn ákveðnum ofnæmisvöldum (oft nefnt CAP/FEIA eða RAST). Ýmist er þá mælt IgE magn gegn einum ákveðnum ofnæmisvaldi, t.d. þorski, birki eða ölgeri, eða gegn hópi ofnæmisvalda (panelar), t.d. nokkrum fæðutegundum, nokkrum dýrategundum eða myglusveppum.

 

Heildarmagn IgE

IgE finnst venjulega í litlum styrk í sermi (< 0,001% af heildarmagni immunoglobulina) en eykst þó við typu I ofnæmi (atopiska sjúkdóma, þ.e. frjókornaofnæmi, asthma, atopic exem og urticaria) og sýkingar af völdum sníkla (parasíta). IgE getur einnig hækkað við IgE myeloma, acute graft versus host reaction, mononucleosis, sarcoidosis, coccidioidomycosis, HIV sýkingar, pulmonary hemosiderosis og RA. Sjúklingar með hyper–IgE syndrome fá gjarnan exem og síendurteknar bakteríusýkingar í formi abcessa (í húð, lungu, eyru, ennisholur og augu). Eosinophilia er áberandi hjá þessum sjúklingum og IgE magn í sermi fer oft yfir 5000 kU/l.  IgE fer ekki yfir fylgju og ræsir ekki komplimentkerfið. Tími sýnatöku, miðað við einkenni, skiptir miklu máli fyrir túlkun á niðurstöðu (T1/2 = 2 dagar).
Sýni: 1 ml sermi.
Aðferð: Flúrskinsmæling (FEIA) gerð á UNICap 100 tæki frá Pharmacia.
Viðmiðunargildi: Aldursstöðluð viðmiðunargildi.  Eðlileg gildi fyrir fullorðna eru <148 kU/l.

 

Sértæk IgE mótefni (CAP/RAST – FEIA)

CAP er aðferð sem notuð er til að mæla sértæk IgE mótefni í einstaklingum með bráðaofnæmi (typa I), ofnæmisasthma og ofnæmis/barnaexem (atopic dermatitis). CAP prófið er gagnlegt ef staðfesta þarf niðurstöðu húðprófs en einkum fyrir þá sjúklinga sem af einhverjum ástæðum þola ekki húðpróf, eru með dermatographismus, útbreidd húðútbrot eða hafa neikvætt húðpróf þrátt fyrir dæmigerða sögu. Ýmis lyf geta brenglað niðurstöður húðprófa en hafa ekki áhrif á CAP próf.  Til dæmis H1 og H2 antagonistar (antihistamin), þríhringa geðdeyfðarlyf, theophylline, beta-2-agonistar, ósérhæfðir beta-blokkerar og dopamin.
Í sparnaðarskyni er boðið upp á próf gegn ákveðnum blöndum (panelar). Ef sýni gefur jákvætt svar gegn einhverri blöndu (panel) getur verið gagnlegt eða nauðsynlegt  að mæla sérstaklega gegn hvaða þætti/þáttum blöndunnar svarið beinist.
Boðið er upp á eftirfarandi blöndur (panela) :  Phadiatop®, Phadiatop® Infant, grasflokkur gx1, dýraflokkur ex1, mygluflokkur mx1, ryk/rykmaurar hx2, fiskflokkur fx2, kornflokkur fx3 og barnamatur fx5. Að auki er hægt að panta mælingar á fjölda einstakra ofnæmisvaka, jafnvel ofnæmisvaka sem ekki er getið um á beiðnablaðinu.
Sýni: 1 ml sermi.
Aðferð: CAP-FEIA. Hugsanlegur ofnæmisvaldur er látinn komast í snertingu við það sermi sem prófa á. Ef IgE með sértækni fyrir ofnæmisvaldinum er til staðar í sermi viðkomandi á sér stað binding. Því næst er ensímmerkt anti-IgE látið hvarfast við IgE mótefnin og hvarfefni bætt í. Flúrljómun er síðan mæld með ljósgleypnimæli og er hún er í réttu hlutfalli við magn viðkomandi vækis. Prófið getur reynst falskt neikvætt ef IgG binst mótefnavaka í stað IgE.
Viðmiðunargildi: Svör gefin út á skalanum 0 til 6. 
(0= engin svörun ;  1= væg svörun ;  upp í  6= mjög sterk svörun)

