Útskrift undirbúin

Að öllu jöfnu er stefnt að því að sjúklingur sem leggst inn á Landspítala fari til baka heim eða á þá stofnun sem hann kom frá um leið og hann er talinn fær um það. Sjúkrahúsdvöl á aldrei að vera lengri en nauðsyn krefur. Sjúklingar sem koma inn í fyrirfram ákveðna aðgerð eða rannsóknir eiga að vita frá upphafi hversu langan tíma legið verði inni þannig að þeir geti gert sínar áætlanir í samræmi við það. Sjúklingar sem leggjast inn brátt eiga í langflestum tilfellum að fá upplýsingar innan sólarhrings um áætlaðan útskriftardag. Sú dagsetning getur að sjálfsögðu breyst en í flestum tilfellum er hægt að segja með nokkurri vissu hversu löng sjúkrahúsdvölin verður.

Það er stefna stjórnvalda og þar með Landspítala að allir eigi að geta dvalið heima hjá sér eins lengi og kostur er og fengið til þess nauðsynlega þjónustu frá samfélaginu. Varanleg vistun á hjúkrunarheimili er úrræði sem ekki er notað nema fullreynt sé að sjúklingur geti dvalið á heimili sínu eða í þjónustuíbúð.

Áður en sjúklingur útskrifast fær hann lyfseðla, endurkomutíma ef þörf krefur, ráðleggingar um mataræði, hreyfingu o.s.frv., upplýsingar um þjónustu sem í boði er og hvaðeina sem hann þarf að vita að lokinni sjúkrahúsvist.

Upplýsingar um undirbúning við útskrift 

Til sjúklinga og aðstandenda: Bið á Landspítala eftir flutningi á hjúkrunarheimili