Hármissir

Hármissir er algeng aukaverkun krabbameinsmeðferðar. Krabbameinslyf og geislar hafa áhrif á frumur sem skipta sér hratt og gera ekki mun á krabbameinsfrumum og öðrum frumum. Frumuskipting í hársekkjum er ör og þess vegna stöðvast endurnýjun hársins og hár sem fyrir er dettur eða brotnar af. Mörg krabbameinslyf og geislun á hársvæði geta valdið hármissi.

Það er mismunandi hversu mikill hármissirinn verður og hvenær hann byrjar. Þegar hárið byrjar að losna verður hársvörðurinn oft mjög aumur viðkomu og suma verkjar í hann. Hársvörðurinn verður einnig viðkvæmur fyrir kulda sem mikilvægt er að verjast.

Í krabbameinslyfameðferð er algengast að hárin á höfðinu detti af, en sum lyf valda því líka að önnur líkamshár fara t.d. augabrúnir, skegg og hár á kynfærum. Hjá sumum þynnist hárið og verður þurrt án þess að það detti allt af. Oftast byrjar hármissirinn í annarri viku frá upphafi meðferðar og fólk getur misst allt hárið á skömmum tíma. Þegar meðferðinni lýkur hefst hárvöxtur að nýju, oftast 1–2 mánuðum eftir að meðferðinni lýkur.

Geislameðferð á höfuð og önnur hársvæði getur valdið hármissi innan geislareitsins, en það fer þó eftir þeim geislaskammti sem gefinn er. Einnig er það háð geislaskammtinum hvort hárvöxtur hefst aftur að lokinni geislameðferð.

Þegar hárið vex aftur getur það orðið öðruvísi á litinn, dekkra eða ljósara, og annarrar gerðar en áður.

Hárhirða 

Til að forða hársverðinum frá mikilli ertingu er mælt með því að nota mild sjampó og lítið í einu. Mörgum finnst gott að klippa hárið styttra og sumir kjósa að láta raka það af þegar hárið byrjar að fara. Þegar hárið fer ekki af, en þynnist og verður líflaust, er mælt með því að nota hárnæringu, þerra það varlega og nota mjúka bursta. Talið er óhætt að lita hár á meðferðartímabilinu, en þó aðeins með u.þ.b. 70% lit (skol). Hins vegar er ekki mælt með því að fólk setji permanent í hárið á þessu tímabili.

Hárkollur og höfuðföt 

Þeir sem eiga von á að missa hárið ættu að útvega sér hárkollu áður en hármissirinn hefst, til þess að hún verði sem líkust eigin hári. Einnig eru til ýmiss konar höfuðföt, slæður og túrbanar sem gott getur verið að eiga. Læknir skrifar beiðni til Tryggingastofnunar ríkisins, sem á ári hverju greiðir ákveðna upphæð til hárkollukaupa. 

Að missa hárið

Fyrir flesta er það mikið áfall að missa hárið. Hármissir getur valdið því að sjálfsímyndin breytist og þá vakna oft ýmsar spurningar og tilfinningar sem nauðsynlegt er að deila með sínum nánustu. Áhrif á húð og neglur.


Unnið af Ásdísi L. Emilsdóttur og Sigurlaugu Magnúsdóttur, 1998. Yfirfarið af Sigrúnu Þóroddsdóttur og Önnu Ólafíu Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingum á Barnaspítala Hrinsins, 2002. Yfirfarið árið 2013.