Svörun IgE mótefnastyrkur   
0 <0,35 kUA/l
1 0,35–0,7 kUA/l
2 0,7–3,5 kUA/l
3 3,5–17,5 kUA/l
4 17,5–50 kUA/l
5 50–100 kUA/l
6 >100  kUA/l

 

PHADIATOP®

Þetta próf greinir IgE mótefni gegn nokkrum algengum ofnæmisvökum í lofti.
Prófið nniheldur blöndu af eftirfarandi 11 ofnæmisvökum :  
Vallarfoxgras (timothy) (g6)  Hundur (e5) Ólífutré (t9)
Birki (t3)  Dermatophag pteron (d1)   Mugworth (w6)
Köttur (e1)  Dermatophag farinae (d2)  Wall pellitory (w19)
Hestur (e3) Cladospor. herbarum (m2) 
      

 

PHADIATOP® INFANT

Þetta próf er sérstaklega ætlað til að skima eftir ofnæmi hjá ungum börnum (0–4 ára).
Prófið greinir IgE mótefni gegn nokkrum algengum ofnæmisvökum í lofti og fæðu.
Prófið inniheldur blöndu af 11 ofnæmisvökum í lofti og fæðu:  
Vallarfoxgras (timothy) (g6)  Dermatophag pteron (d1)   Mjólk (f2)
Birki (t3)  Ragweed (w21)   Jarðhnetur (f13)
Köttur (e1)  Wall pellitory (w19) Rækjur (f24)
Hundur (e5) Egg (f1) 
  
Prófið inniheldur auk ofnæmisvaka í lofti nokkra fæðuofnæmisvaka, enda er fæðuofnæmi stærri þáttur í ofnæmi barna en fullorðinna. Fæðuofnæmi á fyrstu æviárunum er áhættuþáttur fyrir ofnæmi gegn loftbornum ofnæmisvökum síðar á ævinni. Phadiatop Infant prófið er þróað erlendis og tekur ekki mið af mikilli fiskneyslu á Íslandi. Þess vegna getur til viðbótar við Phadiatop Infant verið ástæða til að biðja um ofnæmispróf gegn fiski (f3 þorskur) hjá börnum sem grunuð eru um fæðuofnæmi.

 

GRASFLOKKUR  gx1  

Þetta próf greinir IgE mótefni gegn nokkrum grastegundum.
Prófið inniheldur blöndu af eftirtöldum ofnæmisvökum:
Axhnoðapuntur (Dactylis glomerata) (g3) Vallarfoxgras (Phleum pratense) (g6)
Engjavingull (Festuca elatior) (g4) Vallarsveifgras (Poa pratensis)  (g8)
Rúggresi (Lolium perenne) (g5)  
     

DÝRAFLOKKUR  ex1

Þetta próf greinir IgE mótefni gegn nokkrum dýrategundum.
Prófið inniheldur blöndu af eftirfarandi ofnæmisvökum:
Köttur (e1)   Kýr (e4) 
Hestur (e3)  Hundur (e5)

   

MYGLUFLOKKUR  mx1

Þetta próf greinir IgE mótefni gegn nokkrum tegundum af myglusveppum.
Prófið inniheldur blöndu af eftirtöldum ofnæmisvökum:
Penicillum notatum (m1)   Aspergillus fumigatus (m3) 
Cladosporium herbarum (m2) Alternaria alternata (m6)

 

RYK/RYKMAURAR  hx2

Þetta próf greinir IgE mótefni gegn nokkrum rykmaurategundum.
Prófið inniheldur blöndu af eftirtöldum ofnæmisvökum:
Húsaryk (h2)     Dermatophagoides farinae (d2) 
Dermatophagoides pteronyssinus (d1)  Kakalakki (i6)

 

FISKFLOKKUR  fx2

Þetta próf greinir IgE mótefni gegn nokkrum fisktegundum.
Prófið inniheldur blöndu af eftirtöldum ofnæmisvökum:
Þorskur (f3)  Túnfiskur (f40)
Rækjur (f24) Lax (f41)
Kræklingur (f37)   
   

KORNFLOKKUR  fx3

Þetta próf greinir IgE mótefni gegn nokkrum korntegundum. 
Prófið inniheldur blöndu af eftirtöldum ofnæmisvökum:
Hveiti (f4) Sesamfræ (f10)
Hafrar (f7) Bókhveiti (f11)
Mais (f8) 
 

BARNAMATUR  fx5

Þetta próf greinir IgE mótefni gegn nokkrum fæðutegundum sem finnast m.a. í barnamat.
Prófið inniheldur blöndu af eftirtöldum ofnæmisvökum:
Egg (f1)   Hveiti (f4)
Mjólk (f2)  Jarðhnetur (f13)
Þorskur (f3) Sojabaunir (f14)
   

Mótefni gegn einstökum ofnæmisvökum

Auk fyrrgreindra prófa sem innihalda marga ofnæmisvaka (panelar) er boðið upp á mælingar á IgE mótefnum gegn fjölda einstakra ofnæmisvaka (ekki panelar).
Má þar geta:

Heymaurar:
Acarus siro (d70)
Lepidoglyph destructor (d71)
Thyrophagus putreus (d72)
Glycophagus domesticus (d73)

Sýklayf:
Penicillin G (c1)
Penicillin V (c2)
Ampicillin (c5)

Möguleiki er á að senda sermi til Danmerkur til mælinga á IgE gegn Penicillin Minor Determinants, Amoxicillini, Ampicillini, Cefalosporin lyfjum, Streptomycin, Trimetoprim, Vancomycin, Sulfa og Trimetoprim auk fleiri lyfja.
Um 11% af penicillínofnæmi orsakast af niðurbrotsefnum penicillins (Minor Determinants) en ofnæmisviðbrögð af þeirra völdum eru oft alvarlegri en af Major Determinants (Penicilloyl G og V). Neikvæðri mælingu ætti því að fylgja eftir með mælingu á Minor Determinants. Séu liðnir meira en 6 mánuðir frá ofnæmisviðbragði getur blóðpróf ekki útilokað ofnæmi og verða húðpróf þá að koma í staðinn. 

Matvæli:
Rúgur (f5)
Grænar baunir (f12)
Heslihnetur(f17)
Tómatur (f25)
Nautakjöt (f27)
Gulrætur (f31)
Appelsínur (f33)
Kartöflur (f35)
Ölger (f45)
Epli (f49)
Humar (f80)
Ostur (f81)
Mygluostur (f82)
Hænsnakjöt (f83)
Kiwi (f84)
Kindakjöt (f88)
Banani (f92)

Ýmislegt annað:
Birki (t3) 
Latex (k82)
Páfagaukur skítur (e77)
Páfagaukur fiður (e78)
Kind epithel/ull (e81)
Hamstur epithel (e84)
Mús epithel/þvag/sermi (e88)

Sýni: 1 ml sermi.
Aðferð: CAP-FEIA. Hugsanlegur ofnæmisvaldur er látinn komast í snertingu við það sermi sem prófa á. Ef IgE með sértækni fyrir ofnæmisvaldinum er til staðar í sermi viðkomandi á sér stað binding. Því næst er ensímmerkt anti-IgE látið hvarfast við IgE mótefnin og hvarfefni bætt í. Flúrljómun er síðan mæld með ljósgleypnimæli og er hún er í réttu hlutfalli við magn viðkomandi vækis. Prófið getur reynst falskt neikvætt ef IgG binst mótefnavaka í stað IgE.
Viðmiðunargildi: Svör gefin út á skalanum 0 til 6. 
(0= engin svörun ;  1= væg svörun ;  upp í  6= mjög sterk svörun)

Svörun IgE mótefnastyrkur   
0 <0,35 kUA/l
1 0,35–0,7 kUA/l
2 0,7–3,5 kUA/l
3 3,5–17,5 kUA/l
4 17,5–50 kUA/l
5 50–100 kUA/l
6 >100  kUA/l

 

Tryptasi

Mæling á tryptasa í blóði getur verið gagnleg við greiningu ofnæmislosts (anaphylaxis). Við bráðaofnæmissvar ræsast mastfrumur og basophilar þegar IgE á yfirborði þessara fruma krosstengjast. Við það losna ýmis efni úr frumunum, og er tryptasi eitt þeirra.
Sé um mikla ræsingu að ræða, einkum með ofsakláða, ofsabjúg og blóðþrýstingsfalli, losnar mikið af þessum efnum og getur þá verið gagnlegt að mæla tryptasa í blóði.
Magn tryptasa byrjar að hækka um 15 mínútum eftir að kast hefst og nær hámarki eftir 1-2 klukkustundir. Tryptasi helst hækkaður í 4-6 stundir. Mælt er með því að sýni sé tekið innan tveggja tíma frá því að kast hefst ef þess er nokkur kostur.
Mælt er með að hækkuðum tryptasagildum sé fylgt efir með annarri mælingu þegar ofnæmisviðbragðið er örugglega gengið yfir, til dæmis eftir 1–2 sólarhringa. Þessi seinni mæling getur verið mikilvæg til að greina jákvætt próf frá krónískt háum tryptasagildum sem ekki tengjast bráðaofnæmi.
Sýni: 0,5 ml sermi (einnig má nota EDTA plasma).
Aðferð: Flúrskinsmæling (FEIA) sem gerð er á UNICap 100 tæki frá Pharmacia.
Viðmiðunargildi: Eðlileg gildi fyrir tryptasa í blóði eru <12 µg/l. 
 

Fellipróf

Fellipróf eru notuð til greiningar á fléttuofnæmi í lungum af völdum IgG mótefna. Sem dæmi má nefna sjúkdóm eins og farmer’s lung, þar sem actinomycetes (Micropolyspora faeni) í heyi veldur granulomatous interstitial lungnasjúkdómi (extrinsic allergic alveolitis). Hjá næmum einstaklingi koma einkenni (hiti, hósti, mæði, slappleiki) gjarnan fram 4–8 tímum eftir að viðkomandi var útsettur fyrir mygluðu heyi.  Einkenni hverfa venjulega á einum sólahring. Oft ber á hypergammaglobulinemiu. Sem stendur er prófað fyrir sex flokkum mótefnavaka:
1/ Micropolyspora faeni,  2/ Candida albicans og Candida parapsilosis,  3/ Aspergillus fumigatus,  4/ páfagaukum,  5/ dúfum og  6/ hænsnum.
Sýni: 0,5 ml sermi.
Aðferð: Andstreymisrafdráttur (Countercurrent immunoelectrophoresis).
Niðurstöður: Eðlilegt próf er neikvætt.

 

Frumurannsóknir

Til viðbótar við mælingar á sameindum í blóði (mótefni, kompliment og fleira) sem nýst geta til greiningar á sjúklingum með tíðar eða afbrigðilegar sýkingar eru á ónæmisfræðideildinni framkvæmdar ýmsar mælingar á frumuhópum, fjölda þeirra, þroska, virkni og starfsgetu.
Má þar nefna deilitalningar á eitilfrumum í blóði og öðrum líkamsvessum, átfrumupróf, drápspróf og örvunarpróf auk hvítkornaskanna. Sjá nánari lýsingu á einsökum rannsóknum.

 

Hvítfrumuskann  –  Geislamerking hvítfruma

Með geislamerkingu hvítfruma er hægt að nýta sér þá eiginleika hvítfruma að þær leita á sýkinga- og bólgusvæði. Merking er gerð í samráði við Ísotopastofu LSH. Sjúklingnum er tekið blóð að morgni og unnið samdægurs. Merkingin sjálf tekur u.þ.b. 2 klst og þá eru hvítfrumurnar gefnar aftur. Seinnipart dags er dreifing geislavirka efnisins mæld með myndatökum.
Sýni: 45–90 ml af blóði (fer eftir aðstæðum hverju sinni). Blóðið er tekið af starfsmanni ónæmisfræðideildar eða samkvæmt nánari fyrirmælum.
Aðferð: Blóð er tekið að morgni af starfsmanni ónæmisfræðideildar og unnið þar. Stærð sýnis ræðst af fjölda hvítra blóðkorna, aldri einstaklings, stærð o.fl. (45–90 ml af blóði). Hvítar blóðfrumur eru einangraðar með því að nota sökk eða framkalla það ef þörf er á. Síðan eru frumurnar merktar með 20 mCi (740 MBq) 99mTechnetium. Um það bil 1–2 klst. eftir blóðtökuna fær sjúklingur aftur hvítfrumurnar og eftir aðrar 2 klst eru hann myndaður. Fyrir gjöf er geislavirkni sprautunnar mæld og venjulega fær sjúklingur á bilinu 7-12mCi.
Ábendingar – Notkun:  Hvítfrumuskann er einkum gagnlegt til að staðsetja eða leita að þrálátri sýkingu eða bólgu, sem ekki hefur tekist að staðsetja með öðrum aðferðum.

 

Deilitalning T-fruma (einkum fyrir HIV sjúklinga)

Þessi rannsókn veitir upplýsingar um fjölda eitilfruma í blóði svo sem B-fruma, T-fruma, CD4+ og CD8+ T fruma. Deilitalningin er notað þegar grunur vaknar um ónæmisbilun. Heildarfjöldi CD4 jákvæðra T fruma segir til um horfur HIV smitaðra og er víða notað til að ákveða hvenær hefja á meðferð með AZT (CD4+ < 500 frumur/l).
Sýni: 2 ml EDTA blóð.
Aðferð: Heilblóð er litað með flúrskinsmerktum einstofna mótefnum sem beinast gegn mismunandi yfirborðssameindum eitilfruma. Mæling á flúrskini er gerð í flæðifrumusjá (FACS). Notuð eru mótefni gegn CD45 (allar hvítfrumur ; leucocyte common antigen), CD 19 (allar B-frumur), CD3 (allar T-frumur), CD4 (T-hjálparfrumur) og CD8 (T-bælifrumur og T-drápsfrumur). Greining á ýmsum öðrum yfirborðssameindum er möguleg eftir því sem við á og í samráði við sérfræðinga deildarinnar.
Ábendingar – Notkun:  Einkum notað til að fylgjast með heildarfjölda CD4+ T eitilfruma, sérstaklega hjá HIV sýktum einstaklingum.
Niðurstöður: Starfsmaður/sérfræðingur á ónæmisfræðideild túlkar/ræðir niðurstöður mælinga.

 

Flokkun og þroskamat hvítfruma

Aðferðin er notuð til að greina uppruna, eðli og þroska hvítfruma sem eru litaðar með einstofna mótefnum gegn mismunandi yfirborðssameindum hvítfruma. Þessi aðferð er helst notuð til að finna frávik í hlutföllum frumuhópa í blóði og beinmerg. Sömu aðferð má einnig beita á ýmis önnur sýni svo sem mænuvökva, kviðarholsvökva, brjóstholsvökva eða eitla (önnur fersk vefjasýni). Svipuðum aðferðum er stundum beitt til að meta ónæmisbilun og jafnvel ónæmisumrót svo sem höfnun vefjagræðlinga. Þessi rannsókn er einungis gerð í samráði við sérfræðinga deildarinnar.
Sýni: Blóð 5ml (EDTA). Mergur 0,5 ml (EDTA eða heparin). Aðrir vökvar 10 ml (EDTA eða heparin).
Aðferð: Sýni er litað með flúrskinsmerktum einstofna mótefnum sem beinast gegn mismunandi sameindum hvítfruma. Deilitalning er gerð í flæðifrumusjá (FACS) og notuð u.þ.b. 20 mismunandi mótefni sem beinast að öllum helstu hópum hvítfruma.  Notuð eru mótefni gegn CD45 (allar hvítfrumur ; leucocyte common antigen), öllum B-frumur, T-hjálparfrumum, T-bælifrumur, T-drápsfrumur, NK-frumum, monocytum og neutrophilum. Greining á ýmsum öðrum yfirborðs- eða innanfrumu sameindum er möguleg eftir því sem við á og í samráði við sérfræðinga deildarinnar.
Ábendingar – Notkun:  Einkum notað þegar grunur vaknar um meðfædda ónæmisgalla, ónæmisbilun/bælingu, en einnig við mat á sjúklingum með illkynja blóðsjúkdóma.
Niðurstöður: Sérfræðingur á ónæmisfræðideild túlkar/ræðir niðurstöður.

 

Deilitalning fruma í ýmsum sýnum

Í einstaka tilvikum getur verið gagnlegt að greina uppruna, eðli og þroska fruma í öðrum líkamsvessum en blóði og má þar nefna mænuvökva, kviðarholsvökva, brjóstholsvökva og BAL (broncoalveolar lavage).
Sýni: Nauðsynlegt að setja dropa af heparini út í sýnatökuglasið fyrir sýnatöku. Þessar rannsóknir eru alltaf gerðar í samráði við ónæmisfræðideildina og skal því hafa samband við deildina áður en ráðist er í slíkar rannsóknir.
Aðferð: Notuð eru flúormerkt einstofna mótefni, eins og við aðrar deilitalningar, til að ákvarða mismunandi frumugerðir í sýninu. Eftir greiningu í FACS-tæki getur verið mögulegt að meta uppruna og virkni hverrar frumutegundar.
Niðurstöður: Sérfræðingur á ónæmisfræðideild túlkar/ræðir niðurstöður.

 

Átfrumupróf (Phagotest)

Prófið gert samdægurs eftir nánara samkomulagi við ónæmisfræðideild (athugið að líftími granuleraðra fruma er stuttur). Við prófið eru notaðar flúormerktar og hjúpaðar E. coli bakteríur. Við át á þeim gefa átfrumurnar frá sér flúorljóma, sem mældur er sem MFI (mean fluorerescence intensity) í flæðifrumusjá (FACS).
Sýni: 2 ml heparin blóð (takist að morgni dags).
Aðferð: Hjúpaðar  og flúormerktar E. coli sem eru étnar gefa frumunum flúorljómun og vegna mismikils DNA-innihalds E-coli og mannafruma er auðvelt að greina á milli þeirra með DNA-litun. Át fruma er borið saman við 0°C og 37°C hjá sjúklingi og heilbrigðu viðmiði. Niðurstöðurnar sýna hlutfall fruma sem átu E. coli og hversu mikið hver þeirra át.
Ábendingar – Notkun: Tíðar langvarandi sýkingar. Grunur um galla í neutrophilum eða í hjúpunarferlum/opsoneringu (immunoglobulinskortur, komplementskortur).

 

Drápspróf (Bursttest)

Prófið er gert samdægurs (granuleraðar frumur eru skammlífar) samkvæmt nánara samkomulagi við ónæmisfræðideild. Prófið er notað til að meta “oxidative burst” (þ.e. NADPH oxidasa hvata kerfið sem leiðir til framleiðslu á H2O2) og kemur það í stað NBT prófsins sem áður var gert. Notuð er breyting á dihydrorhodamine(DHR)123 í R123. R123 gefur flúorljómun sem er mælanleg í flæðifrumusjá (FACS).
Sýni: 2 ml heparin blóð (takist að morgni, sendist strax)
Aðferð: Tvílitna og granuleraðar frumur eru skoðaðar og flúorljómun R123 er mæld. Ef NADPH oxidasa hvata kerfi átfruma er í lagi  myndast mælanlegt R123 úr DHR 123, þegar því er bætt út í sýnið. Frumur sjúklings eru bornar saman við eðlilegt viðmið og þær ýmist ekki örvaðar eða örvaðra á þrjá vegu og útkoman mæld. Hlutfall fruma sem hafa R123 er metið ásamt hvatavirkni hverrar frumu.
Ábendingar – Notkun:  Grunur um chronic granulomatous disease (CGD). Tíðar sýkingar.

 

Ósérhæfð örvun fruma með PHA (phytohemagglutinin)

PHA er notað til að athuga hvort eitilfrumur svara örvun . Svarið þ.e. hvort frumurnar skipta sér, er notað sem mælikvarði á viðbragðið, eða hvort um galla gæti verið að ræða í boðskiptakerfi frumanna.
Sýni: 10 ml heparin blóð (5 ml úr litlum börnum).
Aðferð: Einkjarna hvítfrumur eru einangraðar úr blóði með þyngdarstigli. Saman við furmurnar er blandað PHA í mismunandi styrk og æti notað sem bakgrunnsviðmið. Heilbrigður einstaklingur er notaður sem viðmið fyrir eðlilega örvun. Frumurnar eru ræktaðar við 37°C í 5% CO2 og 95% raka í 72 tíma. Eftir 54 tíma er bætt út í ræktina 3H-Thymedine  sem fruman tekur upp í DNA sitt ef hún er að skipta sér. 18 tímum síðar er geislavirkni frumanna mæld í beta-teljara og frumufjölgun metin út frá upptökunni.
Ábendingar – Notkun: Grunur um galla í frumusvari.

Sérhæfð örvun T-fruma með anti-CD3 og anti-CD28

Anti-CD3 ásamt anti-CD28 bindast sérhæft við T-eitilfrumur og koma af stað örvun  T-fruma. Frumufjölgun eftir slíka örvun gefur til kinna hvort hæfileiki T-fruma til að svara er eðlilegur eða ekki.
Sýni: 10 ml heparin blóð (5 ml úr litlum börnum).
Aðferð: Einkjarna hvítfrumur eru einangraðar úr blóði með þyngdarstigli. Við frumurnar er blandað anti-CD3 og anti-CD28 í mismunandi styrk og æti notað sem bakgrunnsviðmið. Heilbrigður einstaklingur er notaður sem viðmið á eðlilega örvun. Frumurnar eru ræktaðar við 37°C í 5% CO2 og 95% raka í 72 tíma. Eftir 54 tíma er bætt út í ræktina 3H-Thymedine sem fruman tekur upp í DNA sitt ef hún er að skifta sér. 18 tímum síðar er geislavirkni frumanna mæld í beta-teljara og frumufjölgun metin út frá upptökunni.
Ábendingar – Notkun: Gagnlegt þegar grunur er um galla í T-frumum.